Kynjabókhald BSRB

Jafnréttisnefnd BSRB tekur á hverju ári saman kynjabókahald  í samræmi við stefnu BSRB um jafnréttismál. Mikilvægt er fyrir BSRB að greina lykiltölur eftir kynjum á helstu sviðum í starfsemi bandalagsins og aðildarfélaganna bæði vegna aðhalds og til að fyrir hendi séu haldbærar upplýsingar til stuðnings stefnumótunar og ákvörðunartöku bandalagsins. Kynjabókhald BSRB 2014 En hér fyrir neðan fara nokkrar lykiltölur um kynjaskiptingu innan BSRB.

Kynjabókhald BSRB er nú tekið saman í fimmta sinn. Þar er að finna upplýsingar um kynskiptingu félagsmanna, stjórna aðildarfélaga, stjórnar og skipaðra fulltrúa á vegum BSRB. Einnig hlutföll kynja félags- stjórnar og nefndarmanna aðildarfélaganna, kynjahlutföll tilnefndra fulltrúa nefnda stjórnar og ráða á vegum BSRB. Bandalagið tilnefnir árlega fjölda manns til hvers kyns fulltrúastarfa, s.s. í vinnuhópa eða nefndir innan ráðuneyta, vegna lífeyrissjóðanna, vinnumarkaðsmála, fræðslumála og í erlent samstarf við önnur heildarsamtök launamanna og má finna kyngreindar upplýsingar þar um. Loks er yfirlit yfir helstu tölur yfir stjórnendur og starfsmenn skrifstofa BSRB og aðildarfélaga.

Kynjabókhaldið er nú tekið saman í fimmta skipti og nú eru tölur á milli ára í fyrsta sinn bornar saman. Bókhaldið í heild sinni verður aðgengilegt á vef BSRB frá 1. maí en hér á eftir fara lykiltölur. Helstu hlutföllin hafa lítið breyst á milli ára en af stjórn BSRB er hlutfall kvenna rúmlega 40% og karla 60%. Stjórn BSRB er skipuð formönnum allra aðildarfélaga og tölurnar segja okkur því jafnframt að fleiri karlmenn eru formenn í aðildarfélögum BSRB en konur. Þrátt fyrir það eru tæplega 70% félagsmanna BSRB konur en karlar aðeins 30%. Kynjabókhald síðustu ára hefur þannig leitt í ljós að auka þyrfti hlut kvenna í stjórn bandalagsins. Erfitt er hins vegar fyrir BSRB að vinna að slíkri aukningu enda eru formenn stéttarfélaga félagslega kjörnir á aðalfundum félaga. Stjórnir aðildarfélaga BSRB endurspegla betur kynjaskiptingu sinna félagsmanna. Þegar stjórnir allra aðildarfélaga bandalagsins eru skoðaðar sést að tæplega 60% stjórnarmanna eru konur en rúmlega 40% karlar.

Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur en með því er átt við að hlutur annars kynsins er mjög ráðandi í ákveðnum starfsstéttum. Slík kynskipting er ein aðal orsökin á kynbundnum launamun. Kynjabókhaldið gefur til kynna að margar starfsgreinar félagsmanna BSRB eru mjög kynskiptar. Þetta sést sérstaklega vel á svokölluðum fagfélögum þar sem flestir innan stéttarfélagsins starfa innan sömu starfsgreinar. Það eru félög á borð við Félag flugmálastarfsmanna ríkisins, Félag íslenskra flugumferðarstjóra, Landssamband lögreglumanna, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjúkraliðafélag Íslands og Tollvarðafélag Íslands. Á meðfylgjandi mynd má glöggt sjá hversu ráðandi hlutur annars kynsins er í þessum félögum.

Bandalagið hvetur fagfélögin eindregið til að vekja athygli atvinnurekenda þeirra félagsmanna á ofangreindum upplýsingum og hefja viðræður um athugun orsaka þessa og vinna að leiðum til breytinga þar á. Á vegum stjórnvalda er starfandi aðgerðarhópur um launajafnrétti á vinnumarkaði sem skipaður er aðilum vinnumarkaðarins og á BSRB fulltrúa í þeim hópi. Eitt af hlutverkum þess hóps er að kanna orsakir kynbundins launamunar og kynskipts vinnumarkaðar. BSRB mun halda áfram að vekja athygli á vandanum sem hlýst af kynskiptum vinnumarkaði á komandi árum og þrýsta á stjórnvöld að aðstoða við að rétta hlut kynjanna af innan ákveðinna starfsstétta.

Kynjabókhald BSRB 2014


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?