Leita að stofnunum sem vilja styttri vinnuviku

Auglýst hefur verið eftir umsóknum frá vinnustöðum hjá ríkinu sem vilja taka þátt í tilraunaverkefni ríkisins og BSRB um styttingu vinnuvikunnar. Í auglýsingu frá velferðarráðuneytinu eru vinnustaðir um allt land hvattir til að sækja um.

Með tilraunaverkefninu er ætlunin að kanna hvort stytting vinnuvikunnar úr 40 stundum í 36 án skerðingar á launum geti leitt til gagnkvæms ávinnings fyrir launafólk og vinnuveitendur. Velja á fjóra vinnustaði til þátttöku í verkefninu. Það mun hefjast 1. febrúar næstkomandi og mun standa í eitt ár.

Stjórnendur á þeim vinnustöðum hjá ríkinu sem vilja taka þátt í verkefninu þurfa að sækja um fyrir 7. nóvember næstkomandi. Við mat á umsóknum verða eftirtalin atriði höfð til hliðsjónar, auk annarra:

  • Að stöðugildi á vinnustaðnum séu 20 eða fleiri.
  • Að 30% starfsmanna á vinnustaðnum að lágmarki séu í aðildarfélögum BSRB.
  • Fjöldi svipaðra starfa á vinnustaðnum.
  • Vinnufyrirkomulag – vaktavinna eða dagvinna.
  • Að meirihluti starfsmanna sé í 70-100% starfshlutfalli.

Óskað er eftir að í umsóknum komi fram hugmyndir um hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma á viðkomandi vinnustað. Einnig skal koma fram hvernig megi meta áhrif styttingu vinnutíma á vellíðan starfsfólks, starfsanda og þá þjónustu sem vinnustaðurinn veitir með tilliti til gæða og hagkvæmni. Þátttaka stærri vinnustaða getur afmarkast við deild eða svið innan vinnustaðarins að teknu tilliti til ofangreindra viðmiða.

Starfshópur um tilraunaverkefnið er skipaður fulltrúum velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og BSRB. Hlutverk hópsins er meðal annars að velja vinnustaði til þátttöku í tilraunaverkefninu og meta árangur þess. Starfshópurinn mun skila skýrslu um verkefnið eigi síðar en í lok september 2018.

Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar útvíkkað

BSRB tekur einnig þátt í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar. Verkefnið hefur staðið í eitt og hálft ár og var nýverið framlengt til 1. júní 2017. Tveir vinnustaðir hafa tekið þátt í verkefninu hingað til en nú hefur verið ákveðið að fjölga þeim.

Helstu niðurstöðurnar af verkefninu fram til þessa eru þær að andleg líðan starfsfólksins hefur batnað og langtímaveikindi dragast saman. Enginn munur mælist á viðhorfi til þjónustu eða vinnutíma og ekki mælist munur á afköstum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?