Lífskjarasamningurinn leiðir launaþróun en ekki opinberir starfsmenn

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Þó að ágætis árangur hafi náðst í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB vorið 2020 er langt því frá að hið opinbera sé farið að leiða launaþróun í landinu eins og ýmsir hafa haldið fram undanfarið. Hið rétta í málinu er að Lífskjarasamningurinn, sem gerður var á almenna markaðinum, leiddi launaþróunina. Opinberu félögin sömdu í kjölfar hans og um sambærilegar launahækkanir.

Mikið hefur verið skrifað um nýbirtar upplýsingar um þróun launavísitölu frá 2019. Réttilega hefur verið bent á að hlutfallslegar launahækkanir opinberra starfsmanna hafi verið meiri heldur en starfsfólks á almenna vinnumarkaðnum. Líkt og gjarnan er þegar allt kapp er lagt á að mála tiltekna mynd er alfarið sleppt að benda á hið augljósa í þessu, að launahækkanirnar eru hlutfallslega hærri vegna samsetningar hópsins sem launahækkanirnar fékk, það er hve hátt hlutfall er með lágar tekjur. Svo er látið liggja á milli hluta að þetta er staðan á einum tilteknum tímapunkti og segir ekki til um launaþróun í gegnum árin eða hvort launasetning opinberra starfsmanna sé sanngjörn eða eðlileg með hliðsjón af þeim kröfum sem störfin gera til starfsmanna né mikilvægi framlags þeirra til verðmætasköpunar.

Það verður að hafa í huga að launamunur á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, hefur verið metinn að meðaltali 16 prósent, opinberum starfsmönnum í óhag. Einnig að launakjör opinberra starfsmanna taka almennt eingöngu mið af því sem kjarasamningur segir. Á almenna vinnumarkaðnum er þessu öfugt farið, þar eru laun almennt hærri heldur en sagt er fyrir um í kjarasamningum.

Hækkuðu opinberir starfsmenn meira?

Í Lífskjarasamningnum sem gerður var á almennum vinnumarkaði 2019 var samið um krónutöluhækkanir, enda markmiðið að hækka lægstu launin hlutfallslega mest. Til að tryggja að það markmið næðist var samið um að taxtalaun tækju meiri hækkunum en markaðslaun. Þegar aðildarfélög BSRB sömdu fyrir hönd sinna félagsmanna árið 2020 var sama krafan sett á oddinn. Krafan var sú að lægstu laun hækkuðu mest og því samið um krónutöluhækkanir miðað við taxtalaun enda mikill meirihluti opinberra starfsmanna á taxtalaunum.

En hvernig stendur þá á því að mæling á launahækkunum sýna að opinberir starfsmenn hafi hækkað hlutfallslega meira en félagar okkar á almenna vinnumarkaðinum? Svarið við því má til dæmis lesa úr nýrri skýrslu Kjaratölfræðinefndar sem kom út í síðustu viku.

Staðan er sú að launin eru hæst á almenna markaðnum hjá öllum félagsmönnum heildarsamtaka launafólks en launin hjá hinu opinbera eru almennt lægri. Þar sem áherslan í kjarasamningunum var á að hækka lægstu laun hafði það hlutfallslega meiri áhrif á opinbera markaðnum en þeim almenna.

Minna hefur farið fyrir því í umræðunni að þeir hópar sem hafa hækkað hlutfallslega mest eru konur og innflytjendur. Þannig má ætla að lítillega dragi úr launamun kynjanna. Það kemur til af þeirri staðreynd að laun kvenna og innflytjenda eru almennt lægri en annarra. Þá eru konur gjarnan í hlutastörfum sem eru lægra launuð – bæði sem hlutfall af 100 prósent starfi en einnig að því er virðist þó þau séu uppreiknuð miðað við fullt starf. Það eitt og sér kallar á nánari rýni enda vísbending um að einhvers staðar sé pottur brotinn, því samkvæmt lögum á starfsfólk í hlutastarfi á að fá laun í hlutfalli við það sem það hefði annars fengið í fullu starfi.

Styttingin hækkar vísitölu, ekki launin

En það kemur fleira til. Hluta af því sem telst til hækkana við mat á yfirstandandi kjarasamningstímabili má rekja til launahækkana frá síðasta kjarasamningstímabili. Þannig fengu félagar í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum 1,5 prósent launaauka vegna svokallaðrar launaþróunartryggingar í apríl 2019. Um hana var samið 2015 til að tryggja að launaþróun starfsfólks á opinberum vinnumarkaði myndi ekki dragast aftur úr launaþróun á almennum vinnumarkaði. Að samkomulaginu stóðu allir aðilar vinnumarkaðarins og það náði til ársloka 2018.

Stytting vinnuvikunnar í dagvinnu hefur líka áhrif til hækkunar launavísitölu. Það þýðir ekki að laun opinberra starfsmanna hækki vegna hennar heldur snýst þetta um hvernig vísitalan er mæld. Launavísitala er verðvísitala sem mælir tímakaup reglulegra launa. Það veldur því að þegar vinnustundum fækkar þá hækkar launavísitalan þó að greidd laun hækki ekki. Því er hluti af þeim hækkunum sem mælast hjá opinberum starfsmönnum ekki að skila fleiri krónum í budduna. Með heimild í kjarasamningi til að stytta vinnuvikuna í 36 stundir í dagvinnu nálgast vinnutími opinbera starfsmanna það sem best gerist á almenna markaðnum en að tala um hana sem ígildi launahækkunar hjá opinberum starfsmönnum er í besta falli misskilningur.

Kostnaður við styttingu vinnuviku í vaktavinnu hefur einnig verið nefndur í þessum efnum. Styttingin tók gildi 1. maí síðastliðinn og er því ekki komin inn í mælingar. Þar var sömuleiðis samið um styttri vinnuviku vaktavinnufólks hjá ríki og sveitarfélögum líkt og gert var fyrir mörgum árum á almennum vinnumarkaði, til dæmis í stóriðjunni og hjá starfsfólki í flugsamgöngum.

Jákvætt að markmið um hækkun lægstu launa hafi náðst

Þvert á það sem mætti halda við lestur á fyrirsögnum eru það ekki opinberir starfsmenn sem leiða launaþróunina heldur var það Lífskjarasamningurinn sem setti tóninn í undangenginni kjarasamningslotu. Það vita flest þeirra sem fyrirsagnirnar rita. Það er því umhugsunarefni hvert hið raunverulega markmið innleggsins í opinbera umræðu er þegar skrifað er gegn betri vitund.

Launaliður kjarasamninga opinberra starfsmanna hækkaði í samræmi við lífskjarasamninginn en þar sem launin eru lægri hjá hinu opinbera og áherslan var á hækkun lægstu launa mælist hlutfallsleg hækkun meiri hjá opinberum starfsmönnum. Það er ekki neikvæð þróun heldur einmitt í anda bæði Lífskjarasamningsins og kjarasamninga aðildarfélaga BSRB að laun þeirra sem minnst hafa milli handanna hækki meira en þeirra sem eru betur settir í samfélaginu. Við eigum að fagna þessum góða árangri í stað þess að tala hann niður.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?