Löngu tímabært að móta heilbrigðisstefnu

Heilbrigðisráðherra hefur boðað að víðtækt samráð verði haft um nýja heilbrigðisstefnu.

BSRB telur löngu tímabært að móta heildstæða heilbrigðisstefnu líkt og unnið er að í heilbrigðisráðuneytinu. Heilbrigðisráðherra boðar víðtækt samráð um stefnuna í grein í Morgunblaðinu í dag og mun bandalagið að sjálfsögðu koma sínum áherslum áleiðis.

Eins og fram kemur í grein Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra verður haldið sérstakt heilbrigðisþing þann 2. nóvember. Að því loknu verða drög að heilbrigðisstefnu sett í víðtækt samráð sem mun leiða af sér þingsályktunartillögu sem til stendur að leggja fyrir Alþingi á vorþingi.

Vinna við heilbrigðisstefnuna hefur verið í gangi í ráðuneytinu í nokkurn tíma og það er gott að það sé loksins farið að sjá til lands í þeirri vinnu. BSRB hefur lengi bent á mikilvægi þess að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera á réttlátan hátt. Ítrekaðar rannsóknir sýna að þar á bandalagið samleið með þorra landsmanna.

Þannig sýna rannsóknir Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, að mikill meirihluti landsmanna, um 86 prósent, vilja að rekstur sjúkrahúsa eigi fyrst og fremst að vera á hendi ríkisins. Aðeins 1,3 prósent vilja einkavæða þjónustu spítalanna meira en orðið er.

Þrátt fyrir þetta er stöðugur þrýstingur á heilbrigðisráðuneytið og heilbrigðisráðherra að auka við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það væri stórlega misráðið að láta undan þeim þrýstingi og þvert á vilja almennings í landinu.

Hvað er best fyrir almenning?

Á endanum snýst það hvernig rekstrarform eru notuð í heilbrigðiskerfinu um einfalda spurningu. Er einkarekstur almannahagur? Þar er svarið afgerandi. Það er þvert á hagsmuni almennings að auka enn frekar einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, enda stór hluti kerfisins þegar í höndum einkaaðila.

Ástæðurnar eru nokkrar. Þannig má til dæmis nefna að einkareksturinn takmarkar getu og svigrúm stjórnvalda til að taka stefnumótandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag kerfisins. Þjónustan verður einnig dreifðari en ella og brotakennd þar sem margir aðilar með mismunandi sýn veita þjónustuna.

Þá er einnig mikilvægt að Landspítalinn hafi það bolmagn sem þarf til að vera raunverulegt háskólasjúkrahús þar sem komandi kynslóðir heilbrigðisstarfsfólks fær menntun. Það hlutverk er í hættu ef sífellt fleiri aðgerðir eru gerðar á einkastofum sem enga hagsmuni hafa af því að skila þekkingu áfram til nýrra kynslóða.

Tal um val sjúklinga um hvar þeir sækja sér þjónustu er í besta falli blekkjandi. Sú hugmynd gengur ekki upp, enda ljóst að hún gengur út frá því að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda hafi þann tíma og þá þekkingu sem þarf til að bera saman þjónustu hjá sérhæfðum heilbrigðisfyrirtækjum.

Hættum hringlandahættinum

BSRB fagnar því að nú eigi að skoða heilbrigðiskerfið heildstætt og móta stefnu til framtíðar. Það er óskandi að vel takist til svo hringlandaháttur með þetta mikilvæga kerfi verði úr sögunni.

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir betra heilbrigðiskerfi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?