#Metoo byltingin mun leiða til breytinga

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, á fundi Vinnueftirlits ríkisins.

Markmið fyrsta tístsins sem leiddi til #Metoo byltingar um allan heim var að ljá þolendum kynferðisofbeldis og áreitni rödd og varpa ljósi á umfangi vandans. Þökk sé þeim fjölda kvenna sem hafa sýnt það hugrekki að stíga fram hafa þessi skilaboð sannarlega málað skýra mynd og haft veruleg áhrif á okkur öll.

Í íslenskum #metoo frásögnum birtist með skýrum hætti það sögulega kerfisbundna misrétti og óréttlæti sem konur hafa þurft að þola á vinnumarkaði.

Gerendur eru yfirmenn, samstarfsmenn og skjólstæðingar, viðskiptavinir eða aðrir sem samskipti þarf að hafa við vegna starfsins. Það er löngum vitað að slík hegðun þrífst best þar sem ríkir valdaójafnvægi og algengt að þolendur séu í veikri stöðu gagnvart geranda.

Óttast um störf og starfsþróun

Helsti ótti kvenna við að stíga fram og láta vita af slíku broti gagnvart sér hefur verið að enginn muni trúa þeim, það veiki stöðu þeirra eða sé þeim almennt til minnkunar. Stærsti óttinn er sá að þær muni missa störf sín eða málið hafi skaðleg áhrif á starfsþróun þeirra.

Vandamálið snýr því ekki eingöngu að andlegri og líkamlegri heilsu og öryggi á vinnustaðnum heldur einnig að fjárhagslegu sjálfstæði og öryggi. Það er skylda okkar allra að hlusta á þær konur sem hafa stigið fram og þær konur sem eiga eftir að stíga fram. Þær hafa krafist breytinga og skilað skömminni. Við verðum einnig að hafa í huga að fjöldi kvenna treystir sér ekki til að stíga fram þar sem þær eru enn í þessum aðstæðum – starfsumhverfi sem ógnar öryggi þeirra. Það er okkar að viðurkenna þennan vanda og bregðast við.

Kröfur þeirra #metoo kvenna sem hafa stigið fram beinast til karla, atvinnurekenda, stéttarfélaga og stjórnvalda. Kröfurnar eru:

 • Að allir karlar taki ábyrgð.
 • Að atvinnurekendur hlusti, taki frásagnirnar alvarlega og viðurkenni vandann.
 • Að atvinnurekendur taki af festu á málinu og setji sér viðbragðsreglur. Þeir þurfa að lofa konum að þær þurfi ekki að þegja meir því þær muni fá stuðning.
 • Að stjórnvöld setji fram skýra aðgerðaráætlun til að vinna bug á meininu.
 • Að misréttinu linni og valdaójafnvægi verði upprætt.
 • Að konur njóti vinnufriðar, fái að starfa í öruggu starfsumhverfi og fái að vinna störf sín án áreitni, ofbeldis, hlutgervingar eða mismununar.
 • Að markviss fræðsla verði fyrir starfsfólk á birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni og kynbundinnar mismununar og hvernig atvinnurekandi muni taka á slíku ef upp kemur.
 • Að atvinnurekendur taki samtalið við starfsfólk sitt og þau setji sér saman siðareglur.
 • Að stjórnendur eða þeir sem vinna eigi úr slíkum málum fái fræðslu og þjálfun.
 • Að þolendum sé veittur stuðningur til að vinna úr reynslu sinni og þolendur fái aðstoð frá viðeigandi aðilum við að færa mál sín í rétt ferli.
 • Að gerendur fái fræðslu og viðeigandi meðhöndlun sem til forvarnar endurtekningu brota.
Öflugar forvarnir nauðsynlegar

Eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að útrýma þeirri meinsemd sem áreitni og ofbeldi er á vinnumarkaði er að standa fyrir öflugum forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum.

Núgildandi reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum leggur ríkar skyldur á herðar atvinnurekenda að fyrirbyggja og stöðva slíka hegðun. Samkvæmt henni ber atvinnurekendum skylda til að gera skriflegt áhættumat og áætlun um forvarnir til að koma í veg fyrir slíka hegðun og þær aðgerðir sem grípa skuli til ef þetta hátterni á sér stað eða hefur átt sér stað.

Það lýsir vel þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir á vinnumarkaði að enn séu fjölmargir atvinnurekendur sem ekki uppfylla þessa skyldu. Það er ein af frumforsendum þess að uppræta megi þennan vanda á vinnustöðum að unnið sé eftir reglugerðinni.

BSRB sendi í gegnum aðildarfélög sín bréf til allra trúnaðarmanna á vinnustöðum þar sem óskað var eftir aðstoð þeirra við að fylgja því eftir að allir vinnustaðir hefðu innleitt ferla samkvæmt reglugerðinni.

Það er mikilvægt að svara kalli #metoo kvenna og stórefla aðgerðir til að vinna gegn áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði. Það verður einnig að gera með faglegum hætti og í samstarfi við starfsfólk. Við höfum orðið vör við að atvinnurekendur stytti sér leið með því að tileinka sér áhættumat og forvarnaráætlun annarra fyrirtækja eða stofnana. Það eru ekki rétt vinnubrögð, framkvæma á mat á hverjum vinnustað fyrir sig með tilliti til aðstæðna og menningar á vinnustaðnum.

Lærum við ekki af reynslunni?

Þá eru dæmi um vinnustaði sem virðast ekki hafa lært af reynslunni þrátt fyrir að kynferðisleg áreitni hafi átt sér stað þar. Fjöldi dómsmála þar sem fjallað er um áreitni eða ofbeldi á vinnustað eru teljandi á fingrum annarrar handar. Málin eru enn færri þar sem niðurstaðan er að umdeild hegðun teljist vera kynferðisleg áreitni í skilningi laga.

Eitt þessara dómsmála fjallar um kynferðislega áreitni varðstjóra gagnvart fangaverði. Varðstjóri var sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn almennum hegningarlögum með því að hafa strokið með hendi yfir brjóst fangavarðar utan klæða.

Í ljósi þekkingar á því máli er umhugsunarvert hvernig atvinnurekendur bregðast við í kjölfar slíkra mála gagnvart öllum starfshópnum. Konur í réttarvörslukerfinu sendi frá sér yfirlýsingu og frásagnir í tengslum við #metoo byltinguna. Þar birtist frásögn konu sem starfaði sem fangavörður eitt sumar með námi. Hún sagðist aldrei hafa orðið fyrir áreitni af hálfu fanga. Það sama átti ekki við um samstarfsmenn. Hún segir frá því að samstarfsmaður hennar hafi glottandi klipið hana í rassinn fyrir framan hóp fanga.

Svo sagði hún:

Ég tilkynnti þetta aldrei til forstöðumanns fangelsisins. Ég veit ekki hver ástæðan var. Annað hvort sú að mér fannst ég geta dílað við þetta sjálf - sem er að sjálfsögðu ekki það sem maður á að gera. Eða það að stuttu áður en ég hóf þarna störf hafði kvenkyns fangavörður kært samstarfsmann sinn fyrir kynferðislega áreitni og hún var skulum við segja, ekki hátt skrifuð hjá starfsmannahópnum eftir það.

Ein einfaldasta aðgerð sem grípa þarf til er að allir þeir sem hafa völd, fara með stjórnun mannauðs eða koma að ákvörðunartöku sem tengist starfsfólki gefi skýr skilaboð um að slík hegðun verði ekki liðin og hún muni hafa í för með sér afleiðingar.

Þarf aukna fræðslu

Ljóst er að sumir vinnustaðir þurfa að grípa til meiri aðgerða en aðrir. Það er þó mikilvægt að hafa í huga þá þögn sem hefur hingað til ríkt um þessi mál og kanna sérstaklega innan vinnustaðar hvort starfsfólk hafi orðið fyrir eða upplifað slíkt. Það er ekki sjálfgefið að allt hafi komið upp á yfirborðið. Vegna þessa verður einnig að auka fræðslu um birtingarmyndir, áhrif, afleiðingar og úrræði á vinnustaðnum. Ekki síst að skapa starfsumhverfi þar sem þolendur treysta sér til að stíga fram vitandi að þeir muni njóta stuðnings atvinnurekanda.

Ég trúi því að tilkoma #metoo byltingarinnar leiði til verulegra breytinga. Ég trúi því að við verðum upplýstari, meðvitaðri og leggjum okkar af mörkum til að innleiða raunverulegar breytingar. Því verður fylgt fast á eftir af hálfu BSRB. Saman munum við tryggja að í framtíðinni þurfi enginn að segja lengur #metoo.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Greinin byggir á ræðu sem flutt var á fundi Vinnueftirlits ríkisins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?