NFS mótmælir aðgerðum finnsku ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Finnlands hefur kynnt áform um að afnema samningsrétt verkalýðshreyfingarinnar, grípa inn í gerða kjarasamninga og skerða kjör launafólks á fjölmörgum sviðum. Þessi aðgerð mun sérstaklega hafa neikvæð áhrif á láglaunafólk, konur og þá sem starfa utan dagvinnutíma og um helgar.

Fyrr í dag kynnti forysta allra samtaka launafólks á Norðurlöndunum sem eiga aðild að Norræna verkalýðssambandinu (NFS) bréf sem hefur verið sent ríkisstjórn Finnlands þar sem árásum á samningsfrelsi launafólks og kjör þess er harðlega mótmælt.  Bæði BSRB og ASÍ eru aðilar að NFS og skrifa formenn beggja samtaka undir bréfið ásamt öðru forustufólki launafólks á Norðurlöndunum.

Í bréfinu er bent á að samningar aðila vinnumarkaðarins er forsenda norræna vinnumarkaðskerfisins og grundvöllur að norrænni velferð.  Norræna vinnumarkaðskerfið er það fyrirkomulag sem hefur skilað hvað mestum hagvexti, samkeppnishæfni og að takast á við breytingar á vinnumarkaði í sátt. Sett er fram krafa um að finnska ríkisstjórnin dragi til baka tillögurnar sem takmarka frjálsan samningsrétt og lýðræðisleg réttindi launafólks.

Formenn aðildarfélaga NFS héldu blaðamannafund fyrr í dag á þingi Evrópusambands verkalýðsfélaga þar sem bréf þeirra til finnsku ríkisstjórnarinnar var kynnt. Var m.a. bent á að boðaðar aðgerðir finnsku ríkisstjórnarinnar beinist að því að veikja stöðu verkalýðshreyfingarinnar og vinnumarkaðskerfisins í Finnlandi. Í framtíðinni kann verkalýðshreyfingin á hinum Norðurlöndunum að standa frammi fyrir samskonar árásum. Allir forystumennirnir lögðu áherslu á að það eru sameiginlegir hagsmunir launafólks á Norðurlöndunum og um heim allan að hrinda árásum finnsku ríkisstjórnarinnar vegna þess fordæmis sem þær gefa.

Bréfið í heild sinni má lesa hér að neðan:

 

Standa ber vörð um frjálsan samningsrétt og norræna vinnumarkaðskerfið

Norræna verkalýðssambandið (NFS) og aðildarsamtök þess mótmæla þeim fyrirætlunum ríkisstjórnar Finnlands að veikja réttindi launafólks með því að takmarka frjálsan samningsrétt og frelsi til samningaviðræðna. Besti leiðin við að takast á við núverandi vandamál eru samningsviðræður og heildarkjarasamningar.

NFS fullyrðir að ef finnska ríkisstjórnin fær framgengt skerðingum og breytingum á vinnumarkaðslöggjöfinni sem kynntar hafa verið mun það hafa ófyrirséðar samfélagslegar afleiðingar, bæði í Finnlandi og öðrum Norðurlöndum.

Samningaviðræður á jafnræðisgrunni milli aðila vinnumarkaðarins eru forsenda norræna vinnumarkaðskerfisins og grundvöllur að norrænni velferð. Norræna vinnumarkaðskerfið er það fyrirkomulag sem hefur skilað hvað mestum hagvexti, samkeppnishæfni og árangri við að takast á við skipulagsbreytingar í sátt. Norræn kjarasamningamódelið tryggir jafnframt stöðugleika og fyrirsjáanleika til framtíðar.

Aðferðir og hegðun sem ríkisstjórn Finnlands velur, til að skerða kjör og ná fram aukinni samkeppnishæfni, skaðar norræna vinnumarkaðskerfið og setur frjálsan samningsrétt í uppnám. Fjöldi alþjóðlegra samninga og reglugerða tryggir félagafrelsið og réttinn til að gera kjarasamninga um laun og önnur starfskjör. Grundvallarsamþykktir ILO nr. 87 og 98, Sáttmáli Evrópu, Félagsmálasáttmáli Evrópu og samþykktir Sameinuðu þjóðanna um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og samþykktir SÞ um efnahagsleg-, félagsleg- og menningarleg réttindi eru dæmi um það.

Áætlanir finnsku ríkisstjórnarinnar um að draga úr og takmarka réttinn til frjálsra samninga með þvingaðri lagasetningu og banni er árás á finnska og norræna vinnumarkaðskerfið. Þetta getum við ekki samþykkt.

Við innan norrænu verkalýðshreyfingunni krefjumst þess að finnska ríkisstjórnin dragi til baka tillögurnar sem takmarka frjálsan samningsrétt og grundvallar lýðræðisleg réttindi á vinnumarkaði. Við erum ekki á móti breytingum sem eru nauðsynlegar til að skapa samkeppnishæfni og heilbrigðan efnahag að teknu tilliti til stöðunnar Finnlandi. Verkalýðshreyfingin er reiðubúin til að axla ábyrgð og leita sameiginlegra lausna með samráði og samstarfi.

NFS sameinar heildarsamtök launafólks á Norðurlöndum og eru fulltrúar 9 milljóna félagsmanna. Finnsk aðildarfélög NFS eru SAK, STTK og Akava.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?