Ný alþjóðleg samþykkt gegn ofbeldi og áreitni í vinnu

Samþykkt ILO tekur gildi tólf mánuðum eftir að tvö aðildarríki hafa fullgilt hana.

Ný samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) leggur skyldur á aðildarríki stofnunarinnar, þar á meðal Ísland. Meðal þess sem þar má finna eru ákvæði um vernd starfsmanna fyrir áreitni á leið til og frá vinnu, í tölvupósti og á samfélagsmiðlum.

Þing ILO gekk í júlí síðastliðnum frá nýrri samþykkt gegn ofbeldi og áreitni í vinnuumhverfinu. Samþykktin hefur verið í vinnslu í nokkur ár, og hefur alþjóðaverkalýðshreyfingin barist ötullega fyrir samþykkt hennar. Fyrir þingið var enn óljóst hvort tækist að afgreiða samþykktina, þar sem efasemdir og gagnrýni höfðu komið bæði frá atvinnurekendum og einhverjum ríkisstjórnum. ILO er eina þríhliða alþjóðastofnunin, þar sem eiga sæti fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekanda og stjórnvalda. Ávallt er stefnt að því að ná samstöðu um mál.

Um sögulega samþykkt er að ræða, en baráttan gegn kynbundnu og kynferðislegu áreitni og ofbeldi hefur verið ofarlega á baugi árum saman, en þó kannski mest síðustu ár, eftir að #metoo hreyfingin afhjúpaði alvarleika og algengi brota af þessu tagi. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum er einungis þriðjungur landa með löggjöf sem bannar áreitni og ofbeldi í vinnu. Það þýðir að 235 milljónir kvenna um allan heim hafa enga vernd né úrræði á þessu sviði.

Skyldur á herðum atvinnurekenda

Ísland hefur lengi haft bæði í löggjöf og reglugerðum ákvæði sem banna slíka hegðun, og leggja ákveðnar skyldur á atvinnurekendur að tryggja fræðslu og úrræði ef brot verða. Þrátt fyrir það sýna frásagnir íslenskra kvenna í #metoo byltingunni að víða er pottur brotinn í þessum efnum. BSRB hefur, ásamt öðrum samtökum launafólks og kvennahreyfingunni, þrýst á að stjórnvöld bregðist við með markvissum hætti. Ýmsar greiningar og vinna er hafin, meðal annars á vettvangi Félagsmálaráðuneytisins, með þátttöku BSRB, en engar breytingar hafa orðið. Þó hafa margir atvinnurekendur brugðist við með því að yfirfara verkferla og auka fræðslu.

Í samþykktinni eru lagðar ýmsar skyldur á aðildarríki ILO. Hugtökin ofbeldi og áreitni eru skilgreind og tiltekið hverjir njóta verndar. Er það allt vinnandi fólk, sama hvert ráðningarfyrirkomulag þeirra er, þar á meðal umsækjendur, lærlingar og sjálfboðaliðar. Samþykktin gildir á öllum sviðum, og er óformlega hagkerfið sérstaklega nefnt, en á heimsvísu starfa gríðarlega margir, ekki síst konur, í þeim geira.

Tekið er fram að samþykktin gildi einnig í vinnuferðum, í samskiptum tengdum vinnu, svo sem í tölvupósti og á samfélagsmiðlum, og á leið til og frá vinnu. Í íslenskum lögum er ekki skýrt að starfsmenn séu verndaðir fyrir áreitni á leið sinni til og frá vinnu, en hið gagnstæða gildir til dæmis um vinnuslys.

Unnið gegn heimilisofbeldi

Þá eru einnig lagðar skyldur á aðildarríki að innleiða reglur, fræðslu og úrræði, svo sem í gegnum vinnueftirlit, dómstóla eða kærunefndir, og á að tryggja samráð við aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu á reglunum. Þá vekur einnig athygli að fjallað er um heimilisofbeldi í samþykktinni, og fjallað um mikilvægi þess að aðildarríki átti sig á áhrifum heimilisofbeldis á vinnuumhverfið og reyni að vinna gegn því. Þá er starfsfólki einnig gert kleift að fara úr vinnuaðstæðum þar sem mikil hætta er á alvarlegu ofbeldi eða áreitni og fjallað um mikilvægi þess að stofnunum, svo sem Vinnueftirlitinu, hæfi nægilegar heimildir og úrræði til að vinna gegn og vinna úr áreitni og ofbeldi.

Samþykktin tekur gildi tólf mánuðum eftir að tvö aðildarríki ILO hafa fullgilt hana. Ísland hefur ekki verið framarlega í að fullgilda ILO samþykktir en BSRB mun taka til skoðunar hvort þrýsta eigi á íslensk stjórnvöld um að fullgilda þessa samþykkt í ljósi þess hversu mikilvæg hún er.

Samþykkt ILO má finna hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?