Ræða formanns BSRB á 1. maí

„Okkur tókst að byggja upp samfélag þar sem jöfnuður fólksins var settur framar öllu – kerfi sem veitti fólki jafnari tækifæri, óháð efnahag, fjölskylduaðstæðum og  búsetu. Eins og sakir standa erum við að þróast frá þessari samfélagsgerð yfir í samfélag aukinnar misskiptingar og ójafnaðar. Grunngildum okkar er ógnað og það munum við ekki sætta okkur við,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í 1. maí ræðu sinni á Ingólfstorgi fyrr í dag á baráttudegi verkalýðsins.

"Okkar hlutverk að standa  vörð um þessa samfélagsgerð"

Mikill fjöldi kom saman til baráttufundarins í Reykjavík í dag. Fólk safnaðist saman við Hlemm og hélt kröfugangan niður Laugarveg og áleiðs að Ingólfstorgi þar sem útifundurinn fór fram. Yfirskrift baráttudags verkalýðsins að þessu sinni var „Samfélag fyrir alla“ og var aukin misskipting formanni BSRB nokkuð hugleikin í ræðu dagsins.

„Við höfum séð að stjórnvöld hafna tekjum frá þeim sem helst eru aflögufærir. Skattar hafa verið lækkaðir á þá best settu og von er á skuldaniðurfellingum sem koma á engan hátt til móts við þá sem mest þurfa á að halda. Og enn eru boðaðar skattalækkanir,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir og bætti við:

„Þess vegna er allt útlit fyrir að velferðarkerfið – öryggisnetið okkar – eigi eftir að veikjast enn frekar um leið og álagið á það á eftir að aukast. Frekari skattalækkanir á þá sem mest hafa þýða ekkert annað en meiri niðurskurð á almannaþjónustu, aukin útgjöld þeirra tekjulægstu og aukin ójöfnuð. Það viljum við ekki sjá. Þótt slíkar aðgerðir geti skilað bættum hagtölum til skamms tíma mun það alltaf kosta okkur meira til lengri tíma litið. Skattkerfið á að nýta til lífkjarajöfnunar. Það er hugsunin á bak við okkar þjóðfélagsgerð og það stuðlar öðru fremur að auknum jöfnuði. Það er okkar hlutverk að standa  vörð um þessa samfélagsgerð.“

Stjórnvalda að nýta tækifærið

Elín Björg lagði jafnframt á það áherslu að með nýjum kjarasamningum á vinnumarkaði hefði launafólk enn og aftur axlað ábyrgð. Elín Björg kallaði eftir því að stjórnvöld myndu nýta það tækifæri sem launafólk hefði veitt þeim til að koma á stöðugra efnahagsumhverfi.

 „Megin markmið nýrra kjarasamninga var að auka kaupmátt launa og ná tökum á verðbólgu og þannig hefur launafólk enn og aftur axlað ábyrgð og lagt sitt af mörkum til að hér skapist aðstæður til að koma á stöðugu efnahagsumhverfi. En það eru ekki bara kjarasamningar sem stýra hagtölunum. Hlutur ríkis, sveitar¬félaga og fyrirtækja er að sama skapi mikilvægur og þessir aðilar verða að halda að sér höndum við verð- og gjaldskrárhækkanir ef markmið um stöðugra efnahagsumhverfi og aukinn kaupmátt eiga að ná fram að ganga. Því miður hafa þessir aðilar ekki axlað sömu ábyrgð og launafólk. Og það er í raun grátlegt því stjórnvöld kölluðu mjög eftir því að hér gætu skapast aðstæður fyrir aukinn stöðugleika. Launafólk hefur nú skapað stjórnvöldum einstakt tækifæri og það er stjórnvalda að nýta það.“

Réttlátt samfélag jafnaðar

Formaður BSRB lagði einnig áherslu á ábyrgð kjörinna fulltrúa að stuðla að auknum jöfnuði og standa við þau loforð sem gefin eru í aðdraganda kosninga, ekki síst til að auka traust á störf stjórnvalda.

„Framundan eru kosningar til sveitastjórna.  Loforðaflaumurinn er þegar byrjaður að dynja á okkur og þar lofa flestir úrbótum á því sem ég hef nefnt hér á undan. Ég vona sannarlega að staðið verði við að efla nærþjónustuna, aukið verði framboð á leiguhúsæði, að betur verði gert við barnafjölskyldur, tekjulága og þá sem þurfa að reiða sig á aðstoð hins opinbera. Þau sem munu veljast til að stjórna sveitarfélögum og borg eftir komandi kosningar standa frammi fyrir tækifæri til að efla traust á kjörna fulltrúa , og ekki veitir af. Aukið traust mun þó aðeins hljótast með efndum þess sem lofað hefur verið, ekki með undanbrögðum og eftir á túlkunum loforðanna – heldur raunverulegum efndum,“ sagði Elín Björg sem að lokum lagði áherslu á að launafólk hefði á síðustu árum tekið á sig þungar byrgðar og nú þyrfti það að sjá árangur þess:

„Kæru félagar. Launafólk hefur mikið á sig lagt á síðustu árum og nú verðum við að sjá árangur af erfiðinu. Það er hagur okkar sem hér erum. Það er hagur þeirra sem fara með stjórn ríkis og sveitarfélaga. Það er hagur launafólks. Það er hagur okkar allra. Með samtakamættinum getum við varið það kerfi sem á síðustu áratugum hefur verið reist og með samtakamættinum getum við byggt okkur enn betra samfélag, réttlátara samfélag – landsmönnum öllum til hagsbóta. Réttlátt samfélag jafnaðar er eina tryggingin fyrir velsæld þjóðarinnar,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir að lokum.

Ræðu formanns BSRB má nálgast í heild sinni hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?