Rannsókn sýnir þörf fyrir styttingu vinnuvikunnar

Styttri vinnutími auðveldar fjölskyldufólki að samræma vinnu og fjölskyldulíf og eykur möguleikann á að eiga gæðastundir saman.

Bæði konur og karlar segja erfitt að samræma fjölskyldulífið og vinnuna í nýlegri rannsókn á streitu í daglegu lífi meðal fjölskyldufólks á Íslandi. Skýr krafa kom fram hjá þátttakendum í rannsókninni um styttingu vinnuvikunnar til að minnka álag og auka lífsgæði.

Rannsóknin var gerð af Andreu Hjálmsdóttur, lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, og Mörtu Einarsdóttur, sérfræðingi hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Markmiðið var að skoða hvort fjölskyldufólk upplifi streitu í daglegu lífi við samræmingu fjölskyldulífs og vinnu og hvort munur sé á reynslu kvenna og karla hvað það varðar.

„Það var áberandi hversu mikið álag fólk upplifði í hinu daglega lífi og mörg töluðu um langvarandi álag í tengslum við samræmingu fjölskyldu og atvinnu,“ segir meðal annars í niðurstöðum rannsóknar Andreu og Mörtu. „Þátttakendur færðu streitu ekki alltaf í orð en töluðu um sífellt samviskubit, togstreitu um forgangsröðun og vondar tilfinningar sem fylgdu þeirri upplifun að vera ekki að gera hluti nógu vel, til dæmis að ná ekki að sinna fjölskyldunni sem skyldi vegna álags í vinnunni og öfugt, að álag heima fyrir kæmi í veg fyrir að þau gætu sinnt vinnu sinni sem skyldi.“

Greina mátti mun á því hvernig konur og karlar töluðu um álag í daglegu lífi. Konurnar töluðu frekar um streitu út frá heimili og þörfum fjölskyldunnar, en karlar út frá vinnu. Það rímar vel við rannsóknir sem sýna að þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku kvenna hér á landi sé mun stærri hluti vinnuálags vegna barnauppeldis og heimilisstarfa á herðum kvenna en karla.

Skýr krafa um styttingu vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar var skýr krafa þátttakenda. Þeir sem nefndu hvernig þeir hafi náð að minnka álagið í sínu daglega lífi nefndu oftast að annar aðilinn í sambandinu, í öllum tilvikum konan, hafi minnkað starfshlutfall sitt til að geta betur sinnt börnunum og heimili. Þær konur sem voru í hlutastarfi sögðust gjörnýta þann tíma sem þær fengu með því að minnka starfshlutfallið til að sinna heimilisstörfum.

Margir þátttakendur í rannsókninni töldu að styttri vinnuvika gæti verið mikil gæfa fyrir lífsgæði fjölskyldufólks. BSRB hefur barist fyrir styttingu vinnuvikunnar árum saman og er krafan um 35 stunda vinnuviku nú á oddinum í kjaraviðræðum bandalagsins við ríki og sveitarfélög.

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?