Réttlæti og jöfn tækifæri fyrir alla

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.

Undanfarin tvö ár höfum við tekist á við heimsfaraldur með gríðarlegum áskorunum fyrir bæði heilsu og efnahag. Efnahagshorfurnar nú eru þó mun bjartari en spár gerðu ráð fyrir en álagið á heilbrigðisstofnanir, félagsþjónustuna, skóla, frístundastarf og fjölskyldur er þrátt fyrir það mikið þessa dagana vegna útbreiðslu faraldursins. Erfiðleikar undangenginna ára hafa líka lagst með mismunandi hætti á íbúa landsins. Þau ríkustu hafa orðið enn ríkari vegna hækkandi eignaverðs en lágtekjufólk hefur borið skarðan hlut frá borði. Eitt af stærstu verkefnum samtaka launafólks á hverjum tíma er að stuðla að auknum jöfnuði. Við berjumst fyrir því að verðmætunum sé skipt með jafnari hætti. Könnun Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins á stöðu launafólks er liður í því að kortleggja stöðu félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB, sem eru tæp 70 prósent alls launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöðurnar geta orðið grundvöllur aðgerða til að bregðast við skorti á efnislegum gæðum og þjónustu.

Í faraldrinum hefur mat okkar á þeim verðmætum sem felast í ákveðnum störfum breyst mikið. Við höfum treyst á starfsfólk í þjónustu,- heilbrigðis- og umönnunarstörfum sem hefur sinnt þörfum okkar og aðgengi að nauðsynjum á tímum þegar veröldin hefur snúist á hvolf vegna veirufaraldursins. Þessir hópar launafólks eiga það flestir sameiginlegt að vera meðal lægst launuðustu starfa á vinnumarkaði og sagan sem könnun Vörðu segir okkur er að stór hluti þessa hóps á erfitt með að ná endum saman. Þetta er fólkið sem hefur staðið í framlínunni í gegnum nærri tveggja ára heimsfaraldur.

Könnunin sýnir að tæplega þriðjungur launafólks býr við erfiða fjárhagsstöðu og staðan hefur versnað frá því árið 2020. Sá hópur sem hefur það erfiðast fjárhagslega eru einstæðir foreldrar, innflytjendur og ungt fólk. Um 60 prósent einstæðra foreldra eiga erfitt með að ná endum saman og um 20 prósent býr við skort á efnislegum gæðum. Nærri þriðjungur einstæðra mæðra getur ekki keypt nauðsynlegan fatnað á börnin sín vegna fjárskorts og nærri fimmtungur einstæðra feðra. Einstæðir foreldrar eru sá hópur sem oftast hafa þurft að neita börnum sínum um að fá að taka þátt í íþróttum eða öðru frístundastarfi. Rúmlega tvær af hverjum tíu einstæðu mæðrum hafa ekki getað veitt börnum sínum eins næringarríkan mat og þær telja þau þurfa. Einstæðir foreldrar eru líka líklegust til að vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað og er það í samræmi við niðurstöður rannsóknar Hagstofu Íslands um fjárhag heimila sem birtar voru í júní 2021. Samkvæmt þeirri rannsókn eru heimili einstæðra foreldra líka líklegust til að vera undir lágtekjumörkum.

Álag aukist hjá helmingi launafólks

Þá hefur álag í vinnu og einkalífi líka aukist. Álag hefur aukist hjá um helmingi vinnandi fólks í heimsfaraldrinum en langmesta aukningin er hjá konum sem starfa hjá hinu opinbera. Þar segjast um sjö af hverjum tíu finna fyrir auknu álagi. Þá hefur andleg vanlíðan aukist frá síðustu könnun Vörðu en nú telja um 30 prósent sig búa við slæma andlega heilsu sem er mun meira en í sambærilegri könnun sem gerð var fyrir ári. Þá mældist andleg heilsa slæm hjá um tveimur af hverjum tíu. Álagið hefur ekki bara aukist í vinnunni því fjórir af hverjum tíu telja að álag hafi aukist í einkalífi vegna faraldursins. Líkt og með fjárhagsáhyggjurnar hefur álagið aukist mest á einstæða foreldra. Árlegar kannanir Gallup á líðan fólks sýna að fjárhagsáhyggjur í kjölfar bankahrunsins sjöfölduðu líkurnar á kulnun. Kulnun fylgir andleg og líkamleg vanheilsa og skert geta til atvinnuþátttöku. Erfiðleikar við að ná endum saman og fjárhagsáhyggjur geta því ekki aðeins reynst einstaklingum og fjölskyldum þeirra dýrkeypt heldur getur þetta verið kostnaðarsamt fyrir samfélagið allt.

Mikið álag getur leitt til verri heilsu. Það getur til dæmis endurspeglast í því að um 30 prósent launafólks býr við slæma andlega heilsu og er staðan enn verri hjá einhleypu fólki og einstæðum foreldrum. Andleg heilsa mælist einnig verri en líkamleg heilsa. Um helmingur hefur neitað sér um heilbrigðisþjónustu en einstæðir foreldrar hafa oftast neitað sér um slíka þjónustu. Langalgengast er að fólk neiti sér um tannlæknaþjónustu. Þessar niðurstöður eru í samræmi við rannsókn Embættis landlæknis um ójöfnuð í heilsu sem kom út í maí 2021. Þar kemur fram að heilsuójöfnuður fari vaxandi á Íslandi og fylgni sé á milli menntunar, tekna og heilsufars.

Það er löngu tímabært að stjórnvöld setji fólk í fyrsta sæti. Niðurstöður könnunar Vörðu sýna svo ekki verður um villst að stuðningskerfin okkar eru ekki að þjóna þeim tilgangi sem við viljum að þau geri. Þær gefa þvert á móti til kynna að það ríki stefnuleysi þegar kemur að fjárhagsstöðu og heilsu fólks og barna þeirra. Þegar svo stór hluti launafólks nær ekki endum saman og býr við aukið álag og heilsufarslegt tjón vegna aðstæðna sem þau hafa engu um ráðið er það á ábyrgð stjórnvalda að grípa inn í. Efnahagslegur skortur sem bitnar á húsnæðisöryggi og getu fólks til að klæða og fæða börnin sín er ekki á ábyrgð hvers einstaklings heldur samfélagsins alls.

Börnin sem búa við skort

Niðurstöður rannsóknar Vörðu segja ekki bara sögu um fullorðna einstaklinga á vinnumarkaði heldur sögu fjölda barna sem búa við ófullnægjandi lífsskilyrði vegna aðgerðaleysis stjórnvalda. Foreldrar þeirra barna eru líklegri til að glíma við andleg veikindi, þau fá sjaldnar næringarríka máltíð og nauðsynlegan fatnað en önnur börn, búa frekar við skort og eru líklegri til að þurfa að flytja oft. Þeirra hagur verður ekki tryggður með því að halda áfram á þeirri braut að lækka skatta á þá ríkustu, viðhalda kerfum þar sem örfáir einstaklingar græða á sameiginlegum auðlindum eða með aðhalds- og niðurskurðarkröfu á mikilvægar stofnanir, heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntakerfið.

Við getum ekki haldið áfram að mæla árangur þjóða með efnahagslegum framförum eingöngu. Við verðum að skoða og mæla hvernig við hjálpum hvert öðru, hvernig við deilum því sem er til skiptanna með réttlátum hætti og sköpum jöfn tækifæri fyrir alla. Við þurfum að setja okkur langtímamarkmið um velsæld sem við fylgjum eftir af metnaði. Við getum betur og það er ekki eftir neinu að bíða.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?