Réttur íslenskra foreldra minnstur

Íslenskir foreldrar hafa mun lakari réttindi til greiðslna í fæðingarorlofi en foreldrar á hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í samantekt BSRB sem gerð var opinber í umsögn bandalagsins um frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fæðingarorlof lengist úr níu mánuðum í tólf. Verði það að lögum munu hámarksgreiðslur hækka úr 370 þúsund krónum á mánuði í 500 þúsund krónur á mánuði.

Laun að 300 þúsund skerðist ekki
Í umsögn BSRB um frumvarpið, sem send var Alþingi í gær, kemur fram að bandalagið leggi áherslur á að við breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof verði horft til niðurstöðu starfshóps sem nýverið skilaði ráðherra tillögum sínum. BSRB átti fulltrúa í hópnum og stendur að baki niðurstöðu hans.

BSRB leggur í umsögn sinni þunga áherslu á að laun að 300 þúsund krónum skerðist ekki. Rökin fyrir því eru einföld. Bandalagið telur að tryggja verði að enginn á vinnumarkaði verði undir framfærsluviðmiðum, hvort sem litið er til viðmiða Umboðsmanns skuldara eða Velferðarráðuneytisins. Í dag fá foreldrar greiðslur í fæðingarorlofi sem nema 80% af meðaltekjum síðasta árið fyrir orlof, að 370 þúsund króna hámarki.

BSRB vill því ganga lengra en gert er ráð fyrir í þingmannafrumvarpinu og hækka hámarksgreiðslur á mánuði í 600 þúsund krónur, í samræmi við niðurstöðu starfshópsins. Þá tekur bandalagið undir með höfundum þingmannafrumvarpsins um að lengja eigi fæðingarorlofið úr níu mánuðum í tólf. Niðurstaða starfshópsins var að hvort foreldri eigi rétt á fimm mánaða orlofi, en að auki deili foreldrar tveimur mánuðum sín á milli. Sameiginlegur réttur verði því tólf mánuðir.

Hin Norðurlöndin standa framar
Í umsögn BSRB um frumvarpið má finna ítarlega samantekt á rétti foreldra til fæðingarorlofs á Norðurlöndunum. Þannig er lengd orlofsins samanlagt 39 vikur á Íslandi, 44 í Finnlandi, 48 í Danmörku og 49 í Noregi. Orlofið er mun lengra í Færeyjum, 62 vikur, en lengst í Svíþjóð, 69 vikur, eða 16 mánuðir.

Samanburður á hámarksgreiðslum í orlofi er erfiður því í sumum Norðurlandanna lækka greiðslur eftir því sem líður á orlofið. Þegar greiðslur í upphafi fæðingarorlofs eru skoðaðar má sjá að hámarksgreiðslan er lægst í Danmörku, rúmlega 342 þúsund krónur á mánuði. Það er umtalsvert lægra en þakið á Íslandi, sem eru 370 þúsund krónur. Á hinum Norðurlöndunum eru hámarksgreiðslur mun hærri. Þær eru um 437 þúsund í Svíþjóð, 474 þúsund í Færeyjum, 640 þúsund í Finnlandi og 673 þúsund í Noregi.

Nánari umfjöllun um muninn á fæðingarorlofskerfum á Norðurlöndunum er í umsögn BSRB um frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?