Sagan af íslenska fæðingarorlofinu

Sameiginlegt átak BSRB og ASÍ í fæðingarorlofsmálum heldur áfram. Það getur verið gagnlegt að glöggva sig á stöðunni eins og hún er í dag, til að setja í samhengi við kröfur BSRB og ASÍ í átakinu.

BSRB og ASÍ krefjast breytinga á fæðingarorlofskerfinu. Við viljum að greiðslur til foreldra verði óskertar að 300 þúsund krónum á mánuði, að hámarksgreiðslur verði hækkaðar í 600 þúsund og að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði.

Vilt þú taka þátt í að breyta þessu kerfi? Fylgdu Facebook-síðu átaksins, Betra fæðingarorlof.

Hámarkið vel undir meðallaunum

En hvernig er staðan í dag? Núverandi réttur til fæðingarorlofs er samtals níu mánuðir fyrir foreldra sem skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða og sameiginlega eiga þau þrjá mánuði. Þessa sameiginlegu mánuði mega þau skipta á milli sín eins og þeim hentar.

Greiðslur í fæðingarorlofi eru 80% af meðallaunum foreldra ár aftur í tímann miðað við dagsetningu sem er sex mánuðum fyrir settan fæðingardag. Hámarksgreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði, eða svonefnt þak, er 370.000 krónur. Það er vel undir meðallaunum hér á landi.

Það þýðir að foreldri sem eru með meira en 462.500 krónur meðaltal heildarlauna rekst í þak Fæðingarorlofssjóðs og getur að hámarki fengið 370.000 krónur fyrir skatt og annan frádrátt. Eftir skatt og stéttarfélagsgjöld getur því foreldri að hámarki útborgað 271.068 frá Fæðingarorlofssjóði og enn minna ef það er með viðbótarlífeyrissparnað.

Samkvæmt reiknivél Velferðarráðuneytisins fyrir neysluviðmið eru dæmigerð mánaðarleg heildarútgjöld fjölskyldu, sem samanstendur af tveimur fullorðnum, einu barni á leikskólaaldri og öðru sem er heima í fæðingarorlofi, 507.858 krónur fyrir utan húsnæðiskostnað.

Tekjur mæðra minnka um helming

Flestar mæður með meðaltekjur lýsa því að tekjur þeirra hafi lækkað um helming við það að fara í fæðingarorlof. Hjá feðrum er það enn meira. Þeir sem rekast ekki í þakið eða eru í kringum það segjast ekki hafa efni á að missa 20% af launum sínum.

Mæður eru að nýta sex mánaða rétt til fæðingarorlofs frá Fæðingarorlofssjóði en feður taka minna en þrjá mánuði. Rúmlega 65% feðra taka ekki fæðingarorlofið sitt í einu lagi. Um einn fimmti hluti feðra nýtir ekkert af rétti sínum til fæðingarorlofs. Ítrekað hefur komið fram að feður vilja taka fæðingarorlof en hafa ekki efni á því.

Alþjóðleg rannsókn sýnir að ef konur eru ekki ánægðar með þátttöku föðurins í umhyggju fyrsta barns þá dregur mjög úr vilja þeirra til frekari barneigna. Foreldrar lýsa því einnig að fjárhagur heimilisins þoli ekki fleiri fæðingarorlof. Ástæðan sé að fæðingarorlof hafi svo íþyngjandi áhrif á fjárhag heimilisins að grípa þurfi til skuldsetningar sem mörg ár taki að vinna úr.

Álag og streita í fæðingarorlofi

Þá lýsa þau því hve mikið álag og streita fylgi því að vera í fæðingarorlofi og ná ekki endum saman. Foreldrum finnst níu mánuðirnir vera of stuttir og erfitt sé að láta skipulag heimilisins ganga upp þegar kemur að dagvistun að loknu fæðingarorlofi.

Það eru mun frekar mæður en feður sem dreifa fæðingarorlofinu yfir á lengri tíma, minnka starfshlutfall sitt eða krefjast aukins sveigjanleika vegna ungabarnsins með tilheyrandi tekjutapi og lækka þar með enn meira tekjur sínar. Það hefur áhrif á jafnrétti á vinnumarkaði.

Bil milli orlofs og úrræða

Hagtölur sýna að flest börn yngri en eins árs eru heima hjá sér en ekki hjá dagforeldrum eða á leikskóla. Foreldrar segja að dagforeldrar og leikskólar taki almennt börn inn að hausti en börn fæðast alla mánuði ársins og því geti liðið þó nokkur tími frá lokum fæðingarorlofs og þar til dagvistunarúrræði fæst.

Í sumum sveitarfélögum starfa engir dagforeldrar og misjafnt er hvort leikskólar taki börn inn eins árs eða tveggja ára. Samanborið við réttindi á önnur Norðurlöndum telja foreldrar rétt sinn hér á landi rýran hvað varðar lengd og greiðslur í fæðingarorlofi ásamt því að í hinum löndunum eiga börn rétt til dagvistunarúrræða að loknu fæðingarorlofi.

Vertu með, taktu þátt

Vilt þú taka þátt í að breyta þessu kerfi? Fylgdu Facebook-síðu átaksins, Betra fæðingarorlof.

Þú getur líka hjálpað til með því að segja þína sögu á samfélagsmiðlunum. Skrifaðu af þinni upplifum tengdri kerfinu og merktu með #betrafaedingarorlof. Mundu að hafa færsluna á Facebook opna öllum (stilla á public) svo allir geti fylgst með sögunum sem berast.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?