Snertið ekki verkfallsréttinn okkar! - alþjóðlegur baráttudagur


Snertið ekki verkfallsréttinn okkar!

Í dag stendur ITUC, Alþjóðasamtök stéttarfélaga, fyrir baráttudegi til stuðnings alþjóðlega viðurkenndum verkfallsrétti launafólks. Verkfallsrétturinn er mikilvægasta vopn launamanna í baráttunni fyrir viðunandi starfskjörum. Umræða um alþjóðlega viðurkenndan verkfallsrétt er ekki síst mikilvæg nú þar sem innan Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), undirstofnun Sameinuðu þjóðanna, stendur yfir deila þar um. Viðbrögð atvinnurekenda í deilunni, þar sem þeir draga í efa stöðu verkfallsréttarins innan samþykkta og áratuga framkvæmdar ILO, ógnar tilvist hans og hefur áhrif á það mikilvæga starf sem ILO sinnir. Af þeim ástæðum krefjumst við þess að fulltrúar atvinnurekenda láti af framferði sínu.

Við hvetjum norrænu ríkisstjórnirnar til að styðja alla launamenn heimsins og nýta sér völd sín og áhrif til að hafa áhrif á önnur lönd og atvinnurekendur til að verja grundvallar mannréttindi í atvinnulífinu.

Upphaf deilunnar má rekja til þess að atvinnurekendur líta svo á að grundvallarsamþykkt ILO nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess, taki ekki yfir verkfallsréttinn. Þetta viðhorf er nýtt af nálinni því allar götur síðan 1952 hefur sameiginlegur skilningur hinna þriggja aðila að samstarfi ILO (ríkisstjórnir, launafólk og atvinnurekendur) verið sá að verkfallsrétturinn sé óaðskiljanlegur hluti af félagafrelsinu. Verkfallsrétturinn er mikilvægasta vopn stéttarfélaganna og hefur úrslitaáhrif á möguleika þeirra til að hafa áhrif á réttindi félagsmanna.

Fulltrúar atvinnurekenda innan ILO, þar með talið norrænir fulltrúar, vilja ekki lengur fylgja þessari túlkun. Afleiðing þess er að eiginlegur verkfallsréttur verður ekki fyrir hendi í fjölmörgum löndum. Þetta hefur mikil áhrif á alla sem eru starfandi og berjast fyrir viðunandi starfs- og lífsskilyrðum. Jafnframt hefur það áhrif á hinn alþjóðlega vinnumarkað en með þrýstingi á lægri laun og verri starfsskilyrði opnast enn frekar á ólík viðmið milli landa. Þá leiðir það til þess að efnahagskerfi og vinnumarkaðir þróast með verri skilyrðum og mun hægar en áður. Þess vegna er það bæði undarlegt og ámælisvert að atvinnurekendur verji ekki verkfallsréttinn, mannréttindi í atvinnulífinu og mikilvægi eftirlitshlutverks ILO.

Afleiðingarnar af þessari meðvituðu aðferðarfræði atvinnurekenda til að veikja ILO og réttindi launfólks eru nú þegar ljósar. Í Búrma, þar sem ekki er fyrir hendi nokkur innlendur verkfallsréttur, vísa atvinnurekendur nú til deilunnar innan ILO og berjast gegn réttindum launamanna til verkfalla. Svipuð þróun hefur einnig átt sér stað í öðrum löndum, ekki eingöngu í Hvíta-Rússlandi, Indónesíu og Kambódíu heldur einnig Kanada og í Belgíu. Þannig er verkfallsrétturinn takmarkaður eða heftur um allan heim.

Þegar norrænir atvinnurekendur grafa undir verkfallsréttinum með þessum hætti og styðja fulltrúa atvinnurekenda innan ILO sem bera þessa afstöðu uppi, felur það í sér að verið er að veikja verkfallsréttinn, ekki síst í þróunarlöndunum. Það er mjög frábrugðið rótgróinni venju um að norrænir aðilar sýni samfélagslega ábyrgð. Það er óforsvaranlegt og ber að uppræta þegar í stað.

Deilan innan ILO hefur staðið yfir í þrjú ár og reynst þrautinni þyngra að finna lausn þar á. Þess vegna hafa fulltrúar launamanna lagt til að deilan verði lögð fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. Fulltrúar atvinnurekenda hafa hafnað því með afgerandi stuðningi norrænna atvinnurekenda. Þetta hefur leitt til þess að ILO getur ekki starfað með eðlilegum hætti.

Líf án mannréttinda í atvinnulífinu, s.s. án verkfallsréttar og félagafrelsis felur í sér verulegar og alvarlegar afleiðingar til frambúðar fyrir allt launafólk heimsins.

Það mun leiða til þess að starfandi fólk mun lifa í fátækt og búa við ófullnægjandi starfsskilyrði eða í þvingaðri atvinnu. Þegar grundvallarréttindi á vinnumarkaði eru ekki lengur tryggð hefur það ekki eingöngu áhrif á fáa - það hefur áhrif á alla.

Snertið ekki verkfallsréttinn okkar!

 

 

           Sharan Burrows                                        Gylfi Arnbjörnsson                             Elín Björg Jónsdóttir

    framkvæmdastjóri ITUC                                        forseti ASÍ                                          formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?