Starfsfólk endurgreiði ekki ofgreidd laun sé það í góðri trú

Ofgreiðsla á veikindarétti er almennt ekki endurgreidd enda launagreiðanda að tryggja að greiðslur í veikindum séu í samræmi við rétt starfsfólks.

Starfsfólk sem fyrir vangá launagreiðenda fær ofgreidd laun þarf almennt bara að endurgreiða launin hafi því mátt vera ljóst að um ofgreiðslu hafi verið að ræða. Starfsfólk sem fær umtalsvert hærri upphæð greidda en það átti von á þarf því almennt að endurgreiða það sem ofgreitt var.

Það kemur því miður af og til fyrir að starfsfólk fái ofgreidd laun fyrir mistök launagreiðanda. Í sinni einföldustu mynd fær starfsfólkið þá hærri greiðslu en það átti rétt á útborgað sem laun, en einnig getur verið að starfsfólkið fái greidd laun yfir lengri tíma en það átti rétt á eða jafnvel að það hafi fengið greidd veikindalaun sem viðkomandi átti ekki rétt til.

Þar sem um mistök launagreiðanda er að ræða uppgötvast þau oft ekki fyrr en seint og jafnvel ekki fyrr en starfsmaður lætur af störfum. Þá vaknar sú spurning hvort starfsmanni beri að greiða til baka þau laun sem hann fékk of greidd, eða hvort vinnuveitanda þurfi að sætta sig við sín mistök og að endurkröfuréttur sé ekki fyrir hendi.

Almennt er reglan sú að þeir sem hafa fengið fé greitt fyrir mistök skuli endurgreiða það. Hafi fyrir mistök verið greitt of mikið, til dæmis vegna misskilning um fjárhæðir, ber viðtakanda greiðslu að endurgreiða mismuninn. Frá þeirri reglu þarf þó að gera undantekningar eftir því hver atvik eru að baki ofgreiðslunni og endurkröfu hennar.

Launauppgjör almennt endanlegt

Þegar kemur að launagreiðslum má segja að þar sem starfsfólk má gera ráð fyrir að launauppgjör sé endanlegt og þar sem laun eru almennt framfærslufé móttakanda þá sé endurkröfuréttur launagreiðanda mun takmarkaðri en vegna annars konar greiðslu. Það sem skiptir höfuð máli þegar kemur að ofgreiðslu launa og endurkröfurétti er hvort viðtakandi, það er starfsmaðurinn, vissi eða mátti vita að um ofgreiðslu væri að ræða.

Hafi starfsmaður verið í góðri trú má segja að endurkröfuréttur vinnuveitanda sé ekki fyrir hendi. Ef upphæðin er hins vegar töluvert hærri en starfsmaðurinn hefur venjulega fengið útborgað en vinnuframlag hans þann mánuðinn var svipað og venjulega má telja líklegt að starfsmaðurinn hafi mátt vita að um mistök hafi verið að ræða. Einnig getur verið að slík mistök komi fram á launaseðli og geta þá í einhverjum tilfellum verið augljós.

Ofgreiddur veikindaréttur

Ef starfsmaður hefur hins vegar fengið ofgreiddan veikindarétt, til dæmis fengið laun greidd í nokkrar vikur umfram rétt sinn til veikinda í langtímaveikindum þá getur verið erfiðara fyrir vinnuveitanda að færa fram rök fyrir endurgreiðslu þar sem það er á ábyrgð vinnuveitanda sem launagreiðanda að fylgjast með því að greiðslur til starfsmanns í veikindum séu í samræmi við rétt hans til launa í veikindum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?