Starfsmenn fá bætur á móti lækkuðu starfshlutfalli

Fjárhæð atvinnuleysisbóta sem greiddar eru í lækkuðu starfshlutfalli ráðast af meðaltekjum mánuðina áður en hlutfallið er lækkað.

Fyrirtæki geta nú lækkað starfshlutfall starfsmanna allt niður í 25 prósent og starfsmenn fengið atvinnuleysisbætur á móti eftir að Alþingi samþykkti lagabreytingar til að bregðast við heimsfaraldri kórónaveirunnar.

Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa tóku gildi þann 20. mars 2020. Markmiðið með þeim var að stuðla að því að atvinnurekendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt, enda þótt það kunni að vera nauðsynlegt að minnka starfshlutfall þeirra að einhverju leyti. Með lögunum geta starfsmenn sótt um atvinnuleysisbætur á móti þegar starfshlutfall þeirra er minnkað um allt að 75 prósent. Þannig gæti starfsmaður haldið 25 prósent starfshlutfalli en þegið atvinnuleysisbætur upp að 75 prósenta starfshlutfalli.

Það er skilyrði að starfshlutfall starfsmanns sé lækkað um að minnsta kosti 20 prósent og er atvinnurekanda óheimilt að krefjast vinnuframlags frá starfsmanni umfram hið nýja starfshlutfall. Um tímabundna aðgerð er að ræða sem gildir frá 15. mars til 1. júní, en stjórnvöld hafa sagst vera tilbúin til þess að framlengja úrræðið verði þess talin þörf.

Fjárhæð atvinnuleysisbóta ræðst af meðaltekjum starfsmanns á þriggja mánaða tímabili áður en hann fór í hlutastarf á grundvelli úrræðisins. Úrræðið á einnig við um sjálfstætt starfandi verktaka sem upplifa verulegan samdrátt í sínum rekstri, en tekjur þeirra á árinu 2019 eru ráðandi við mat á fjárhæð atvinnuleysisbóta.

Ef starfsmaður er með undir 400.000 krónur í mánaðarlaun heldur hann óskertum tekjum, en sá hluti sem nemur minnkuðu starfshlutfalli kemur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hærri tekjur en 400.000 krónur skerðast hlutfallslega og samanlagðar greiðslur frá atvinnurekanda og atvinnuleysisbætur geta ekki orðið hærri en 700.000 krónur Þá geta samanlagðar greiðslur ekki hærri en 90% af þeim meðaltekjum sem starfsmaður hafði á fyrrnefndu tímabili.

Þegar frumvarpið var lagt fram voru tekjuviðmið og skerðingarmörk lægri. BSRB og ASÍ lögðu ríka áherslu á að hækka þyrfti tekjumörkin og að laun undir 400.000 krónur yrðu óskert. Til þeirra athugasemda var litið við meðferð málsins á Alþingi. Þá var einnig lagt til í upphaflegu frumvarpi að lágmarks starfshlutfall yrði 50 prósent en BSRB og ASÍ lögðu til 25 prósenta starfshlutfall svo úrræðið myndi nýtast sem flestum og varð það raunin.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?