St.Rv skrifar undir nýjan kjarasamning

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, stærsta einstaka bæjarstarfsmannafélagið innan BSRB, undirritaði í nótt nýja kjarasamninga við Reykjavíkurborg. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2014 og til loka apríl 2015. Laun hækka að lágmarki um 2,8% og ekki minni en 8000 kr. á mánuði fyrir dagvinnu í fullu starfi. Tvær eingreiðslur verða greiddar, ein við upphaf samningstíma að upphæð 14.600 kr. og önnur þann 1. febrúar 2015 að upphæð 20.000 kr., desemberuppbót hækkar í 79.500 kr. og orlofsuppbót verður 39.500. Þá er kveðið á um breytingar á launatöflu og vaktafyrirkomulagi auk þess sem framlag til starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóða hækkar um 0,1% frá 1. febrúar2014.

Helstu atriði hins nýja samnings eru:

  • að laun hækki um 2,8% eða að lágmarki 8000. kr. fyrir dagvinnu miðað við fullt starf
  • eingreiðsla að upphæð 14.600 kr. greiðist við upphaf samnings miðað við að starfsmaður sé í fullu starfi en annars hlutfallslega
  • í lok samningstímans bætist við eingreiðsla upp á 20.000 kr. miðað við full starf
  • desemberuppbót verður á samningstímanum 79.500 kr.
  • · orlofsuppbót verður á samningstímanum 39.500 kr.
  • breytingar verða gerðar á vaktafyrirkomulagi starfsfólks sem vinnur á reglubundnum vöktum alla daga ársins
  • framlag til starfsmenntunar- og starfsþróunarsjóða hækkar um 0,1% frá 1. febrúar2014
  • gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2014 til 30. apríl 2015

Þá mun endurskoðun á á gildandi launatöflu og tengingu hennar við starfsmat fara fram fyrir lok september 2014 og í kjölfarið hafnar viðræður um mögulegar útfærslur á nýrri launatöflu sem samið verði um að taki gildi við upphaf næsta kjarasamnings aðila. Aðilar eru sammála um að við útfærslu á nýrri launatöflu verði horft til þess að starfsþróunarálag verði 1,5%.

Auk þess sem betur var fest í nýjum samningum það sem á að gera varðandi endurskoðun á starfsmati og mati á störfum. Samningsaðilar eru sammála um að sú endurskoðunarvinna sem aðilar hafa í sameiningu hafið verði lögð til grundvallar að breyttum starfsreglum starfsmatsnefndar. Markmið breytinganna er að bæta verklag, auka skilvirkni og málshraða. Sú endurskoðun skal liggja fyrir í lok október 2014. Þannig mun markviss endurskoðun á störfum fara fram en samningsaðilar eru sammála um að þörf sé á heildarendurskoðun starfsmatskerfisins til að tryggja að starfsmatskerfið endurspegli störf og starfsumhverfi Reykjavíkurborgar. Endurskoðunarvinnan felur meðal annars í sér samanburð á störfum þvert á svið og starfsstaði borgarinnar og þess gætt að ekki sé um ómálefnalegan mismun að ræða. Komi í ljós við endurmat starfsmats að félagsmenn St.Rv. séu með lakari launakjör en félagsmenn annarra stéttarfélaga hjá Reykjavíkurborg í jafnverðmætum störfum verður það leiðrétt afturvirkt til 1. febrúar 2014.

Í hinum nýja samningi er einnig nokkuð fjallað um kynbundinn launamun og samþykkti Reykjavíkurborg að unnar verði árlegar launaúttektir úr launagögnum borgarinnar og skoðun á innleiðingu á nýju viðbótarlaunakerfi. Samkvæmt samningum verður gert átak í því að endurskoða starfslýsingar á öllum sviðum borgarinnar. Í kjölfar þess verði markvisst unnið að því að bjóða starfsmönnum upp á starfstengt nám sem geti leitt til framgangs í starfi.

Þá mun endurskoðun á hæfnismatskerfinu einnig fara fram en fyrir lok júní 2014 hafi aðilar lagt mat á hvernig núverandi hæfnislaunakerfi þjónar tilgangi sínum. Í kjölfarið verði lagt mat á hvort æskilegt er að innleiða nýtt kynhlutlaust viðbótarlaunakerfi hjá Reykjavíkurborg  og skal það mat liggja fyrir í lok september 2014.  

Samhliða nýjum kjarasamningi gerði BSRB samkomulag við Reykjavíkurborg þar sem kveðið er á um að farið verði í að þróa aðferðafræði til að meta laun og launaþróun á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þegar þeirri vinnu er lokið munu aðilar meta hvort og þá hvernig hægt sé að nýta þá vinnu til að draga úr launamun milli almenns og opinbers vinnumarkaðar og hvernig hægt sé að koma því þannig fyrir að launaþróun milli markaða haldist í hendur. Samkomulag BSRB og Reykjavíkurborgar gerir líka ráð fyrir að launagögn Borgarinnar er varða félagsmenn BSRB verði aðgengileg bandalaginu svo hægt sé að fylgjast betur með launaþróun.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?