Stytting vinnuvikunnar á spítala styttir biðlista

Stjórnendur skurðdeildar á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Mölndal í Svíþjóð styttu vinnutíma starfsmanna úr átta klukkustundum í sex í tilraunaskyni fyrir ári. Niðurstaðan er styttri biðtími sjúklinga og aukin vellíðan starfsmanna. Tilraunaverkefnið hefur nú verið framlengt.

Skurðdeildin sérhæfir sig í aðgerðum á sviði bæklingarlækninga og hafði álag á starfsmenn verið gríðarlega mikið áður en breytingin var gerð. Álagið var raunar svo mikið að starfsmenn treystu sér fæstir til að vera í fullu starfi og starfsmannavelta var mikil, að því er fram kemur í umfjöllun sænska fjölmiðilsins ETC Göteborg sem lesa má hér og hér.

„Hvað okkur varðar er þetta bara annað vinnumódel, sem krefst ekki pólitískrar ákvörðunar. Það eina sem við þurftum að breyta var hlé samkvæmt kjarasamningi eftir fyrstu sex vinnustundirnar. Stéttarfélagið taldi að jákvæðar breytingar vegi þyngra og samþykktu,“ segir Marina Hendriksson, deildarstjóri á Sahlgrenska í samtali við sænska fjölmiðilinn ETC Goteborg.

Sex tímar án hádegishlés
Í staðinn fyrir að vinna átta tíma vakt með hádegishléi á miðri vakt, vinna starfsmenn sex tíma langar skurðvaktir en án hádegishlés. Ef eingöngu er litið til launakostnaðar þá er dýrara fyrir sjúkrahúsið að hafa fleira starfsfólk og styttri vinnudaga. En það eru fjölmargir aðrir hlutir sem vega þungt á móti en Marina bendir á að áður þurfti að fresta aðgerðum svo að heilsuverndin var dýrari þegar uppi var staðið. Það heyri nær sögunni til enda hafa biðlistar styst verulega.

Loks sé reynslan afar jákvæð varðandi heilsu og vellíðan starfsfólks. Veikindafjarvistum hafi fækkað og ánægjan aukist. Enginn skurðhjúkrunarfræðinganna vann fullt starf áður en styttri vinnudagur var innleiddur. Það hafði ekki orku til þess. Nú eru flest þeirra í fullu starfshlutfalli.

Íslendingar vilja vinna minna
Það er áhugavert fyrir Íslendinga að skoða niðurstöðurnar gaumgæfilega. Í síðustu kjarakönnun sem BSRB gerði kom skýrt fram að talsverður fjöldi vill vinna minna en hann gerir í dag. Jafnframt að vinnan hefði neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifði meiri þreytu í störfum sínum og talsvert meira álag. Áhrifin séu þau að veikindadagar verða fleiri, langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda hafa aukist og of margir sjá sér ekki fært að snúa aftur til vinnu.

Það er því gleðilegt að bæði Reykjavíkurborg hafi haft frumkvæði að tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar með tilraunaverkefni á tveimur vinnustöðum borgarinnar sem hófst á síðastliðnu ári og hefur nú verið framlengt um ár til viðbótar vegna jákvæðra niðurstaðna. Jafnframt var nýlega skipað í starfshóp um sambærilegt tilraunaverkefni á vegum ríkisins og verða vinnustaðir sem taka þátt valdir með haustinu. BSRB á fulltrúa í báðum starfshópum sem hafa umsjón með verkefnunum.

Í þessu starfi og við framkvæmd stefnu BSRB um styttingu vinnuvikunnar horfir bandalagið mikið til sænskra fyrirmynda og reynslu tiltekinna vinnustaða þar í landi af styttingu vinnutíma. Það er því sérlega áhugavert þegar stjórnendur ákveða af praktískum ástæðum að stytta vinnuvikuna, frekar en að það sé gert af pólitískum ástæðum.

Styttingin himnasending
Á skurðdeildinni á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu var það reynsla starfsmanna að starfið á deildinni væri mikið þyngra, bæði andlega og líkamlega, heldur en á öðrum deildum. Starfsfólk hefði hins vegar sömu laun og vinnutíma og aðrar skurðlækningadeildir.

Áhrifin voru þau að enginn fastráðinn hjúkrunarfræðingur starfaði í fullu starfshlutfalli heldur höfðu allir minnkað það til að hafa krafta í starfið. Engar nýjar umsóknir komu og bilið var brúað með afleysingafólki.

Bengt-Arne Andersson, 63 ára svæfingarhjúkrunarfræðingur, hafði áður hugað sér að minnka starfshlutfallið til að hafa orku í starfið og telur styttinguna hafi komið eins og himnasendingu. Hann hafi áður farið heim og lagt sig eftir hverja vakt en hann þurfi þess ekki í dag enda hafi hann aukna orku eftir vinnu.

Samstarfskona hans tekur undir ánægju með breytinguna og sagðist áður hafa verið í 75% starfshlutfalli þar sem samþætting fjölskyldu- og atvinnulífs hefði aldrei gengið annars. Nú er hún hins vegar í fullu starfi og hefur að lokinni vinnu orku til að sinna börnum og öðru sem þarf að gera. Jafnframt benda þau á að áhrif styttingar vinnudagsins hafi áhrif á allt svæðið þar sem þau búa í Vestur Götalandi. Það sé kostur að starfsmannavelta og biðtími eftir aðgerðum hafi minnkað verulega. Þetta sé framtíðin hvað vinnutíma varðar.

Fleiri vinnustaðir í Svíþjóð hafa stytt vinnutímann
Fleiri dæmi eru um vel heppnaða styttingu vinnuvikunnar í Svíþjóð. Algengt er að vísað sé til þjónustuverkstæðis Toyota í Gautaborg varðandi upphaf slíkra breytinga á vinnutíma í Svíþjóð. Þar var vinnudagurinn styttur vegna mikils álags starfsfólks og hefur hann verið verið sex klukkustundir í rúmlega áratug. Að mati Toyota eru kostirnir þeir að starfsfólkinu líður betur, streita hefur minnkað, starfsmannavelta er minni og auðveldara er að ráða nýtt fólk. Loks hefur hagnaður einnig aukist um 25%.

Reynsla af tilraunaverkefni um styttingu vinnutímans á elliheimilinu Svartedalen í Gautaborg sýnir að starfsfólkið hefur aukna orku, er minna stressað og gefi sér meiri tíma fyrir þá sem þau sinna, sem hefur þau áhrif að íbúar heimilisins líður betur og þau eru afslappaðri. Þar er markmiðið að auka lífsgæði opinberra starfsmanna og íbúa elliheimilisins.

Forstöðumaður heimilisins segir að vellíðan starfsmanna sé meiri og gæði þjónustu hafi aukist. Hún segir jafnframt að frá 1990 hafi vinnuálag verið mikið og færra starfsfólk til að inna af hendi störfin. Afleiðing þessa hafi verið mikil veikindi og þunglyndi meðal starfsfólks í umönnunargeiranum vegna ofþreytu og þess vegna hafi breytingin verið nauðsynleg.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?