Sveitarfélög upplýsi um dagvistun

BSRB vinnur nú að því að safna saman upplýsingum frá sveitarfélögum um þau dagvistunarúrræði sem eru í boði í hverju sveitarfélagi sem taka að loknu fæðingarorlofi foreldra.

Nefnd BSRB um fjölskylduvænna samfélag og jafnréttismál hefur óskað eftir því við öll aðildarfélög bandalagsins að þau hafi milligöngu um að afla upplýsinga frá þeim sveitarfélögum sem þau starfa í. Meðal þess sem spurt er um er hvaða dagvistunarúrræði eru fyrir hendi á vegum sveitarfélagsins, til dæmis leikskólar, ungbarnaleikskólar og fleira.

Engar reglur á Íslandi
Einnig er spurt um frá hvaða aldri börn eiga rétt á dagvistunarúrræði, hvort sveitarfélögin grípa til ráðstafana til að tryggja úrræði eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur, algengan biðtíma eftir inntöku á leikskóla og fleira.

Nefndin telur mikilvægt að öllum foreldrum standi til boða viðeigandi dagvistunarúrræði fyrir börn sín að loknu fæðingarorlofi. Ástæðan er sú að ein helsta áskorun jafnréttismála er svokallað umönnunarbil, tíminn á milli fæðingarorlofs og leikskólavistar.

Engar reglur gilda hér á landi um frá hvaða aldri sveitarfélögum er skylt að bjóða upp á dagvistunarúrræði, ólíkt því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þar eiga börn rétt á leikskólavist frá 12 mánaða aldri.

Mæðurnar brúa bilið
Rannsóknir sýna að þetta ummönnunarbil er almennt brúað með því að leita til dagforeldra, með því að foreldrar taki sér frí frá störfum eða reiði sig á ættingja. Raunin hefur verið sú að það að brúa þetta bil lendir frekar á konum en körlum. Umönnunarbilið er því ein af megináskorununum sem þarf að yfirstíga til að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði. Það er til lítils að tryggja jafnrétti í fæðingarorlofi ef að því loknu tekur við tímabil þar sem mæður axla ábyrgðina í ríkari mæli en feður.

BSRB leggur áherslu á að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði og að við 12 mánaða aldur fái öll börn pláss á leikskólum. Þetta er mikilvæg forsenda þess að foreldrar nái að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf og tryggja jafnrétti á vinnumarkaði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?