Þarf vakningu um kynferðislega áreitni

Brýn þörf er á vitundarvakningu um kynferðislega áreitni hér á landi til að starfsfólk þekki sinn rétt og vinnuveitendur átti sig á skyldum sínum.

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á kynferðislegri áreitni hér á landi, en þær sem þó hafa verið gerðar snúa að starfsfólki í þjónustustörfum, viðhorfs stjórnenda til jafnréttis, og mismununar innan lögreglunnar.

Niðurstöður þessara rannsókna gefa tilefni til að ætla að brýn þörf sé á vitundavakningu um málefnið. Ein leið þess að opna umræðuna er að tryggja að allt starfsfólk einstaka vinnustaða hafi upplýsingar um rétt sinn og skyldur vinnuveitanda síns.

Vinnuveitendur eiga að gera skriflega áætlun

Vinnuveitendum ber samkvæmt nýlegri reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Í þeirri áætlun á að framkvæma áhættumat annars vegar og gera áætlun um forvarnir hins vegar.

  • Áhættumatið felur meðal annars í sér greiningu áhættuþátta og líkur á að starfsmaður verði fyrir einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað.
  • Áætlun um forvarnir á meðal annars að tilgreina til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir slíka hegðun og hvernig verði komið í veg fyrir endurtekningu ef hún kemur upp. Jafnframt skal tilgreint til hvaða aðgerða á að grípa hvort sem niðurstaðan er að slík hegðun hafi átt sér stað eða ekki í kjölfar kvörtunar þar um.


Mikilvægt er að starfsfólk kynni sér innihald áætlunarinnar sem í gildi er á þeirra vinnustað. Í ljósi þessa ákváðu BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa að gefa út netbæklinginn „Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum“.

Skýringar og dæmi
Í bæklingnum er meðal annars að finna skýringar á hugtökum og dæmi um kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi, hvort sem það er orðbundið, táknrænt eða líkamlegt. Þar er að finna upplýsingar um ábyrgð atvinnurekenda, forvarnir og viðbrögð og þær leiðir sem í boði eru fyrir þolendur. Þá eru í bæklingnum hlekkir á lög, reglur og eftirlitsaðila sem má leita til varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnustöðum.

Af þeim málum sem aðildarfélög BSRB hafa leitað eftir aðstoð bandalagsins með sem teljast til kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni er einkum að ræða líkamlega snertingu af kynferðislegum toga, svo sem klapp, klípur eða faðmlög. Önnur dæmi eru þegar einstaklingur reynir ítrekað við samstarfsmann þrátt fyrir að skýrt hafi komið fram að viðkomandi hafi ekki áhuga eða kæri sig ekki um slíka hegðun.

Í öllum tilvikum hafa gerendur verið karlar og þolendur konur. Í einu dæminu var þó um að ræða tvo karla en hvorugur þeirra var samkynhneigður.

Athugasemdir um líkama, klæðnað eða lífsstíl
Það er því mikilvægt að hafa í huga að hegðunin er ef til vill ekki kynferðisleg að mati geranda en er það hins vegar að mati þolanda. Einnig hafa komið upp dæmi þess að til dæmis karlar telja að vegið sé að þeim með gríni eða athugasemdum á grundvelli kyns þeirra, svo sem í umönnunarstörfum.

Athugasemdir sem beinast til kvenna af kynbundnum toga byggja á sama grunni, það er að þær séu ekki hæfar eða nægilega góðar til tiltekinna verkefna vegna þess að þær séu konur. Rannsóknir sýna að aðrar algengar birtingarmyndir eru athugasemdir um líkama, klæðnað eða lífsstíl einstaklings eða athugasemdir af kynferðislegum toga svo sem niðrandi tali og bröndurum sem viðkomandi kærði sig ekki um.

Kynntu þér málið
BSRB hvetur alla til að kynna sér málið betur, læra að þekkja kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og hvernig á að bregðast við því. Nánari upplýsingar má finna í bæklingnum „Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum“.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?