Þríhliða samtal um græn umskipti

Norðurlandafánum flaggað við Hörpu 1. des

Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda á Norðurlöndum komu saman til að ræða réttlát græn umskipti á vinnumarkaði í fjölmennu þríhliða samtali í Hörpu á föstudag, 1. desember.

Ráðstefnan bar yfirskriftina Green Transition on the Nordic Labor Market: A Tripartite Dialogue. Samtalið fór fram undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og til grundvallar því lá viljayfirlýsingin Reykjavik Memorandum of Understanding. Í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að horfa til tækifæra og áskorana grænna umskipta til að tryggja að þau verði réttlát og treysti hin sameiginlegu gildi á norrænum vinnumarkaði og í samræmi við vegvísi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti.

Ráðstefnan var mikilvægur vettvangur samtals milli aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndum og norrænna vinnumarkaðsráðherra. Rætt var um áhrif grænna umskipta á mismunandi hópa og stéttir á Norðurlöndunum en rannsóknir sýna að elda fólk, fólk sem býr í dreifbýli og fólk án háskólamenntunar hefur meiri áhyggjur af störfum sínum vegna umskiptanna en yngra og menntaðra fólk sem býr í þéttbýli. Samhljómur var um að huga þurfi að mismunandi áhrif á þessa hópa í stefnumörkun um réttlát græn umskipti og mikilvægi þess að almenningur yrði valdefldur til að vera hluti af breytingum framundan. Nauðsynlegt væri að stjórnvöld mótuðu skýrar og aðgengilegar áætlanir og að atvinnurekendur ættu í hreinskilnu samtali við starfsfólk sitt um breytingar á störfum þeirra vegna grænna umskipta. Þá bæri verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur sameiginlega ábyrgð á því að undirbúa launafólk fyrir breytingar og þróa nýja færni.

 

„Við í norrænu verkalýðshreyfingunni fögnum því að Guðmundur Ingi Guðbrandsson vinnumarkaðsráðherra hafi lagst á árarnar með okkur og haldið þennan glæsilega viðburð um réttlát umskipti. Það var mikill samhljómur á fundinum og vilji hjá öllum aðilum að auka samstarfið til að flýta umskiptunum en tryggja á sama tíma að störfin sem skapast verði góð störf og að ávinningnum og byrðunum verði skipt með réttlátum hætti. Næsta skref hlýtur að vera að aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi eigi sambærilegt samtal, móti áætlanir og vinni sameiginlega að réttlátum umskiptum,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB að fundi loknum.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?