Tillögur í húsnæðismálum til framkvæmda strax

Áætla þarf þörf fyrir íbúðarhúsnæði betur en gert hefur verið til að koma í veg fyrir einsleita uppbyggingu dýrari íbúða.

Tillögur átakshóps stjórnvalda í húsnæðismálum eru vel unnar og eru gott innlegg í umræðuna að mati BSRB. Ástæða er til að fagna þeirri samstöðu sem hefur náðst um aðgerðir. Nú þurfa stjórnvöld að hafa hraðar hendur og fjármagna tillögurnar og tryggja að þær nái fram að ganga.

Mikilvægt er að fylgt verði eftir tillögum um áframhaldandi uppbyggingu almennra íbúða og að ríki og sveitarfélög auki fjárveitingar í stofnframlög á næstu árum, til dæmis til Bjargs íbúðafélags, sem stofnað var af ASÍ og BSRB. Þá er einnig þörf á því að endurskoða sem fyrst tekjumörk leigjenda í almenna íbúðakerfinu og að lækka fjármagnskostnað þeirra félaga sem standa að uppbyggingu þar til að tryggja framgang kerfisins. Þá er jákvætt að átakshópurinn tekur undir áherslur BSRB um stuðning við önnur íbúðafélög sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

BSRB telur mikilvægt að byggt sé í samræmi við þörfina hverju sinni. Til þess þarf að efla upplýsingaöflun svo hægt sé að sjá hversu margar og hvernig íbúðir eru í byggingu hverju sinni. Út frá því má áætla betur þörfina á næstu árum og koma í veg fyrir einsleita uppbyggingu dýrari íbúða. Eins og ítrekað hefur verið bent á undanfarið skiptir miklu að það húsnæði sem byggt er henti tekjulægri hópum á vinnumarkaði.

„Nú hafa fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga og heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda sameinast um hvernig eigi að bregðast við uppsöfnuðum skorti á íbúðum sem leitt hefur til mikillar verðhækkunar á íbúða- og leigumarkaði og húsnæðisóöryggis. Það gefur okkur von um að húsnæðisþörf ólíkra hópa verði mætt. Það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda að húsnæðiskostnaður lækki og að tryggt verði nægilegt framboð á húsnæði svo að fólk hafi raunverulegt val um hvort það eigi eða leigi húsnæði,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Allt of stór hlut launa í húsnæði

„Það er mjög jákvætt að húsnæðismálin eru loksins komin á dagskrá og það er ekki síst verkalýðshreyfingunni að þakka. Afrakstur umfangsmiklar vinnu liggur nú fyrir og mikilvægt að unnið sér hratt að útfærslum tillagnanna því verkefnið skiptir fjölmarga gríðarlegu máli. Alltof stór hluti launa of margra fer nú í húsnæðiskostnað og BSRB leggur áherslu á unnið sé hratt og vel að lækkun hans. Að sama skapi þarf að auka framboð svo að allir eigi kost á því að búa í viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði,“ segir Sonja.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?