Veikindaréttur í uppsögn staðfestur með dómi

Starfsfólk sem er sagt upp í veikindum heldur óskertum veikindarétti þrátt fyrir uppsögn.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest veikindarétt starfsfólks á uppsagnarfresti með dómi sem féll á fimmtudag. Þar var íslenska ríkinu gert að greiða fyrrum starfsmanni vangoldin laun og málskostnað vegna uppsagnar í veikindaleyfi.

Með dóminum er staðfestur skilningur verkalýðshreyfingarinnar á réttindum starfsfólks sem sagt er upp á meðan veikindum stendur.

Forsaga málsins er sú að umræddum starfsmanni, sem var kennari við menntaskóla, hafði verið sagt upp á meðan hann var í veikindaleyfi. Viðkomandi átti kjarasamningsbundinn rétt til 360 veikindadaga en vegna uppsagnar urðu starfslok eftir 260 daga í veikindum.

Það er ekki óheimilt að segja starfsmanni upp í veikindum, en almenna reglan er sú að uppsögn á tíma veikinda geti ekki stytt veikindarétt starfsmanna. Afstaða ríkisins var hins vegar sú að ráðning skuli ekki standa lengur en út uppsagnarfrest óháð veikindarétti og þar sem uppsagnarfresturinn náði til skemmri tíma en veikindarétturinn taldi ríkið heimilt að stytta veikindaréttinn um 100 daga. Þessu mótmælti starfsmaðurinn og höfðaði mál fyrir dómstólum til að láta reyna á rétt sinn.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að launagreiðandi geti ekki stytt veikindarétt starfsmanns og þar með svipt hann áunnum réttindum með uppsögn á tímabili veikinda. Sú niðurstaða dómsins er í samræmi við fyrri dómaframkvæmd. Ef uppsögn berist áður en veikindi komi til þá gildi uppsagnarfrestur en ef veikindaleyfi sé hafið þegar uppsögn berist hafi lengd uppsagnarfrests engin áhrif á lengd veikindaréttar. Íslenska ríkinu var því gert að greiða laun starfsmannsins út veikindarétt ásamt vöxtum og málskostnaði, alls um þrjár milljónir króna.

Hægt er að lesa dóm Héraðsdóms Reykjavíkur hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?