Verkföll, veira og vinnuvika

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Árið 2020 mun líklega seint líða úr minni flestra. Þetta ótrúlega ár hófst með undirbúningi fyrir umfangsmestu verkföll opinberra starfsmanna í manna minnum. Þar sem við stóðum í þeim stórræðum grunaði okkur ekki að það yrði síður en svo ástæðan fyrir því að árið 2020 yrði greypt í minni okkar allra.

Eins og allir þekkja hefur heimsfaraldur kórónaveirunnar sett sitt mark á þetta ár. Opinberir starfsmenn hafa staðið í framlínunni í baráttunni við þennan vágest. Faraldurinn hefur kallað á samvinnu okkar allra, harðar aðgerðir til að draga úr smitum og gríðarleg fjárútlát ríkis og sveitarfélaga.

Verkföll

Umfangsmestu verkfallsaðgerðir BSRB í áratugi voru boðaðar þann 9. mars 2020. Kjarasamningar nær allra aðildarfélaga BSRB höfðu þá verið lausir í rúmt ár. Í ársbyrjun var orðið ljóst að til að ná fram kröfum okkar þyrfti að grípa til verkfallsaðgerða og undirbúningur fyrir þær einkenndi fyrstu mánuði ársins. Við héldum fjölmennan baráttufund í lok janúar og fundum fyrir afgerandi stuðningi við verkfallsaðgerðir. Samningaviðræður héldu áfram og tókst að afstýra verkföllum aðeins nokkrum klukkustundum áður en þau áttu að skella á með undirritun kjarasamninga.

Með samstöðuna að vopni tókst okkur að knýja fram ásættanlega niðurstöðu við kjarasamningsborðið. Þar náðum við fram meirihluta þeirra markmiða sem við lögðum af stað með í viðræðunum. Meðal þeirra var samkomulag um 30 daga orlof fyrir alla, óháð aldri, og launahækkunum sem gagnast best tekjulægri hópum og stuðla þar með að jöfnuði í samfélaginu.

En stóra málið sem samið var um í kjarasamningunum síðasta vor var stytting vinnuvikunnar. Vinnuvikan hér á landi hefur verið 40 stundir í næstum hálfa öld og augljóst að gríðarlegar breytingar hafa orðið á samfélaginu, tækni og störfum á þeim tíma. Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB var kveðið á um að stytta megi vinnuvikuna niður í 36 stundir og að styttingin geti verið enn meiri hjá vaktavinnufólki sem gengur þyngstu vaktirnar.

Veiran

Aðildarfélög BSRB undirrituðu kjarasamninga sína á síðustu stundu áður en heimsfaraldurinn skall á Íslandi af fullum þunga. Frá þeim tíma hafa félagsmenn okkar staðið í framlínunni í baráttunni við heimsfaraldur kórónaveirunnar. Þó að nú hilli undir bóluefni er þeirri baráttu hvergi nærri lokið.

Við þekkjum öll fólk sem hefur smitast af veirunni. Margir hafa veikst alvarlega og glíma jafnvel enn við eftirköst veikindanna og aðrir létust úr veikindum sínum. Hugur okkar allra er hjá þeim sem hafa misst ástvini sína eða heilsu í þessum illvíga faraldri.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur unnið þrekvirki í baráttunni við veiruna og fjöldinn allur af öðru starfsfólki almannaþjónustunnar hefur lagt allt í sölurnar til að við sem samfélag komum sem best út úr faraldrinum. Á sama tíma eru æ fleiri að átta sig á því að þær stofnanir sem við treystum á í þessari baráttu upp á líf og dauða hafa verið fjársveltar um langt árabil sem hefur leitt til þess að mikið og langvarandi álag hefur verið á starfsfólkið. Sama fólk og nú ber okkur hin á herðum sínum í þessum faraldri. Meirihluti starfsfólks almannaþjónustunnar eru konur og því bitnaði harkalegur niðurskurður í kjölfar hrunsins hlutfallslega verst á þeim með auknu álagi í bæði launuðum og ólaunuðum störfum þeirra.

Konur á Íslandi bera miklar byrðar umfram karla. Þær fá að jafnaði lægri laun en þeir, vinna í starfsgreinum sem verða illa fyrir barðinu á niðurskurði og sinna ólaunuðum störfum í meira mæli en karlar við umönnun fjölskyldu og ættingja vegna niðurskurðar í almannaþjónustu. Engu að síður fara stjórnvöld nú enn og aftur fram með ósanngjarnar aðhaldskröfur á opinberar stofnanir sem munu leiða til aukins álags á starfsfólk sem var langþreytt fyrir og er nú komið að niðurlotum. Þetta á ekki eingöngu við um okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólk heldur allt það fjölmarga starfsfólk almannaþjónustunnar sem er í nánum persónulegum samskiptum við annað fólk, starfa sinna vegna. Þar er hægt að nefna starfsfólk í þjónustu við aldraða og börn, við ræstingar, löggæslu og sjúkraflutninga, svo einhver dæmi séu nefnd.

Sú kreppa sem skall á með heimsfaraldrinum hefur haft gríðarleg áhrif hér á landi líkt og annarsstaðar. Mikill fjöldi fólks missti vinnuna, einkum fólk í lægst launuðu störfunum. Rannsóknir sýna að efnahagsáföll af þessari stræðargráðu leiða yfirleitt til aukins ójöfnuðar og því hefur BSRB frá fyrstu dögum faraldursins lagt ríka áherslu á að gripið verði til aðgerða til að tryggja afkomu heimilanna. Við höfum kallað eftir því að stjórnvöld gangi lengra í aðgerðum fyrir fólkið í landinu enn þegar hefur verið gert. Tölurnar sýna að næstum tíundi hver Íslendingur er í hættu að búa við fátækt. Hlutfallið er enn hærra þegar kemur að börnum. Það er staða sem við sem samfélag getum ekki sætt okkur við.

Leiðin út úr kófinu felur því í sér endurmat á tekjuskiptingunni og aðgerðir til að jafna byrðarnar. Við verðum að huga sérstaklega að fólki í viðkvæmri stöðu og stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða til að tryggja bæði efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Tryggjum sameiginlega hagsmuni okkar sem samfélags, ekki sérhagsmuni lítils hluta landsmanna.

Stjórnvöld hafa fjárfest í nýjum störfum, en því miður er hugsunin þar gamaldags og störfin sem skapast eru í atvinnugreinum þar sem karlmenn eru í miklum meirihluta. Gert er ráð fyrir að um 85 prósent þeirra starfa sem skapist verði svokölluð karlastörf. Það væri auðvelt að fara aðra leið enda er rúmlega helmingur atvinnulausra eru konur. Með því að auka fjárfestingu í umönnunargeiranum mætti skapa ný störf í félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og tengdum greinum. Þessi störf eru nauðsynleg til að samfélagið virki og við verðum að tryggja að fjárveitingar til þessara geira haldi í við þörfina, ekki síst í ljósi öldrunar þjóðarinnar.

Vinnuvikan

Eitt af því sem getur létt álaginu af framlínufólkinu okkar og öðrum starfsmönnum almannaþjónustunnar er stytting vinnuvikunnar. Eftir að hafa barist fyrir styttingu árum saman náðu aðildarfélög BSRB inn ákvæðum um styttri vinnuviku í kjarasamningum sínum síðastliðið vor.

Nú um áramótin kveðja stórir hópar opinberra starfsmanna 40 stunda vinnuvikuna, sem hefur verið við lýði hér á landi í nær hálfa öld. Stytting vinnuvikunnar tekur gildi hjá starfsmönnum sem vinna í dagvinnu nú um áramótin og þann 1. maí hjá vaktavinnufólki.

Samkvæmt kjarasamningunum er heimilt að stytta vinnuviku dagvinnufólks allt niður í 36 stundir. Í aðdraganda styttingarinnar fóru fram umbótasamtöl á hverjum vinnustað þar sem farið var yfir verkefni og vinnulag og ákveðið hversu mikið ætti að stytta og hvernig. Víðast hvar hefur þessi vinna gengið vel og ljóst að stór hluti vinnustaða er ýmist byrjaður í hámarksstyttingu, eða byrjar nú um áramótin. Því miður virðist samtalið hafa gengið hægt á sumum vinnustöðum og svo virðist sem ekki hafi verið farið rétt í gegnum það ferli sem kveðið er á um í kjarasamningum. Á næsta ári munum við í samvinnu við önnur samtök launafólks og launagreiðendur styðja við vinnustaði þar sem erfiðlega hefur gengið til að tryggja að sátt ríki um breytingarnar á vinnustaðnum.

Útfærslan á vaktavinnustöðum verður öðruvísi og þarfnast annarskonar undirbúnings. Þar er lágmarksstyttingin 4 stundir svo enginn í vaktavinnu mun vinna lengri vinnuviku en 36 stundir. Þeir sem eru á þyngstu vöktunum, um nætur og helgar, fá enn meiri styttingu, allt niður í 32 stunda vinnuviku. Með þessu er í raun verið að fallast á þá kröfu fjölmargra vaktavinnustétta að 80 prósent vaktavinna jafngildi 100 prósenta dagvinnu. Það er verið að leiðrétta vinnutíma vaktavinnufólks í ljósi fjölmargra rannsókna sem sýna neikvæð áhrif slíkrar vinnu á heilsu starfsfólks og öryggi þeirra sjálfa og þjónustunnar.

Stytting vinnuvikunnar hefur verið eitt helsta baráttumál BSRB árum saman og því gríðarlega ánægjulegt að það sé nú að komast í höfn. Eftir stendur að ljúka þarf innleiðingunni og hjálpa þeim vinnustöðum sem eiga í erfiðleikum með að klára ferlið.

Baráttan heldur áfram

Efnahagskreppur leiða oft af sér breytingar og mörg þeirra félagslegu kerfa sem við treystum á í dag hafa orðið til í kjölfar alvarlegra áfalla. Á tímum eins og þessum eigum við að hugsa hlutina upp á nýtt, sér í lagi á kosningaári. Það er aðeins ein leið út úr kófinu og hún byggir á samvinnu og samstöðu okkar allra um að byggja upp réttlátt samfélag sem einkennist af jöfnuði og jafnrétti.

Á nýju ári munum við halda á lofti þeirri kröfu okkar að stjórnvöld endurtaki ekki mistökin frá hruninu með gríðarlegum niðurskurði í opinberri þjónustu. Með því að fjárfesta í umönnun og heilbrigðisþjónustu og hlúa að því starfsfólki sem hefur sinnt þeim störfum undir gríðarlegu álagi síðustu ár aukum við jöfnuð og velsæld sem aftur mun tryggja verðmætasköpun til framtíðar.

Á nýju ári munum við einnig tryggja að stjórnvöld standi við þau loforð sem gefin voru við undirritun kjarasamninga aðildarfélaga BSRB. Við það tilefni lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún muni vinna markvisst að því að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Heimsfaraldurinn hefur opnað augu flestra fyrir að konur bera skarðan hlut frá borði á vinnumarkaði, ekki síst þær sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Við sem samfélag erum enn að meta störf sem snúast um að sýsla með peninga meira en störf sem snúast um að annast veika, börn, aldraða og aðra sem þurfa á umönnun að halda. Faraldurinn hefur líka varpað ljósi á þær byrðar sem konur bera vegna ólaunaðrar vinnu á heimilum.

Á nýju ári mun BSRB halda áfram að berjast fyrir því að leið okkar sem samfélags út úr kófinu verði ekki á kostnað kvenna. Við verðum að vinna okkur út úr þessu ástandi þannig að vinnuframlag hvers og eins verði metið út frá samfélagslegu mikilvægi þess, óháð kyni, uppruna og stöðu að öðru leyti.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?