Yfirlýsing þings NFS

Norræna verkalýðssambandið hélt á dögunum þing sitt. Aðild að NFS eiga öll helstu heildarsamtök launafólks á Norðurlöndunum, þar á meðal BSRB og ASÍ.

Yfirskrift þingsins að þessu sinni var „Norðurlöndin – sjálfbærasta og samkeppnishæfasta svæðið í heimi“ og var meginviðfangsefni þingsins að fjalla um það hvernig norrænu samfélögin geta tekist á við þær ógnir og áskoranir sem svæðið stendur frammi fyrir m.a. í ljósi hnattvæðingarinnar og örri þróun upplýsingatækni. Þá var sérstaklega fjallað um stöðu og hlutverk verkalýðshreyfingarinnar í þessum efnum.

Í lok þingsins var kynnt ályktun forystu aðildarsamtaka NFS. Í ályktuninni er lögð rík áhersla á að styrkja þríhliða samráð stjórnvalda, samtaka launafólks og atvinnurekenda á norrænum vettvangi. Bent er á einstakan árangur norræna kjarasamningsmódelsins við að tryggja kjör og réttindi launafólks ásamt því að auka samkeppnishæfni og aðlögunarhæfni Norðurlandanna. Jafnframt er áréttað að leið Norðurlandanna við að treysta samkeppnishæfni sína og sjálfbærni til framtíðar á að felast í að byggja á og styrkja helstu einkenni Norræna samfélagsmódelsins; félagslegt öryggi og velferð, jafnrétti, gagnsæi, lýðræði og öflug og góð menntun fyrir alla. Í því felist einstakt tækifæri Norðurlandanna. 

 

Yfirlýsing forystu aðildarsamtaka Norræna verkalýðssambandsins (NFS) í tengslum við þing þess í Køge, Danmörku 29. maí 2015:

Gerum Norðurlöndin sjálfbær og samkeppnishæfasta svæði heims

Heildarsamtök launafólks á Norðurlöndunum telja þríhliða samráð við þróun norræns vinnumarkaðar, á grundvelli norrænna gilda, vera réttu leiðina til að ná markmiðum um sjálfbærni og alþjóðlega samkeppnishæfni.

Með norræna kjarasamningsmódelinu hefur á árangursríkan hátt tekist að tryggja réttindi og öryggi fyrir launafólk ásamt því að auka samkeppnishæfni, aðlögunarhæfni og skilvirkni í hagkerfinu. Norræna kjarasamningsmódel hefur verið meginforsenda þess að tekist hefur að byggja upp sterk og skilvirk velferðarsamfélög. Norðurlöndin standa frammi fyrir miklum áskorunum þar sem hlýnun jarðar setur aukinn þrýsting á hagkerfin að viðhalda samkeppnishæfni, aðlagast og þróa starfshæfni á vinnumarkaði. Framfarir í vísindum og upplýsingatækni gera þessar áskoranir enn umfangsmeiri.

Norræna verkalýðssambandið getur ekki sætt sig við að meiri ójöfnuður og minni samfélagsábyrgð verði lausn Norðurlanda við aukinni alþjóðlegri samkeppni. Þess í stað þarf að þróa norræna samfélagsmódelið og byggja á styrkleikum þess og kostum.

Við fögnum frumkvæði norrænu ráðherranefndarinnar um að ráðast í greiningu sameiginlega norræna vinnumarkaðinum. Nú er rétti tíminn til að þróa sameiginlega áætlun og raunhæfar lausnir til framtíðar. Það þarf árangursríkar aðgerðir til að tryggja sjálfbæran grænan hagvöxt, fulla atvinnu, mikla samkeppnishæfni og vinnumarkað fyrir alla - aðgerðir sem þróa sjálfbærni Norðurlanda og samkeppnishæfni.

Norræna verkalýðssambandið skorar því á fyrirtæki, ríkisstjórnir, Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina:

· Að taka þátt og taka ásamt okkur ábyrgð á árangursríku þríhliða samráði á vettvangi Norðurlandanna.

· Að byggja stefnu á einstökum norrænum forsendum sem á árangursríkan hátt skapar sjálfbærni og samkeppnishæfni. Þar sem gengið er út frá félagslegu öryggi og velferð, jafnrétti, gagnsæi, lýðræði, öflugri og góðri menntun fyrir alla og vinnumarkaðsmódeli með sterkum og sjálfstæðum samtökum.

· Að innan rammans um öflugra þríhliða samstarf ábyrgjast að norrænn vinnumarkaður sem nú er 60 ára verði í reynd sameiginlegur og fyrir alla. Sameiginlegur vinnumarkaður þar sem nýjar reglur Evrópusambandsins verði skoðaðar samnorrænt áður en þær eru innleiddar í hverju landi fyrir sig til þess að koma í veg fyrir nýjar hindranir á sameiginlegum vinnumarkaði.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?