Yfirverð og bólumyndun á húsnæðismarkaði

Fulltrúar Íbúðalánasjóðs funduðu með Velferðarnefnd BSRB. Frá vinstri: Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir, markaðsstjóri sjóðsins, Una Jónsdóttir, hagfræðingur á hagdeild sjóðsins, Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður nefndarinnar, og Hermann Jónasson, forstjóri sjóðsins.

Greinileg merki eru um yfirverðlagningu og þar með bólumyndun á húsnæðismarkaði að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs, þar sem framboð húsnæðis hefur ekki náð að haldast í hendur við eftirspurn að undanförnu. Þetta kom fram í máli Hermanns Jónassonar, forstjóra sjóðsins, með nefnd BSRB um velferðarmál nýverið.

Eitt af hlutverkum Íbúðalánasjóðs er að standa fyrir rannsóknum á húsnæðismarkaði, enda sjóðurinn nú frekar orðinn að stjórntæki stjórnvalda á húsnæðismarkaði en eiginleg lánastofnun. Hermann nefndi að ný lán sjóðsins séu aðeins um 10% allra lána á húsnæðismarkaði, en áður hafi hlutfallið verið um 80%.

Spár um þörf fyrir íbúðir um margt ábótavant

Una Jónsdóttir, hagfræðingur á hagdeild sjóðsins, segir að spár um þörf fyrir fjölgun íbúða hafi verið um margt ábótavant, enda hafi þær ekki alltaf tekið tillit til sveiflna á fjölgun íbúa, né til þess mikla fjölda ferðamanna sem nú komi til landsins. Það muni um minna, enda um 1.800 íbúðir nú í útleigu til ferðamanna.

Lögum um Íbúðalánasjóð var breytt árið 2012. Við það fór hlutverk sjóðsins frá því að vera fyrst og fremst lánasjóður í það að vera lánasjóður og yfir í að vera sú stofnun sem ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála. Þá var lögum einnig breytt á síðasta ári til að stuðla að auknu framboði á leiguhúsnæði. Sjóðurinn hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar til að aðlagast breyttu hlutverki, til dæmis með stofnun sérstakrar hagdeildar sem hefur það hlutverk að rannsaka stöðuna á húsnæðismarkaði.

Lánveitingar takmarkaðar við samfélagslegt hlutverk

Eitt af hlutverkum sjóðsins er að úthluta stofnframlögum fyrir nýtt leigukerfi. Þar hefur Bjarg íbúðafélag, sem BSRB og ASÍ stofnuðu á síðasta ári, þegar hafið starfsemi og fengið úthlutað framlagi. Hermann segir markmið Íbúðalánasjóðs að tryggja að nýtt leigukerfi verði til, þegar sé búið að úthluta 2.800 milljónum vegna 509 íbúða árið 2016, til standi að úthluta þremur milljörðum til viðbótar á árinu 2017.

Íbúðalánasjóður mun áfram lána til íbúðakaupa, en lánveitingarnar verða takmarkaðar við samfélagslegt hlutverk. Það hefur ekki verið útfært nákvæmlega, en Hermann sagði líklegt að stjórnvöld myndu útfæra það á næstu misserum og horfa í þeim efnum til sambærilegra stofnana á Norðurlöndunum eins og Husbanken í Noregi og Ara í Finnlandi.

Húsnæðisáætlanir öflugasta stjórntækið

Stjórnvöld hafa einnig falið Íbúðalánasjóði gerð húsnæðisáætlana. Í þeim greinir sjóðurinn framboð og eftirspurn eftir húsnæði um allt land, vinnur áætlun um hvernig sveitarfélög geta mætt húsnæðisþörfinni og miðlar þeim upplýsingum til sveitarfélaga. Hermann sagði þetta vera öflugasta stjórntækið til að draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði með húsnæðisskorti eða offramboði.

Fimmta og síðasta meginhlutverk Íbúðalánasjóðs er að fylgjast með þróuninni á leigumarkaði. Þá mun hann frá næstu áramótum annast framkvæmd húsnæðisbóta, sagði Hermann.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?