Skýr réttur starfsfólks til að aftengjast

Fróðleikur
Greiða á fyrir það ef starfsfólk fær tölvupósta, símtöl eða annað áreiti utan vinnutíma.

BSRB hefur verið tíðrætt um mikilvægi þess að gerð séu skil milli vinnu og einkalífs. Stytting vinnuvikunnar hefur það að markmiði að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að gera skil milli vinnu og einkalífs. Fyrir síðustu kjarasamningsgerð gerði bandalagið kröfu um að reglur yrðu settar í kjarasamninga um þessi skil. Að mati bandalagsins var þetta nauðsynlegt til þess að minnka til muna áreiti utan vinnutíma og tryggja að greitt sé sérstaklega fyrir það þegar slíkt ónæði er nauðsynlegt.

Í gildandi kjarasamningum aðildarfélaga BSRB er nú að finna ákvæði sem fjallar sérstaklega um þessi atriði. Þar segir að gert sé ráð fyrir því að starfsfólk geti sinnt reglubundnum störfum sínum innan hefðbundins vinnudags. Mikilvægt sé að stofnanir setji sér viðverustefnu þar sem meðal annars er skerpt á skilum milli vinnu og einkalífs. Í þeim tilvikum sem starfsfólk þarf að sinna vinnu utan hefðbundins vinnutíma á það að koma fram í starfslýsingu og starfskjörum viðkomandi. Að öðrum kosti skal greiða sérstaklega fyrir vinnuframlag sem yfirmaður krefst af starfsmanni utan hefðbundins vinnutíma.

Réttur starfsfólks til þess að aftengjast, það er að geta treyst á að berast ekki vinnutengd símtöl eða þurfa að svara vinnutengdum tölvupóstum utan vinnutíma, er mikilvægur þáttur í þeirri vegferð að búa til þessi skil milli vinnu og einkalífs. Þessi réttur er orðinn nauðsynlegur í dag vegna þess hversu margir eru orðnir sítengdir vinnustað sínum. Fundarboð, vinnutengdir tölvupóstar og símtöl sem eiga það til að berast utan vinnutíma eru þannig orðinn hluti heimilishalds margra þó slíkt eigi sér stað að loknum fullum vinnudegi. Þessi sítenging við vinnustaðinn gerir skilin milli vinnu og einkalífs mjög óljós eða veldur því að þau séu jafnvel ekki til staðar.

Ákveðin vitundarvakning hefur orðið um þessi málefni í Evrópu á undanförnum árum. Þannig voru settar reglur í franska löggjöf um réttinn til að aftengjast og þær reglur sem atvinnurekendum ber að fylgja gagnvart sínum starfsmönnum fyrir nokkrum árum og nýlega kom fram hávær krafa frá Evrópusambandi stéttarfélaga (ETUC) um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setji án tafar slíkar reglur, sem aðildarríkin gætu innleitt í sína löggjöf. Að mati ETUC væri augljóst að heilsa og vellíðan fólks sé undir og ekki hefði verið nóg gert á þessum vettvangi innan bandalagsins.

Langvarandi álag á starfsfólk getur haft í för með sér alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar. Það er því til mikils að vinna fyrir atvinnurekendur og starfsfólk að skilin milli vinnu og einkalífs haldi. Það er óþarfi að bíða eftir reglum frá Evrópusambandinu hvað þetta varðar og einfaldlega hægt að líta til kjarasamninga BSRB sem hafa að geyma skýr ákvæði um þessi atriði. Mikilvægt er að með viðverustefnu innan vinnustaðar séu settar skýrar reglur um skilin milli vinnu og einkalífs og rétt starfsfólk til þess að aftengjast.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?