Viltu styrkja þig í núverandi starfi eða leita á önnur mið?

Fróðleikur

Það er ljóst að tími mikilla breytinga er runninn upp á vinnumarkaði og þeirri þróun spáð áfram næstu árin. Samkvæmt framtíðarspám verður mest fjölgun í störfum við almenna umönnun, þjónustu við aldraða, í byggingariðnað og ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt, en á móti fækkar störfum í móttöku, afgreiðslu, bakvinnslu og almennum skrifstofustörfum.

Samfara fjölgun og fækkun á tilteknum störfum eru flest störf á vinnumarkaði að verða fyrir einhverjum breytingum, einkum vegna stafrænnar þróunar. Þessum breytingum þarf vinnumarkaðurinn að mæta með auknum tækifærum fólks á að bæta við sig þekkingu.

Með virkri sí- og endurmenntun er hægt að tryggja að launafólk geti lagað sig að þeim umskiptum sem eru að eiga sér stað á vinnumarkaði. Einnig sýna rannsóknir að virk sí- og endurmenntun hefur jákvæð áhrif á starfsánægju og eykur starfsöryggi.

Samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu þarf 60% launafólks að sækja sér sí- og endurmenntun á ári hverju en staðan er sú að einungis 37% gera það. Sé litið til þeirra sem hafa stutta skólagöngu að baki, er það einungis 18%. Á Íslandi er staðan enn verri en samkvæmt Hagstofu Íslands sækja 19,4% sí- og endurmenntun og fer sú tala lækkandi. Þegar litið er til þeirra sem hafa stutta skólagöngu að baki er það aðeins 11%.

Við þurfum því að gefa í.

Kostnaður og tímaleysi eru þær ástæður sem fólk nefnir oftast sé það spurt hvers vegna þau hafa ekki nýtt sér fræðslu eða endurmenntun. Aðrar ástæður eru tekjumissir meðan á fræðslunni eða menntuninni stendur, að þau viti ekki hvað er í boði og að ekki liggi fyrir hvort kauphækkun fáist við að ljúka tilteknu námi eða námskeiði. Svo er allur gangur á því hvernig vinnustaðir standa að sí- og endurmenntun. Reynslan sýnir að best gengur ef vinnustaðir hvetja til fræðslu á vinnutíma, unnið sé að starfþróun í samvinnu starfsmanns og vinnstaðar og að kaupauki fylgi.

Hvernig er hægt að vinna að sinni starfsþróun?

Mörg upplifa sig týnd þegar kemur að því að velja leiðir til að auka hæfni í núverandi starf eða skipta um starfsvettvang. Það kemur ekki á óvart þar sem margt er í boði og fjölmargar ólíkar leiðir hægt að fara.

Til að leita upplýsinga og fá ráðgjöf stendur félögum í öllum aðildarfélögum BSRB til boða að hitta náms- og starfsráðgjafa hjá Starfsmennt sér að kostnaðarlausu.

Í nánast öllum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB er ákvæði um launað námsleyfi. Lengd þess og eftir hversu langan starfstíma launafólk hefur rétt á því er mismunandi eftir félögum. Til að nálgast upplýsingar um rétt til námsleyfis þarf að hafa samband við viðkomandi stéttarfélag. Starfsfólk þarf að fá leyfi þarf frá viðkomandi vinnustað/yfirmanni til að fara í nám og ræðst það af sí- og endurmenntunaráætlun vinnustaðarins en slík áætlun á að vera aðgengileg starfsfólki á opinberum vinnustöðum.

Hér má sjá nánari upplýsingar um tölfræði frá Evrópusambandinu: https://www.statice.is/publications/news-archive/education/lifelong-learning-2020/


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?