Ályktun 45. þings BSRB um fæðingarorlof og dagvistun

45. þing BSRB kallar eftir því að ríki og sveitarfélög brúi þegar í stað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða sveitarfélaga. Það er óásættanlegt að foreldrar þurfi að bíða tekjulausir í óvissu þar sem engin úrræði eru til staðar. Lögfesta þarf rétt barna til dagvistunar að loknu fæðingarorlofi samhliða lengingu fæðingarorlofs í 24 mánuði sem skiptist jafnt á milli foreldra, hækka hámarksgreiðslur og tryggja að greiðslur upp að lágmarkslaunum verði ekki skertar. Með hliðsjón af réttindum barna þarf jafnframt að tryggja réttindi einstæðra foreldra til 24 mánaða fæðingarorlofs.

Samkvæmt lögum um fæðingarorlof eiga foreldrar rétt á samtals níu mánaða fæðingarorlofi. Að loknu fæðingarorlofi tekur við bið þar til börnin komast að á leikskóla, svokallað umönnunarbil. Ríkið hefur hingað til skilað auðu þegar kemur að leikskólavist. Engar kvaðir eru settar á sveitarfélögin um hversu gömul börn á að taka inn á leikskóla. Að meðaltali eru börn um 20 mánaða þegar þau komast inn á leikskóla og umönnunarbilið mislangt eftir því hvar á landinu fólk er búsett.

Markmiðið með lögum um fæðingarorlof er tvíþætt. Annars vegar að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra sína og hins vegar að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði. Þeim markmiðum hafa lögin ekki náð. Raunin er sú að núverandi skipan fæðingarorlofs og framboð dagvistunarúrræða þegar orlofinu lýkur leiða til þess að konur axla meginábyrgðina á umönnun ungra barna, í stað þess að foreldrarnir deili þeirri ábyrgð jafnt. Rannsóknir sýna að þetta hefur ótvírætt neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?