Ályktun 45. þings BSRB um húsnæðismál

45. þing BSRB hvetur stjórnvöld og sveitarfélög til að bregðast þegar við erfiðu ástandi á húsnæðismarkaði. Stjórnvöld ættu að líta til þess fordæmis sem sett hefur verið með stofnun Bjargs íbúðafélags og stíga skref í átt að því að boðið sé upp á öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði með því að efla íbúðafélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og bjóða upp á ódýra langtímaleigu. Það er nauðsynlegt að bregðast við húsnæðisskorti með aukinni innspýtingu af hálfu yfirvalda, enda er öruggt húsnæði hornsteinn almennrar velferðar. Það þarf því að vera forgangsverkefni stjórnvalda að tryggja að nægilegt framboð sé á íbúðarhúsnæði. Húsnæðiskostnaður almennings ætti að jafnaði ekki að vera meira en þriðjungur af ráðstöfunartekjum.

Þingið skorar á yfirvöld að auka stofnframlög til lögaðila sem standa að uppbyggingu leigufélaga án hagnaðarsjónarmiða. Þannig má bregðast við skorti á leiguhúsnæði og vinna að því markmiði að gera leigumarkaðinn að eftirsóknarverðum valkosti. Það á að vera val hverju sinni hvort fólk leigir eða kaupir húsnæði. Það ættu að vera margir kostir fólgnir í því að leigja húsnæði ef leigumarkaðurinn væri heilbrigður og raunverulegur valkostur. Vegna skorts á framboði hefur stríðsástand ríkt á markaðnum undanfarin ár. Það ástand verður ekki lagað nema með því að auka framboð húsnæðis og bæta vaxtakjör.

Stjórnvöld ættu að beita sér fyrir því að fleiri íbúðir séu byggðar samhliða stórum framkvæmdum, til þess að nýta betur lóðir og dreifa byggingarkostnaði á fleiri íbúðir. Þannig má auka framboð íbúðarhúsnæðis með hagkvæmum og fljótlegum hætti. Stjórnvöld verða þó á sama tíma að sinna eftirliti með því að þeir aðilar sem fá stofnframlög undir því yfirskyni að stunda útleigu án hagnaðarsjónarmiða séu raunverulega með það að leiðarljósi til langs tíma.

Þing BSRB gerir þá kröfu að stjórnvöld sjái til þess að húsnæðis- og vaxtabætur skili sér til þeirra sem þurfa á slíkum stuðningi að halda. Tryggja verður að sá stuðningur haldi sér þrátt fyrir verðlagshækkanir og þurfa skerðingarmörk því að fylgja verðlagi. Það gengur ekki að hækkun húsnæðisverðs, sem hefur jafnframt í för með sér hækkun fasteignamats og fasteignagjalda, valdi því að vaxtabætur skerðist. Framkvæma þarf heildarúttekt á því hvernig tryggja má að fólk njóti húsnæðisstuðnings í samræmi við þarfir sínar hverju sinni.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?