Ályktun 45. þings BSRB um kjaramál og komandi kjarasamninga

45. þing BSRB telur það grundvallaratriði að launafólk geti lifað af dagvinnulaunum. Draga þarf úr yfirvinnu en minna vinnuálag leiðir til þess að afköst starfsfólks aukast hlutfallslega.

Þingið krefst þess að lögfest verði að vinnuvika dagvinnufólks verði ekki lengri en 35 stundir og vinnuskylda í vaktavinnu verði 80 prósent af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar. Rannsóknir síðustu ára hafa varpað skýru ljósi á heilsuspillandi áhrif vaktavinnu og við því þarf að bregðast tafarlaust.

Þá telur þingið það grundvallaratriði að launamuni milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði eytt samkvæmt samkomulagi frá 19. september 2016 um lífeyrismál. Taka verður fyrstu skrefin í næstu kjarasamningum. Þá verður að ganga frá samkomulagi um hvernig launin verða endanlega jöfnuð á næstu árum.

Þingið leggur áherslu á að samið verði um áframhaldandi launaþróunartryggingu svo að launaskrið á almennum markaði fari sjálfkrafa til opinberra starfsmanna.

Þá áréttar þingið að á undanförnum misserum hefur ásókn í styrktar- og sjúkrasjóði stéttarfélaga aukist til muna. Hefur þar helst komið til aukinn ásókn í sjúkradagpeninga og sjúkrameðferðir. Eins og fram hefur komið í þjóðfélagsumræðunni eru kulnun og álag í starfi stórir orsakaþættir. Til að mæta þessari auknu ásókn í sjóðina er gerð krafa um að iðgjaldið hækki í eitt prósent af heildarlaunum.

Þingið krefst þess að gripið verði til sérstakra aðgerða til að útrýma launamun sem starfar af kynskiptum vinnumarkaði. Kallað er eftir samstöðu annarra heildarsamtaka og stéttarfélaga til að fylgja þessari kröfu eftir.

Fyrirkomulag vaktavinnu og bakvakta

Þing BSRB krefst þess að gerð verði heildarendurskoðun á fyrirkomulagi vaktavinnu og vinnutíma vaktavinnufólks. Skilgreina þarf hvað felst í vaktavinnu og samræma þá skilgreiningu milli kjarasamninga. Nauðsynlegt er að yfirfara talningu vinnustunda í forritinu Vinnustund sem heldur utan um vinnustundir vaktavinnufólks.

Þá krefst þingið þess að unnin verði úttekt á því hvort vaktavinnufólk hér á landi hafi dregist aftur úr þegar kemur að réttindum sem felast í vinnutímatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003.

Þing BSRB krefst þess að réttindi starfsfólks sem gengur bakvaktir verði bætt. Líta verður til nágrannalanda okkar og tryggja að sömu réttindi gildi hér og í þeim löndum sem við berum okkur saman við, enda byggir löggjöf okkar á sömu vinnutímatilskipun. Þannig er nauðsynlegt að 1/7 af bakvakt teljist vera virkur vinnutími. Þá skal telja bakvakt sem virkan vinnutíma að öllu leyti þegar þess er krafist að starfsmaður sé staddur innan ákveðinnar fjarlægðar frá vinnustað á meðan bakvakt varir, til dæmis til að tryggja að hann geti mætt til vinnu innan tiltekins tíma komi til útkalls.

Einnig krefst þingið þess að kjarasamningar verði útfærðir þannig að bæði aðfangadagur og gamlársdagur teljist til stórhátíðardaga allan sólarhringinn, en ekki einungis eftir klukkan 12:00 eins og nú er, í takti við þær breytingar sem orðið hafa á samfélaginu. Þá er þess krafist að almennur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti 8. mars verði almennur frídagur.

45.þing BSRB krefst þess að starfsfólk í stéttum sem þarf að hætta að vinna fyrr, til dæmis vegna álags í starfi, fái rétt til snemmtöku lífeyris sem fjármagnað verði sérstaklega með hærra mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði.

Reykjavík, 19. október 2018

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?