Ályktun 46. þings BSRB um atvinnuöryggi á vinnumarkaði framtíðarinna

Aðgerðir til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, tækniþróun og sjálfvirknivæðing ásamt hækkandi aldri þjóðarinnar mun móta íslenskan vinnumarkað á næstu árum og er sú þróun þegar farin af stað. 46. þing BSRB gerir þá kröfu á stjórnvöld að unnin verði ítarleg greining og mat á áhrifum allra þessara breytinga á störf og starfsumhverfi innan almannaþjónustunnar. Hið opinbera verður að varða leiðina.

Upplýsingar verða að liggja fyrir um áhrif breytinganna og hvernig þær munu snerta fólk með ólíkum hætti eftir starfstétt, menntun, uppruna, aldri, búsetu og kyni. Slík greining er nauðsynlegur grunnur fyrir gerð öflugrar áætlunar um sí- og endurmenntun, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat til að auðvelda fólki að laga sig að breyttum starfsaðstæðum í grænu hagkerfi. 46. þing BSRB leggur sérstaka áherslu á að stjórnvöld tryggi að öllu launafólki af erlendum uppruna gefist kostur á að læra íslensku á vinnutíma, þeim að kostnaðarlausu og án launaskerðingar.

46. þing BSRB lýsir yfir stuðningi við loftslagsmarkmið stjórnvalda en krefst þess að þeim verði náð á forsendum réttlátra umskipa. Réttlát umskipti fela í sér sanngjarna dreifingu kostnaðar og ávinnings af loftslagsaðgerðum til að ná kolefnishlutleysi. Áherslu skal leggja á sköpun grænna starfa sem eru launuð með sanngjörnum hætti. Þau skulu veita vinnumarkaðstengd réttindi og tryggja að starfsfólk hafi áhrif á starfsaðstæður sínar. 46. þing BSRB krefst þess að verkalýðshreyfingin sé þátttakandi í stefnumótun og útfærslu þeirra loftslagsaðgerða sem hafa munu áhrif á hag og aðstæður launafólks og almennings.

Reykjavík, 25. mars 2022

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?