Ályktun 46. þings BSRB um jöfnun launa milli markaða

Laun opinberra starfsmanna eru að meðaltali 16,8% lægri en laun fyrir sambærileg störf á almennum vinnumarkaði. Með samkomulagi sem ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin gerðu 16. september 2016 við heildarsamtök opinberra starfsmanna, skuldbundu opinberir aðilar sig til að jafna þennan launamun á innan við áratug.

Samkvæmt samkomulaginu, sem er afdráttarlaust og ekki er hægt að mistúlka, gáfu opinberir starfsmenn eftir hluta réttinda sinna í lífeyriskerfinu og lífeyrisréttur starfsmanna á almennum markaði var aukinn. Heildarsamtök launafólks á opinberum vinnumarkaði hafa þannig staðið við sinn hluta samkomulagins, almenni markaðurinn hefur fengið allt sitt, en ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin draga lappirnar eins og þau lifandi geta við að leiðrétta launamuninn milli markaða.

Í 7. grein samkomulagsins sem undirritað var 2016 um jöfnun launa segir orðrétt: „Vinna þarf sérstaklega að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar og munu aðilar beita sér fyrir því að sérstaklega verði unnið að slíkri launajöfnun.“

Í samningahópnum hefur ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin reynt að komast undan samkomulaginu. Þau hafa þvælt málið með óbilgjörnum hætti, afvegaleitt og rangtúlkað markmið samkomulagsins, í stað þess einfaldlega að jafna launamuninn við almenna vinnumarkaðinn eins og kveður á um í samkomulaginu. Í fimm ár hafa þau tafið og þvælt málið með allskonar útúrsnúningum og orðaleikjum, á meðan opinberir starfsmenn hafa staðið við sinn hluta.

46. þing BSRB krefst þess að launagreiðendur standi við sinn hluta samkomulagsins, tryggi fjármögnun verkefnisins og hefji strax vinnu að heilindum að jafna launamuninn eins og samningar segja til um.

Það verður aldrei nein sátt um að launagreiðendur svíki þetta samkomulag. Skilgreiningin á jöfnun launa milli markaða í samkomulaginu er fortakslaus og ef launagreiðendur standa ekki við samkomulagið mun það hafa víðtæk og alvarleg áhrif á þær kjarasamingsviðræður sem fram undan eru.

Reykjavík, 25. mars 2022

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?