Formannaráð BSRB varar eindregið við áframhaldandi einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og krefst þess að dregið verði verulega úr gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu. Ráðið ítrekar að heilbrigðisþjónustu á Íslandi eigi að fjármagna með opinberu fé og að rekstri hennar sé best fyrir komið í höndum hins opinbera enda jafnt aðgengi að allri grunnþjónustu hornsteinn íslenska heilbrigðiskerfisins.
Könnun Rúnars Vilhjálmssonar prófessors sýnir að afgerandi meirihluti landsmanna, um 81 prósent, vill að rekstur heilbrigðiskerfisins verði fyrst og fremst á forræði hins opinbera. Aðeins 0,5 prósent telja að einkaaðilum sé betur treystandi til þess en hinu opinbera að reka heilbrigðisstofnanir.
Einkarekstur dregur ekki úr kostnaði hins opinbera innan heilbrigðiskerfisins. Engin rök eru fyrir því að fá einkaaðilum það verkefni að reka heilsugæslustöðvar, sjúkrahótel eða aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar. Formannaráð BSRB varar eindregið við frekari einkavæðingu á þjónustu með því að bjóða út rekstur ákveðinna verkefna.
Reynslan hefur sýnt að einkavæðing þjónustu með einkarekstri takmarkar yfirsýn og getu stjórnvalda til að móta stefnu og fylgja henni eftir og að forgangsraða innan kerfisins í þágu almannahagsmuna. Þá hefur reynst erfitt að taka skrefið til baka þegar í ljós hefur komið að einkarekstur er ekki sú töfralausn sem vonir stóðu til.
Reykjanesbæ, 8. september 2016