Ávarp forsætisráðherra á 46. þingi BSRB

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar þing BSRB

 

Ágætu þingfulltrúar.

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér í dag á BSRB þingi sem er haldið með óvenjulegu sniði að þessu sinni líkt og svo mörg mannamót undanfarin misseri. Vinnumarkaðsmál og samskipti aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda settu ríkan svip á síðasta kjörtímabil og skiluðu sér í umbótum og framförum á mörgum sviðum svo sem í atvinnuleysistryggingum, bættri launatölfræði, stofnun Kjaratölfræðinefndar, réttlátara skattkerfi, betra fæðingarorlofi og auknum stuðning við félagslegt húsnæði og fyrstu kaupendur svo eitthvað sé nefnt.

Ötul barátta forystu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar skilaði sér í tilraunaverkefni í samvinnu við ríkið sem síðan leiddi til í umfangsmestu breytingum á vinnutímaákvæðum kjarasamninga sem gerðar hafa verið í áratugi. Þetta er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að bæta lífsgæði og gera launafólki betur kleift að samræma vinnu og einkalíf. Þá eru ekki síður mikilvægar þær umbætur sem gerðar voru á vinnutíma vaktavinnufólks sem stuðlað að betri heilsu, öryggi og velferð starfsfólks og þeirra sem þurfa á þjónustu þeirra að halda.

Aðkoma launafólks að endurbættu þjóðhagsráði þar sem saman koma fulltrúar ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka og heildarsamtaka á vinnumarkaði var afar þar þýðingamikil. Fyrir tilstilli samtaka launafólks var markmið ráðsins endurskoðaða og því nú ætlað styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af bæði efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Þó aðilar á þessum vettvangi séu langt frá því að vera alltaf samstíga um markmið og leiðir þá er ég sannfærð um að þetta samtal sé mikilvægt og skili okkur á endanum meiri skilningi og betri niðurstöðu fyrir samfélagið í heild.

Eitt af þeim málum sem þjóðhagsráði er ætlað að fjalla um eru áhrif loftslagsmála á efnahag, afkomu og vinnumarkað. Undir forystu BSRB lögðu samtök launafólks hér á landi í samstarfi við norræn systursamtök sín fram þýðingarmikla skýrslu síðastliðið vor um áhrif loftslagsbreytinga á hagkerfi og vinnumarkaða með áherslu á mikilvægi réttlátra umskipta í þeim umfangsmiklu breytingum sem samfélög okkar standa frammi fyrir.

Fyrir liggur að nauðsynlegar aðgerðir og aðlögun vegna loftslagsbreytinga hafa í för með sér grundvallar breytingar á framleiðslu-, neyslu- og samgönguháttum sem breyta munu atvinnuháttum og geta haft víðtækar efnahagslegar- og félagslegar afleiðingar. Þetta kallar á nýja nálgun og ný viðfangsefni m.a. í samtali aðila vinnumarkaðarins. Þar trúi ég því að sú ríka hefð sem við höfum fyrir samtali og samráði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins mun gagnast okkur vel til að tryggja að umskiptin í átt að kolefnishlutleysi verði árangursrík og réttlát. Því hef ég gert að tillögu minni að þjóðhagsráð taki málefnið til sérstakrar skoðunar og umfjöllunar á vettvangi sínum.

Kæru gestir

Áskoranir heimsfaraldurs hafa dregið fram með óhyggjandi hætti mikilvægi sterkra félagslegar innviða og traustrar almannaþjónustu. Mikilvægi hefðbundinna kvennastarfa í heilbrigðis- og menntakerfinu og þeirra ólaunuðu starfa sem fram fara á heimilum ætti að hafa orðið orðið öllum ljóst og hefur sett umræðuna um það hvernig við metum ólík störf og framlag þeirra til samfélagsins í nýtt samhengi.

Í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB vorið 2020 skipaði ég starfshóps með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um endurmat á störfum kvenna sem falið var að leggja fram tillögur að aðgerðum til að leiðrétta vanmat á hefðbundnum kvennastörfum.

Þó að þróunin sé í rétta átt og hægt og rólega skili markvissar aðgerðir til að draga úr launamun kynjanna árangri átta flestir sig á því að kynbundinn launamunur snýst ekki eingöngu um að karlar og konur fái ekki sömu laun fyrir sömu laun heldur að við virðumst meta verðmæti starfa með töluvert mismunandi hætti eftir því hvort konur eru þar í meirihluta eða karlar. Starfshópurinn um endurmat á störfum kvenna hefur nú lokið störfum og til að fylgja eftir tillögum hans hef ég nú skipað aðgerðahóp um launajafnrétti með aðkomu aðila vinnumarkaðarins. Ég vænti mikils starfi hans á komandi mánuðum, því þó jafnlaunamál séu auðvitað fyrst og fremst brýnt mannréttindamál sem snýst um jafnrétti á öllum sviðum og fjárhagslegt sjálfstæði sem lykillinn að frelsi kvenna og grundvallar atriði í baráttunni gegn kynbundu ofbeldi, eru þau ekki síður mikilvægt efnahagslegt og félagslegt framfaramál sem eykur verðmætasköpun, velferð, velgengni og hamingju í samfélaginu.

Ágætu þingfulltrúar.

Ég vil að lokum þakka forystu BSRB fyrir gott samtal og samstarf í því mikla verkefni að bæta lífskjör og velferð launafólks og efla almannaþjónustu til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Og óska ykkur velfarnaðar í þingstöfunum hér í dag og baráttunni framundan.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?