Opnunarávarp formanns BSRB á 46. þingi bandalagsins

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

 

Kæru félagar.

Verið velkomin á 46. þing BSRB.

Yfirskrift þingsins að þessu sinni er „Þjóðin kýs almannaþjónustu“. Þessi yfirskrift endurspeglar áherslur bandalagsins á þeim erfiðu tímum sem íslenskt samfélag, og heimsbyggðin öll, hefur staðið frammi fyrir í heimsfaraldrinum sem við höfum glímt við síðustu misseri.

Nú þegar við virðumst loksins farin að sjá fyrir endann á faraldrinum þurfum við að horfa til framtíðar. Við höfum einstakt tækifæri til að móta það samfélag sem við viljum búa í eftir kófið og við eigum að grípa það tækifæri. Við vitum ekki enn hvaða ríkisstjórn mun taka við eftir kosningarnar en sjáum öll að það eru stór verkefni sem bíða.

Eitt af því sem BSRB hefur lagt þunga áherslu á undanfarið er staða þeirra stóru hópa opinberra starfsmanna sem hafa verið í framlínunni í heimsfaraldrinum. Í rúmlega eitt og hálft ár hefur álagið á þennan hóp verið gríðarlegt. Ekki bara í vinnunni heldur líka í einkalífinu þar sem margir hafa lokað sig af til að draga sem mest úr líkum á smiti.

Hér erum við að tala um starfsfólk sem starfar í nánum persónulegum samskiptum við fólk á spítölum; hjá heilsugæslunni, við sjúkraflutninga og í velferðarþjónustu við aldraða, fatlaða og sjúka. Við erum líka að tala um starfsfólk almannavarna, lögregluna og fleiri ómissandi hópa. Við getum ekki ætlast til þess að þau standi vaktina endalaust án þess að fá eitthvað á móti. Framlínufólkið á skilið miklu meira en þakklætið eitt og sér og við köllum eftir því að það fái álagsgreiðslur í samræmi við það sem þau hafa lagt á sig til að koma samfélaginu okkar út úr þessum heimsfaraldri.

Við þurfum líka að huga að heilsu starfsfólks almannaþjónustunnar, sér í lagi þeirra sem hafa hlaupið sífellt hraðar síðustu mánuði og ár. Við vorum ekki enn búin að jafna okkur eftir harkalegan niðurskurð í kjölfar bankahrunsins 2008 þegar faraldurinn skall á. Nú verðum við að staldra við og hugsa um starfsfólkið, til dæmis með því að skima fyrir kulnun og sjúklegri streitu og bregðast við þegar hættumerki koma í ljós. Það er svo miklu betra og ódýrara en að gera ekki neitt og standa svo allt í einu frammi fyrir því að starfsfólkið hverfur frá störfum í stórum stíl af því það getur einfaldlega ekki meir.

Við hjá BSRB höfum lagt mikla áherslu á að það sé ekki hægt að skilgreina stöðugleika í samfélaginu út frá efnahagslegum stærðum eingöngu. Það verður ekki síður að líta til þess að launafólk hafi félagslegt öryggi svo það geti til dæmis mætt afleiðingunum af slysum, veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Við megum heldur ekki gleyma þörfinni fyrir að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og bæta kjör öryrkja, sem eru til háborinnar skammar. Við megum með öðrum orðum ekki einblína eingöngu á efnahagslegan stöðugleika án þess að tryggja um leið félagslegan stöðugleika.

Heimsfaraldurinn hefur sýnt okkur hvers megnugt okkar góða velferðarkerfi er þegar á reynir. Við eigum að byggja upp þetta kerfi og styrkja það en það mun ekki gerast nema við veitum nægilegu fé í velferðarmálin. Við megum ekki hlusta á fagurgala þeirra sem lofa öllu fögru ef við bara leggjum niður opinbera þjónustu og komum verkefnunum í hendur einkaaðila. Það eru ekki hagsmunir almennings að fjárfestar geti grætt á því að þjónusta sjúka eða aldraða.

Um þetta og fleira verður eflaust tekist á um við myndun ríkisstjórnar. Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum sem opnað hefur fjölmiðla undanfarið og séð einhverjar af auglýsingunum frá BSRB að við erum með þær væntingar að hér verði mynduð ríkisstjórn sem leggur áherslu á að byggja upp almannaþjónustuna. Hún hefur um langt árabil sætt niðurskurði, í mörgum tilvikum frá því löngu fyrir bankahrunið. Þær viðbætur sem komið hafa inn eru ekki fullnægjandi til að almannaþjónustan virki sem skildi. Ný ríkisstjórn verður að bregðast við þessari alvarlegu stöðu.

Reynslan eftir hrunið 2008 sýndi okkur að það voru alvarleg mistök að skera harkalega niður. Um það eru allar alþjóðastofnanir sem við eigum aðild að sammála enda dró sá niðurskurður úr getunni til að skapa verðmæti. Við höfum sem betur fer ekki farið sömu leið í kreppunni sem heimsfaraldurinn gat af sér. Það er mín von að sú ríkisstjórn sem mynduð verður nú eftir kosningarnar átti sig á þessum veruleika og fari ekki í niðurskurð á almannaþjónustunni heldur styrki hana enn frekar.

Almannaþjónustan er grunnurinn sem allt okkar samfélag byggir á. Talsmenn einkaframtaksins virðast stundum halda að hún sé nokkurskonar dragbítur á samfélaginu. Raunin er sú að án öflugrar almannaþjónustu, þar með talið frábæru heilbrigðiskerfi, gæti samfélagið ekki virkað enda byggir hún undir alla verðmætasköpun og nýsköpun í landinu. Í stað þess að fjársvelta almannaþjónustuna og skera niður þurfum við að einblína á að skapa tækifæri og þekkingu sem nýtist vinnumarkaðinum í heild sinni til að skapa verðmæt störf. Það er í raun óskiljanlegt að atvinnurekendur kalli ekki eftir því að almannaþjónustan verði sem öflugust.

Jafnrétti á vinnumarkaði er eitt af stóru baráttumálum BSRB. Það kemur eflaust lítið á óvart enda um tveir þriðju hlutar félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins konur. Konur sem fá að meðaltali umtalsvert lægri laun en karlar. Í gegnum tíðina hefur gengið erfiðlega að útrýma kynbundnum launamun.

Ein af stærstu ástæðunum fyrir kynbundnum launamuni er hversu kynskiptur vinnumarkaðurinn er þegar litið er til atvinnugreina. Opinberar tölur sýna að við sem samfélag höfum lengi vanmetið störf sem aðallega er sinnt af konum og greitt kvennastéttum lægri laun en karlastéttum. Þetta á til dæmis við um umönnunarstörfin sem konur sinntu áður launalaust inni á heimilunum en sinna nú í láglaunastörfum á vinnumarkaði. Vanmat á störfum kvennastétta byggir ekki á ásetningi um að mismuna heldur er það til komið vegna sögulegra, menningarlegra og kerfisbundinna þátta. En hvernig sem ójafnréttið er til komið er ljóst að við verðum að breyta kerfinu.

Stjórnvöld lýstu því yfir í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB í mars 2020 að stofnaður yrði starfshópur um endurmat á störfum kvenna. Hópurinn skilaði nýlega tillögum sínum sem varða getað leiðina að því að leiðrétta kjör kvennastétta. Við getum ekki beðið þolinmóð eftir því að breytingarnar gerist af sjálfu sér. Við verðum að grípa til aðgerða til að knýja þær fram. Næsta skrefið á þeirri leið er að fara að tillögum starfshópsins og þróa samningaleið um jafnlaunakröfur, koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa og stuðla að frekari þekkingaruppbyggingu og vitundarvakningu.

Loftslagsmálin eru brýnasta viðfangsefni samtímans og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin fyrir hönd launafólks í landinu sé þátttakandi í þeirri vinnu sem framundan er. Þar leggjum við höfuðáherslu á réttlát umskipti. Í því felst að sköpuð verði góð og græn störf sem veita vinnumarkaðstengd réttindi.

Ekki er síður mikilvægt að kostnaðurinn og ávinningurinn af þeim breytingum sem óhjákvæmilegar eru deilist með sanngjörnum hætti. Í dag er staðan sú að þeir efnameiri fá skattaívilnanir vegna orkuskipta í samgöngum á meðan bættar almenningssamgöngur eru á 15 ára áætlun. Þetta er dæmi um forgangsröðun sem við teljum alls ekki í anda réttlátra umskipta.

Það er augljóst að það verður engin sátt um aðgerðir í loftslagsmálum án aðkomu samtaka launafólks og við hjá BSRB erum tilbúin til að leggja okkar af mörkum í þessari vinnu.

Á þessu 46. þingi BSRB er einnig viðeigandi að fagna þeim sigrum sem við höfum náð. Í síðustu kjarasamningum náðum við langþráðum áfanga þegar við sömdum um styttingu vinnuvikunnar. Vinnuvikan hjá dagvinnufólki var stytt um allt að fjórar klukkustundir á meðan vinnuvika vaktavinnufólks styttist um að lágmarki fjórar stundir og allt að átta fyrir þau sem ganga þyngstu vaktirnar.

Það var alltaf ljóst að einhverjir erfiðleikar myndu koma upp þegar svo umfangsmiklar breytingar eru gerðar á vinnutíma svo fjölbreyttra starfsstétta. Það er því enn verk að vinna við að tryggja að markmið vinnutímastyttingarinnar náist fyrir alla hópa sem sömdu um styttinguna.

46. þing BSRB fer fram með öðrum hætti en áður vegna heimsfaraldursins. Í dag munum við klára mikilvæg verkefni á borð við lagabreytingar og kosningu í embætti, en málefnastarfinu sem er svo mikilvægt veganesti inn í alla okkar starfsemi verður frestað þar til öruggt er að koma saman. Það er ábyrgðarhlutur að stefna saman þingfulltrúum sem eiga það sammerkt að starfa innan almannaþjónustunnar um allt land á þessum viðsjárverðu tímum og því eðlilegt að hinkra með málefnastarf þar til betur stendur á í samfélaginu.

Það er ljóst að nokkur endurnýjun verður í stjórn bandalagsins á þessu þingi enda mikið af okkar reyndasta fólki að stíga til hliðar. Þó það sé alltaf eftirsjá í öflugu fólki er það líka tilhlökkunarefni að fá ný og fersk sjónarmið inn í starfið.

Ég tók við sem formaður á 45. þingi BSRB í október 2018 og hef lýst því yfir að ég gefi kost á mér til endurkjörs hér á 46. þingi bandalagsins. Síðustu þrjú ár hafa verið gríðarlega viðburðarík og þó ég sjái ekki framtíðina fyrir gef ég mér að það verði meira en nóg af verkefnum á næstu þremur árum líka. Ég hef raunar þegar minnst á þónokkur af þeim verkefnum; til dæmis afleiðingar heimsfaraldursins, baráttuna fyrir öflugri almannaþjónustu, kjör kvennastétta, loftslagsmálin og fleira. Og þó okkur finnist að kjarasamningslotunni sé nýlokið þurfum við að byrja að undirbúa okkur fyrir komandi kjarasamningsviðræður. Það verður eitt af verkefnum nýrrar stjórnar að finna bestu leiðirnar til að styðja við aðildarfélögin í þeirri vinnu.

Það eru næg verkefni framundan og ég vonast til þess að þið veitið mér áframhaldandi umboð til að leiða baráttuna.

Að því sögðu er okkur ekkert að vanbúnaði að hefjast handa.

Kæru félagar.

Ég segi 46. þing BSRB sett.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?