Umsögn BSRB um drög að frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010 (Carlsbergs-ákvæðið), mál nr. 202/2022 í Samráðsgátt

Frumvarpið felur í sér að við gerð deiliskipulags fái sveitarfélög heimild til að gera kröfu um að allt að 25 prósent nýrra íbúða byggingarmagns verði fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir og aðrar íbúðir sem njóta stuðnings ríkis og/eða sveitarfélaga. BSRB styður frumvarpið heils hugar og hvetur til þess að innviðaráðherra leggi málið fyrir Alþingi eins fljótt og auðið er. Það samræmist tillögum tveggja húsnæðishópa, 2019 og 2022, sem BSRB átti aðild að. Starfhóparnir voru báðir skipaðir til að liðka fyrir kjarasamningsviðræðum.

Ein af megintillögum síðar starfshópsins[1] fjallaði um að gerður yrði rammasamningur ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. sveitarfélaga „um byggingu 4.000 íbúða árlega á næstu fimm árum og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir til að mæta áætlaðri þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Þegar tillögurnar voru birtar þann 19. maí 2022 gaf ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu, m.a. um aukna uppbyggingu íbúða. Þar segir orðrétt: „Ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú þegar hefja viðræður um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir. Horft verður sérstaklega til þeirra markmiða sem sett eru fram í tillögum starfshópsins, m.a. um að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða og hagkvæmt húsnæði sé sem næst 30% með sérstakri áherslu á almenna íbúðakerfið“[2]. Í þessu sambandi hafa heildarsamtök launafólks lagt ríka áherslu á fjöglun almennra íbúða um 1.000 á ári næstu fimm árin.

Rammasamkomulag til tíu ára var undirritað þann 12. júlí 2022 í samræmi við ofangreinda tillögu. Því er mikilvægt að sveitarfélög fái stuðning af skipulagslögum til að auðvelda vinnu í samræmi við rammasamkomulagið og tillögur starfhópsins.

Flestir kjarasamningar á almenna markaðnum eru nú lausir og flestir kjarasamningar á opinbera markaðnum munu losna í lok mars 2023. Samtök launafólks hafa lagt mikla áherlsu á húsnæðismál í aðdraganda kjarasamninga. Mikilvægt er að auka framboð af húsnæði á viðráðanlegu verði og tryggja húsnæðisöryggi, m.a. með auknum beinum húsnæðisstuðingi við heimili á leigumarkaði og í eigin húsnæði. Nái þetta frumvarp fram að ganga er það eitt af mörgum skrefum sem taka þarf til að að auka húsnæðisöryggi launafólks á Íslandi.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

[1] https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/IRN/Frettatengd-skjol/Starfsh%c3%b3pur%20um%20umb%c3%a6tur%20%c3%a1%20h%c3%basn%c3%a6%c3%b0ismarka%c3%b0i%20-%20sk%c3%bdrsla%20-%20lokaeintak.pdf

[2] https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/05/19/Adgerdir-kynntar-um-meira-oryggi-og-aukid-frambod-a-husnaedismarkadi/

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?