Umsögn BSRB um drög að reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar

Umsögn BSRB um drög að reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar

Reykjavík, 20. desember 2017

 

Með tölvupósti dags. 15. desember s.l. fékk BSRB til umsagnar reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar. Bandalagið gerir ekki efnislegar athugasemdir við drögin en leggur til að komið verði á starfshópi sem hefur það hlutverk að jafna tækifæri og möguleika eldra fólks til þátttöku á vinnumarkaði.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl., þskj. 1624 – 857. mál á 145. löggjafarþingi sem varðaði m.a. breyttan lífeyristökualdur og drög þessi að reglugerð byggir öðrum þræði á, segir að efni frumvarpsins sé í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku. Þá segir að markmiðið með frumvarpinu sé ekki síður að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna hækkaðs hlutfalls eldri borgara af mannfjölda og lengingar meðalævinnar. Því sé lagt til að aukinn verði sveigjanleiki við starfslok og upphaf lífeyristöku og skapaður hvati fyrir aldraða til áframhaldandi atvinnuþátttöku eftir vilja og getu hvers og eins auk þess að lífeyristökualdur verður hækkaður í skrefum um þrjú ár yfir 24 ára tímabil.

BSRB tók þátt í samstarfi um tillögur til breytinga á almannatryggingarlögum og gerir því ekki efnislegar athugasemdir við efni þeirrar reglugerðar sem nú er til umsagnar. Í ljósi hins vegar þessa markmiðs laganna sem reglugerðin á sér stoð í, að hvetja eigi til aukinnar atvinnuþátttöku aldraðra er rétt að vekja athygli á að fjölmargar vísbendingar eru um að vinnustaðamenning og samfélagsleg viðhorf í garð atvinnuþátttöku eldra fólks séu almennt ekki í takt við umrætt markmið. Bandalagið telur samkvæmt þessu nauðsynlegt að samhliða því að innleiddar séu reglur um breytingu á lífeyristökualdri sé einnig unnið að viðhorfsbreytingu í samfélaginu og á vinnumarkaði.

BSRB hefur ítrekað bent á að Ísland er meðal örfárra þróaðra landa sem ekki hefur sett sér almenna löggjöf sem kveður á um bann við mismunun á grundvelli aldurs. Eftir því sem næst verður komist er nánast engin þekking fyrir hendi hérlendis um t.d. birtingarmyndir mismununar og við hvaða tiltekna aldursbil hún hefst. Hvað þetta varðar má benda á bandaríska löggjöf sem tryggir starfsmönnum sem eru 40 ára og eldri sérstaka ráðningarvernd, þ.e. atvinnurekendum eru settar þrengri skorður til uppsagna einstaklinga sem hafa náð þeim aldri. Ástæðan fyrir þeirri löggjöf er byggt á stöðu þekkingar um að við þetta aldursbil byrji að gæta að mismunun á grundvelli aldurs. Þá eru nokkur dæmi eru um íslenska vinnustaði sem hafa sett sér reglur um að starfslok starfsmanna skuli vera við 67 ára aldur. Hámarksaldur ríkisstarfsmanna er 70 ára samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en fjölmörg dæmi eru um einstaklinga sem halda áfram störfum eftir þann aldur hjá ríkinu en eru þá ráðnir í tímavinnu og njóta þar af leiðandi ekki sömu réttinda, t.d. veikindaréttar og þeir sem eru ráðnir ótímabundið eða tímabundið. Þetta eru eingöngu örfá dæmi um þær hindranir sem uppræta þarf áður til að tryggð sé raunveruleg hvatning til atvinnuþátttöku eldra fólks á vinnumarkaði.

Samkvæmt framansögðu leggur því bandalagið til að Velferðarráðuneytið komi á fót starfshópi hagsmunaaðila sem hefur það hlutverk að láta framkvæma rannsóknir um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði og í kjölfarið leggja til viðeigandi lagabreytingar til að gera eldra fólki kleift að vera á vinnumarkaði, hvort heldur sem er með auknum sveigjanleika eða svo tryggt sé jafnt aðgengi og jafnir möguleikar þeirra til þátttöku á vinnumarkaði á við aðra og að eldra fólk njóti sömu réttinda og aðrir á vinnustaðnum.


Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?