Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga 2023

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga 2023, 1. mál.

10. október 2022

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023 og þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita álit sitt á því.

Ríkisstjórnin er nú að leggja fram sín önnur fjárlög á þessu kjörtímabili. Skammur tími var til undirbúnings síðustu fjárlaga þar sem kosið var að hausti og því mætti vænta þess að þau fjárlög sem hér er fjallað um endurspegli betur stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í stjórnarsáttmála. Svo virðist sem skortur sé á efndum auk þess sem áþreifanleg vöntun er á að sýn til skemmri tíma sé tengd við langtímahorfur og að helstu samfélagslegu áskoranir okkar, líkt og loftlagsbreytingar og öldrunar þjóðarinnar, séu ávarpaðar heildstætt. Þá er ekki nóg að vísa til þess að stöðugleiki í ríkisfjármálum sé forsenda þess að hægt sé að takast á við þessi verkefni af festu og erfitt sé að hefjast handa við lausn þeirra fyrr en því hvikula markmiði er náð. Það mun reynast skammgóður vermir og flytja ábyrgðina á úrlausnum og alvarlegum afleiðingum úrræðaleysis yfir á komandi kynslóðir.

Frumvarpið lýsir hagkerfi þar sem einkaneysla hefur aldrei verið sterkari og kaupmáttaraukning verið mikil. Í þeirri lýsingu virðist hafa gleymst að tiltaka þau rúmlega 38 þúsund heimili sem áttu erfitt með að ná endum saman árið 2021. Í þessum hópi eru m.a. 52 prósent einstæðra foreldra á Íslandi. Leiða má líkum að því að þessi hópur hafi stækkað enda hefur kaupmáttur rýrnað um rúmlega fjögur prósent það sem af er þessu ári vegna hækkandi verðbólgu að ónefndum áhrifum vaxtahækkana Seðlabankans. Þá lýsir frumvarpið því einnig hvernig ráðstöfunartekjur láglaunafólks hafa aukist meira en hálaunafólks en ekki er minnst á þær tekjur sem hálaunafólk fær af fjármagni og greiðir hlutfallslega lægri skatta af. Í frumvarpinu er einungis hálf sagan sögð en BSRB vill með þessari umsögn leitast við að veita fyllri mynd af stöðunni og koma með tillögur að úrbótum til að stuðla að velsæld og jöfnuði.

Skýr skilaboð til launafólks

Myndin lýsir þróun kaupmáttar á yfirstandandi kjarasamningstímabili. Samkvæmt Hagstofu Íslands hefur kaupmáttur aukist um 6,5 prósent frá mars 2019 til júlí 2022. Vegna skarpt hækkandi verðbólgu hefur kaupmáttur rýrnað um rúm 4 prósent það sem af er þessu ári en verðbólga mældist nú í september 9,3 prósent á ársgrundvelli. Það sér því ekki fyrir endann á kaupmáttarrýrnun launafólks. Þá felur tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins í sér almennar aðgerðir sem leggjast á allt launafólk og hefur því mest áhrif á þá sem lægst hafa launin. Áætlað er að boðaðar hækkanir ríkisstjórnarinnar á opinberum gjöldum verði til þess að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 prósent sem mun að óbreyttu rýra kaupmátt enn frekar og þá eru horfur á neikvæðri þróun kaupmáttar út samningstímabilið. Við þetta bætast aðhaldsaðgerðir fjárlagafrumvarpsins á útgjaldahlið.

Ríkisstjórnin sendir launafólki skýr skilaboð með fjárlagafrumvarpinu um að kjarabætur verði eingöngu sóttar við kjarasamningsborðið. BSRB telur mun skynsamlegra fyrir almannaheill og efnahagsstjórn landsins að ríkissjóður leggi sitt af mörkum til að styðja betur við fólk í lægri tekjuhópunum og þá sem eru með þunga framfærslubyrði ásamt því að styrkja almannaþjónustu og auka þar með velsæld og bæta kjör og starfsumhverfi þeirra sem veita þjónustuna.

Áframhaldandi kerfislægur halli og eignasala skammgóður vermir

Frumvarpið gerir ráð fyrir heldur lakari frumjöfnuði og verri vaxtajöfnuði en núgildandi fjármálaáætlun. Þar raungerist enn og aftur sá kerfislægi halli sem BSRB hefur bent á árum saman og stafar af ófjármögnuðum skattalækkunum ríkisstjórnarinnar. BSRB styður að dregið verði úr hallarekstri en mótmælir þeirri aðferðafræði að það sé gert með niðurskurði á gjaldahlið frumvarpsins í stað styrkingar á tekjuhlið.

Skuldahlutfall ríkissjóðs er áætlað 33 prósent af VLF í lok árs 2023 en var á síðari hluta árs 2020 áætlað 50 prósent af VLF. Skýrist bætt áætluð skuldastaða af því að hagkerfið hefur tekið fyrr við sér en gert var ráð fyrir. Þrátt fyrir það boðar ríkisstjórnin frekari bankasölu í frumvarpinu og telur þörf á aðhaldi og stöðvun útgjaldaaukningar á komandi árum með tilheyrandi afleiðingum fyrir velferðarkerfið. BSRB hafnar þessari stefnu alfarið. Mun mikilvægara er að byggja upp félagslega innviði sem hafa ekki verið fullfjármagnaðir á síðustu árum og verulega hefur reynt á í heimfaraldrinum. Nú er tíminn til að efla og fjölga tekjustofnum ríkisins, styrkja almannaþjónustuna og leiðrétta tilfærslukerfin. Það ýtir undir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma. En ríkisstjórninni hugnast ekki sú leið heldur einblínir á sölu ríkiseigna og lækkun útgjalda.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs lækki lítillega á milli ára sem hlutfall af landsframleiðslu. Sú þróun er þó háð því að sala á eignahlut ríkisins í Íslandsbanka gangi eftir. BSRB gerir alvarlegar athugasemdir við að lögð sé til einskiptis tekjuöflun til þess að laga núverandi skuldastöðu. Líkt og fram kemur í frumvarpinu hefur afkoma ríkissjóðs verið að styrkjast og tekjur aukist hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir og eru heildartekjur ársins 2022 áætlaðar 79 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs vegna kröftugs hagvaxtar. Arðgreiðslur ríkisins frá Íslandsbanka hafa numið að meðaltali um 11 ma.kr. árlega frá árinu 2016. Breytileiki getur verið í arðgreiðslum á milli ára en þær hafa þegar lækkað vegna þeirra hluta sem seldir hafa verið. Árlegar tekjur ríkissjóðs af arði hverfa varanlega við sölu á bankanum. Þá virðast stjórnvöld ekki fær um að selja hlutinn svo að samfélagsleg sátt náist um. Ekki er langt um liðið frá falli íslensku bankanna og því mikilvægt að sátt sé um hvernig farið er með sölu og eignarhald þeirra. Ógagnsæi í vali á fjárfestum við sölu bankans samfara lágu söluverði hefur leitt til hagnaðar einstakra fjársterkra aðila sem eykur enn á ójöfnuð og auðssöfnun þeirra ríkustu í samfélaginu. Þá hefur menningar- og viðskiptaráðherra skipað starfshóp til að greina gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna. Eðlilegt er að bíða niðurstöðu slíkrar könnunar og að ríkið beiti sér í kjölfarið með virkum hætti sem eigandi til þess að skapa eðlilegt umhverfi innlendrar bankastarfsemi hvað vaxtamun og þjónustutekjur varðar, með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Takmarkaðar, almennar og verðbólguhvetjandi breytingar á tekjuhlið

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á tekjuhlið frumvarpsins eru takmarkaðar, almennar og verðbólguhvetjandi. Í stað þess að stuðla að því að skattkerfið standi undir samneyslu og gegni tekjujöfnunarhlutverki, líkt og segir orðrétt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, fer ríkisstjórnin þá leið að leggja jafnar byrðar á alla landsmenn, sem mun óhjákvæmilega leggjast hlutfallslega þyngst á þau sem lægstar hafa tekjurnar og þyngstu framfærslubyrðina.

Gert er ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hækki tekjur ríkissjóðs um allt að 10,5 ma.kr. árlega. Flestar breytingarnar eru almenns eðlis og leggjast á alla skattgreiðendur óháð tekju- og eignastöðu þeirra. Í frumvarpinu segir að bein áhrif þeirra skattabreytinga sem lagðar eru til geti leitt til þess að vísitala neysluverðs hækki um allt að 0,4 prósent en að þær hamli gegn þenslu í hagkerfinu og dragi úr þörf fyrir hækkun stýrivaxta. Þessi áætluðu áhrif á verð- og efnahagslegan stöðugleika vegi þyngra en verðlagshækkanir. BSRB á erfitt að sjá hvernig þessar fullyrðingar fá staðist. Að takmarkaðar og almennar hækkanir sem leiða til aukinnar verðbólgu hafi á sama tíma þau áhrif að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Það er ekki neysluhegðun tekjulægri hópa sem hefur sérstök áhrif á verðbólguna heldur tekjuhærri hópanna. Almennar hækkanir gjalda eru því ekki rétta tækið til að draga úr neyslu þeirra sem mest hafa handa á milli. Nær væri að ríkisstjórnin bætti stöðu ríkisfjármála með tekjuöflun hjá þeim aðilum sem sannarlega hafa svigrúm til þess að greiða hærri skatta og tryggi með þeim hætti jöfnum höndum sjálfbærni í rekstri ríkissjóðs og viðnám við verðbólguþrýstingi.

Erfitt er að sjá á afkomutölum fyrirtækja, fjárfestingum, arðgreiðslum, endurkaupum á hlutabréfum, auknum tekjum af fjármagnstekjuskatti og launaþróun hjá efstu lögum samfélagsins að skóinn kreppi þar og ekki sé svigrúm til styrkingar almannaþjónustu og aukinnar jöfnunar í gegnum tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Það vekur því furðu að ríkisstjórnin kjósi að nýta ekki tekjuhlið fjárlaga til þess að lækka skuldir, ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, styrkja grunnþjónustu og bæta stöðu þeirra hópa sem eiga erfitt með að ná endum saman. Mætti í þessu samhengi til dæmis nefna hátekjuskatt, eignaskatta, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings af tekjum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Umfangsmestu breytingarnar á tekjuhlið frumvarpsins varða breytingar á gjöldum fyrir vistvænar bifreiðar. Um er að ræða undantekningar sem nýtast helst þeim einstaklingum sem hæstar hafa tekjurnar. Ekki er gerð athugasemd við tekjuöflunina sem slíka en BSRB veltir því hins vegar upp í ljósi þess sem fram kemur í stjórnarsáttmála að áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið að þetta sé helsta áhersla ríkisstjórnarinnar í aukinni tekjuöflun. Ríkisstjórnin þarf skv. frumvarpinu einnig að veita 800 m.kr. í að kaupa losunarheimildir því stjórnvöldum hefur ekki tekist að standa við loftslagsmarkmið samkvæmt Kýóto samningnum sem fullgildur var hérlendis fyrir 20 árum. Er það einnig stærsta einstaka aðgerðin á gjaldahlið sem snýr að loftlagsmálum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lagt upp með að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtöku gistináttagjalds og að gjaldtaka í ferðaþjónustu verði tekin til skoðunar og horft til þess að breikka skattstofninn. Ekkert er fjallað um þá skoðun í frumvarpinu. Í ljósi þröngrar stöðu margra sveitarfélaga telur BSRB að þessi skoðun þoli ekki bið.

Þá má geta þess sérstaklega að mikil óvissa er í tekjuáætluninni vegna margþættrar óvissu í efnahagsmálum vegna efnahagsþróunar í helstu viðskiptalöndum okkar. Mikilvægt er að ríkisstjórnin myndi sér skoðun og upplýsi með hvaða hætti verði brugðist við frávikum frá áætluninni. Til að mynda hver áherslan verður hvað varðar umframtekjur reynist hagvöxtur áfram meiri en spár gera ráð fyrir eða hvernig brugðist verður við tekjufalli. Er það mikilvægt hvað varðar fyrirsjáanleika og til að fyrirbyggja handahófskenndar ákvarðanir.

Ríkisstjórnin boðar niðurskurð næstu árin - minni útgjöld, minni sveigjanleiki og engar skýringar

Útgjaldakafli frumvarpsins endurómar áherslu á niðurskurð. Þar segir að í þeim tilgangi að stöðva skuldasöfnun og bæta stöðu ríkissjóðs sé lögð áhersla á að ekki verði efnt til nýrra eða aukinna útgjalda á næsta ári umfram það sem óhjákvæmilegt er. Matsaðferð óhjákvæmileika er undanskilin umfjöllun. Þetta telur ríkisstjórnin nauðsynlegt til þess að framfylgja fjármálastefnu sinni. Hér birtist því enn með skýrum hætti sú staðreynd að jafnvægi í ríkisfjármálum á að ná með skertri opinberri þjónustu en ekki aukinni tekjuöflun þar sem sannarlega er svigrúm til staðar.

Ekki er þó nóg með að boðaður sé niðurskurður á árinu 2023 heldur er tiltekið að þessi stefnumörkun feli til lengri tíma í sér áherslu á bætta nýtingu fjármuna og forgangsröðun verkefna innan núgildandi útgjaldaramma. Með öðrum orðum þarf að skerða lögbundna þjónustu á einum stað eigi að bæta hana á öðrum. Hér óskar BSRB eftir heildstæðri áætlun til næstu ára, með tímasetningum og fjárhæðum, sem tilgreina málefnasvið, málaflokka og verkefni sem verða tekin til skoðunar eða felld niður, hverju það á að skila og hvernig breytt nýting fjármuna mætir lögbundnum þjónustuþörfum og lýðfræðilegri þróun. Án slíkrar áætlunar verður stefnan handahófskennd og ræðst af sveiflum í hagkerfinu en ekki stefnumörkun.

Alvarlegir brestir í heilbrigðiskerfinu

Heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi undanfarin ár og erfitt er orðið að manna ýmsar fagstéttir innan kerfisins. Flótta gætir vegna gríðarlegs langvarandi álags og t.d. sýnir nýleg könnun að 70 prósent hjúkrunarfræðinga hafa íhugað af alvöru að hætta störfum á síðustu tveimur árum. Þetta bætist ofan á þann mönnunarvanda sem þegar er uppi í heilbrigðiskerfinu og hefur alvarleg áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnana. Álag og starfsaðstæður vega þar jafnvel þyngra en launaliðurinn. Bættar starfsaðstæður og bætt kjör heilbrigðisstarfsfólks verða að vera forgangsverkefni til að heilbrigðiskerfinu haldist á starfsfólki og geti tryggt viðunandi heilbrigisþjónustu. Til þess að viðhalda óbreyttu ástandi þarf því aukna fjármuni en til þess að styrkja heilbrigðiskerfið þarf enn frekari fjármuni. Þrátt fyrir þessa stöðu þá lækkar rekstrarframlag heilbrigðiskerfisins á hvern íbúa í frumvarpinu.

 

Ár

Rekstur heilbrigðismála á verðlagi hvers árs (m.kr.)*

Rekstur heilbrigðismála á verðlagi sept. 2022 (m.kr.)

Íbúafjöldi

Rekstur heilbrigðiskerfisins per íbúa (þ.kr.)

2021

301.426

341.571

371.580

919

2022

287.778

287.778

381.370

755

2023

300.929

286.872

385.868**

743

         

*Rekstrartölur: https://www.stjornarradid.is/fjarlog2023#greiningar

**Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, miðspá fyrir árið 2023

 

Hér er því hvorki um styrkingu né vernd heilbrigðiskerfisins að ræða heldur veikingu, þrátt fyrir áherslur í stjórnarsáttmála og heilbrigðisstefnu um annað. Þessi þróun lýsir skilningsleysi á stöðu og þörfum heilbrigðiskerfisins. Í forsendum gjaldahliðar frumvarpsins er tekið fram að sökum óvissu við gerð kjarasamninga verði ekki áætlaðar launabætur niður á stofnanir heldur þær færðar í almennan varasjóð, og því er ekki hægt að gera grein fyrir þeim í samanburðinum að ofan. Samningar flestra opinberra starfsmanna renna út í lok mars 2023. Sjaldnast hefur samningur tekið við af samningi. Það er því fyrirsjáanleg óvissa í rekstri heilbrigðiskerfisins á næsta ári þar sem stofnanir vita ekki úr hverju þær hafa að spila til launagreiðslna. Þessi ráðstöfun er síður en svo til þess fallin að auka fyrirsjáanleika við rekstur hvað þá að hægt sé að styrkja mönnun, en helsta markmið ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er einmitt efling mönnunar.

Ríkisstjórnin verður að skýra hvernig sú útgjaldastefna sem birtist í frumvarpinu á að koma til móts við þarfir fyrir lögbundna heilbrigðisþjónustu og hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná markmiðum sínum um eflingu mönnunar, heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi og ásættanlegan biðtíma. Samkvæmt Embætti landlækni voru í vor um 400 einstaklingar á biðlista eftir hjúkrunarrými, þúsundir á biðlista eftir aðgerðum og sumar heilsugæslustöðvar eru hættar að taka við tímabókunum til heimilislæknis sökum skorts á starfsfólki. Útgjaldaaukningu er einna helst að sjá í auknum útgjöldum til einkarekinnar sérfræðiþjónustu í stað þess að styrkja opinbera sérfræðiþjónustu.

BSRB vekur sérstaklega athygli á því að styrking opinberrar heilbrigðisþjónustu eykur jöfnuð og tryggir öryggi og heilsu íbúa landsins. Verði af boðuðum niðurskurði og aðhaldsaðgerðum mun það hafa alvarlegar afleiðingar til lengri tíma.

Húsnæðismál

Verkalýðshreyfingin hefur lagt ríka áherslu á húsnæðismál í aðdraganda kjarasamninga til að tryggja húsnæðisöryggi launafólks. Húsnæðishópur var því skipaður á vettvangi Þjóðhagsráðs í ársbyrjun 2022 sem skilaði tillögum í maí sl. Veigamesta tillagan er sú að ríki og sveitarfélög geri með sér húsnæðissáttmála um uppbyggingu 35.000 íbúða næstu 10 árin þar sem 30 prósent íbúða verði á viðráðanlegu verði, þ.e. með fjárstuðningi frá hinu opinbera, og 5 prósent verði félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaga.

Stjórnvöld gáfu út yfirlýsingu þegar tillögur starfshópsins voru kynntar þar sem lögð var sérstök áhersla á uppbyggingu íbúða með stuðningi stjórnvalda, endurbætur á húsnæðisstuðningi og réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda.

Almennar íbúðir

BSRB leggur ríka áherslu á hraða uppbyggingu almennra íbúða og umtalsverða fjölgun þeirra á næstu árum. Samkvæmt húsnæðissáttmálanum á að byggja 4.000 íbúðir árlega á næstu fimm árum og eiga um 1.200 þeirra að vera á viðráðanlegu verði. Mikilvægt er að af þeim íbúðum verði a.m.k. 1.000 innan almenna íbúðakerfisins. Almenna íbúðakerfið var sett á stofn árið 2016 í kjölfar kjarasamninganna árið 2015 til að auka framboð af leiguíbúðum fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Að jafnaði hefur markmiðið verið að úthluta stofnframlögum til 600 leiguíbúða innan kerfisins árlega en það markmið hefur ekki gengið eftir. Að meðaltali hafa verið veitt stofnframlög til 442 íbúða árlega frá árinu 2016 og á yfirstandandi ári til 328 íbúða. Af þeim tæplega 3.000 íbúðum sem hafa fengið stofnframlög eru aðeins um 40 prósent til félaga launafólks. Það þarf því að bæta verulega í til að tryggja húsnæðisöryggi launafólks.

Bjarg er almennt íbúðafélag í eigu ASÍ og BSRB og hefur uppbygging félagsins verið einstaklega farsæl. Félagið hefur afhent 670 íbúðir til leigutaka, er með um 240 íbúðir í hönnunar- eða byggingarferli og áform um 450 íbúðir eru í undirbúningi. Þrátt fyrir þessa öflugu uppbyggingu eru um 3.600 manns á biðlista eftir íbúð hjá félaginu í októberbyrjun 2022.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárveitingar til stofnframlaga lækki um 2 milljarða króna og fari úr 3,7 mö.kr. í 1,7 ma.kr. Ekki virðist gert ráð fyrir viðbótarframlögum til stofnaframlaga vegna húsnæðissáttmála ríkisins og sveitarfélaga. Í ljósi þeirrar áherslu sem verkalýðshreyfingin hefur lagt á húsnæðismál í aðdraganda kjarasamninga sætir það furðu að framlög til stofnframlega séu lækkuð. BSRB krefst þess að framlögin verði hækkuð miðað við yfirstandandi ár þannig að þau nái að fjármagna stofnframlög til 1.000 almennra íbúða árlega næstu fimm árin.

Húsnæðisstuðningur

Árið 2021 bjuggu um 27 prósent leigjenda við íþyngjandi húsnæðiskostnað og um 9 prósent eigenda. Húsnæðiskostnaður telst íþyngjandi þegar hann er umfram 40 prósent af ráðstöfunartekjum. Verkalýðshreyfingin hefur því lagt ríka áherslu á að húsnæðisstuðningskerfin, húsnæðisbætur til leigjenda og vaxtabætur til eigenda, verði efld.

Fjárheimildir húsnæðisbóta eiga að hækka um 1,5 ma.kr. frá núgildandi fjárlögum. Aukningin kemur til vegna hækkunar bótanna og frítekjumarka sl. sumar, en aðgerðin var ein af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna verðbólgu, og fjölgunar í hópi þeirra sem eiga rétt á húsnæðisbótum.

Nýtt kerfi húsnæðisbóta fyrir leigjendur tók gildi í janúar 2017. Bæturnar eru tekju- og eignatengdar og taka mið af fjölda í heimili. Hámarksbætur fyrir einstakling sem býr einn voru í upphafi 31.000 kr. á mánuði, hækkuðu í janúar 2018 í 32.460 kr. á mánuði en stóðu svo í stað þar til nú í sumar þegar þær hækkuðu í 35.706 kr. Á myndinni má sjá að leiguverð hefur hækkað um 35 prósent frá því nýtt húsnæðisbótakerfi tók gildi en húsnæðisbæturnar höfðu aðeins hækkað um 5 prósent þar til í júní 2022 en hafa nú hækkað um 15 prósent. Leiguverð hefur því hækkað langt umfram hækkun húsnæðisstuðnings á tímabilinu. Þá hefur leiguverð einnig hækkað umtalsvert umfram kaupmátt sem jókst um tæp 14 prósent á sama tímabili.

Í frumvarpinu kemur fram að starfshópur um húsnæðisstuðning sé að störfum og búist er við viðbótarfjármagni til málaflokksins við 2. umræðu frumvarpsins þar sem litið verði til tillagna hópsins. Eins og áður sagði greiðir rúmlega fjórðungar heimila á leigumarkaði meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Þróun fjárhæða húsnæðisbóta síðast liðin ár lýsir skammarlegu metnaðarleysi stjórnvalda í garð húsnæðisöryggis leigjenda. BSRB krefst þess að húsnæðisbætur verði hækkaðar þannig að húsnæðiskostnaður leigjenda fari ekki umfram 25 prósent af ráðstöfunartekjum.

Fjárframlög til vaxtabótakerfisins lækka ár frá ári og nú er gert ráð fyrir á þau verði aðeins um 2,2 ma. kr. árið 2023. Árið 2014 voru fjárheimildir til vaxtabóta 10,2 ma.kr. sem jafngildir tæplega 14 mö.kr. á verðlagi dagsins í dag. Vaxtabætur munu því rýrna að verðgildi um 12 ma. kr. á þessum 9 árum að óbreyttu. Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað gagnrýnt það að stjórnvöld hafi ákveðið að leggja vaxtabótakerfið nánast niður án samráðs við samtök launafólks.

Samkvæmt óformlegri könnun BSRB má ætla að um þriðjungur heimila sé með húsnæðislán á breytilegum óverðtryggðum vöxtum. Í mánaðaryfirliti ASÍ fyrir september er gefið dæmi af heimili sem keypti húsnæði vorið 2021 á 54 milljónir króna með 20 prósent eigin fé. Greiðslubyrði heimilisins vegna vaxtakostnaðar hafði á rúmu ári hækkað um rúmlega 100.000 kr. á mánuði vegna vaxtahækkana. Þó lítið sé um vanskil fasteignalána í dag má ljóst vera að mörg heimili þola ekki slíka hækkun á greiðslubyrði til langframa. BSRB krefst þess að vaxtabótakerfið verði endurreist og til þess að svo geti orðið þarf bæði að hækka hámarksfjárhæðir vaxtabóta og tekjuskerðingar- og eignamörk í kerfinu.

Réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda

Í yfirlýsingu stjórnvalda við gerð lífskjarasamninga vorið 2019 segir: „Ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.“ Þetta hefur ekki verið efnt og því var það ein af áherslum verkalýðshreyfingarinnar í starfshópi um húsnæðismál vorið 2022 að gerðar yrðu endurbætur á húsaleigulögum til að efla húsnæðisöryggi leigjenda. Tillagan er eftirfarandi:

Í þessu sambandi vill BSRB hvetja Alþingi til að kynna sér sértaklega leigubremsu að danskri fyrirmynd þar sem hækkanir á húsaleigu verða takmarkaðar við 4 prósent á ári næstu tvö árin.

Fjölgun almennra íbúða er gríðarlega mikilvæg til að tryggja húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjuhópum. Biðlistar eftir íbúðum hjá Bjargi lengjast með hverjum mánuðinum sem líður, aðflutningur fólks til landsins er í sögulegu hámarki, verðbólga hefur bein áhrif inn í leiguverð og húsnæðisstuðningskerfi stjórnvalda hafa verið vanfjármögnuð síðustu árin. Þær aðgerðir sem BSRB hefur tíundað hér að ofan eru gríðarlega mikilvægur liður í því að tryggja húsnæðisöryggi allra heimila og skapa sátt í aðdraganda kjarasamninga.

Barnabætur

BSRB hefur lengi kallað eftir stórefldu barnabótakerfi á Íslandi. Í rannsókn bandalagsins frá árinu 2019 kemur fram að íslenska barnabótakerfið gagnast fyrst og fremst allra tekjulægstu fjölskyldunum. Samanburður við Norðurlöndin sýnir að barnabætur styðja vel við fjölskyldur með meðaltekjur í öllum löndunum nema á Íslandi þar sem barnabætur eru hverfandi fyrir þennan hóp. Barnabætur á Norðurlöndunum eru ekki tekjutengdar nema í Danmörku en þar byrja bæturnar að skerðast við meðaltekjur. Hér á landi byrja bæturnar að skerðast hjá sambúðarfólki sem er með sameiginlegar mánaðartekjur umfram 760.000 kr. og hjá einstæðum foreldrum með 380.000 kr. Lágmarkslaun eru 368.000 kr. á mánuði og því skerðast barnabætur hjá meginþorra launafólks á íslenskum vinnumarkaði vegna tekna.

Árið 2021 átti fjórða hvert heimili á Íslandi erfitt með að ná endum saman eða rúm 38.000 heimili. Þar af voru tæplega 15.000 heimili með börn. Ef litið er eingöngu til einstæðra foreldra átti yfir helmingur heimila þeirra erfitt með að ná endum saman.

Í komandi kjarasamningum munu samtök launafólks horfa til samspils launa og annarra þátta. Í því sambandi eru ekki síst barnabætur mikilvægar. Kerfið í dag er ekki fullnægjandi og mikilvægt er að breyta barnabótakerfinu þannig að barnabætur byrji ekki að skerðast fyrr en meðaltekjum er náð.

Fæðingarorlof

BSRB hefur lengi lagt áherslu á að fæðingarorlof skerðist ekki hjá fólki sem er með laun sem nema lágmarkslaunum og leggur til að gerðar verði breytingar á fæðingarorlofskerfinu þannig að þau sem eru með allra lægstu launin haldi óskertum tekjum í fæðingarorlofi.

Ekki er gert ráð fyrir hækkun hámarksfjárhæða fæðingarorlofs í fjárlagafrumvarpinu. Í frumvarpinu er lögð til 2,6 ma.kr. viðbótarfjárheimildir vegna betri nýtingar fæðingarorlofsréttar, sérstaklega hjá feðrum. Það er mjög jákvæð þróun en markmið laganna um fæðingarorlof er einmitt að tryggja börnum samvistir við báða foreldra. Til þess að styðja við þessa þróun og viðhalda henni er mikilvægt að hækka hámarksfjárhæðar orlofsins. Tölfræði um töku fæðingarorlofs sýnir að ef þakið hækkar ekki í takt við launaþróun dregur úr fæðingarorlofstöku tekjuhærra foreldrisins. Í fæðingarorlofi eiga foreldrar rétt á 80 prósent af launum sínum, en þakið er 600.000 kr., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sú fjárhæð hefur verið óbreytt um árabil. BRSB hvetur til þess að þakið verði hækkað þannig að það miðist við að minnsta kosti 80 prósent af meðallaunum en þau voru 823.000 kr. á mánuði árið 2021 hjá fullvinnandi.

Almannatryggingar

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga bætur almannatrygginga að hækka um 6 prósent í ársbyrjun 2023. Bæturnar hækkuðu einnig um 3 prósent frá júní 2022 og var það liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna verðbólgu. Nýtt kerfi ellilífeyris tók gildi í janúar 2017. Örorkulífeyriskerfið bíður enn endurskoðunar og er það kerfi mun flóknara og skerðingarnar mjög miklar, sérstaklega í ákveðnum bótaflokkum. Ellilífeyrir og framfærsluviðmið örorkulífeyris eru svipuð að fjárhæð en það síðarnefnda skerðist mun meira vegna annara tekna en ellilífeyririnn sem þó skerðist langt umfram það sem ásættanlegt getur talist. Til einföldunar er á myndinni sýnd þróun fjárhæða ellilífeyris í samanburði við vísitölu launa og vísitölu neysluverðs. Í lögum um almannatryggingar segir bæturnar eigi að taka mið af launaþróun en þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag.

Á myndinni sést glöggt að ríkisstjórnin velur að hækka ekki bæturnar til samræmis við launaþróun eins og lögin kveða á um, heldur hækkar þær til samræmis við verðlag. Hins vegar er verðlagsviðmiðið ákveðið lágmark til að tryggja að bæturnar rýrni ekki að verðgildi ef laun hækka minna en verðlag. Það hefur því verið tekin pólitísk ákvörðun um að auka ójöfnuð á kostnað elli- og örorkulífeyrisþega.

Atvinnuleysistryggingar

Atvinnuleysi er nú mun minna en á tímum sóttvarnaraðgerða vegna heimsfaraldursins og mældist 3,9 prósent í ágúst sl. Alls voru um 6.100 manns á atvinnuleysisskrá og af þeim voru um 2.400 manns búin að vera án atvinnu lengur en 12 mánuði. Fjölgunin í þeim hópi er mikið áhyggjuefni. BSRB hefur ítrekað gagnrýnt styttingu tryggingartímabilsins úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Mikilvægt er að lengja tímabilið aftur nú þegar langtímaatvinnuleysi eykst og auka verulega þjónustu við þau sem hafa verið lengi í atvinnuleit. Það er óboðleg stefna að fólk sem þarf að kljást við atvinnuleysi um lengri tíma detti út úr kerfinu og þurfi að leita á náðir sveitarfélaga um framfærslu. Sú framfærsla er neyðaraðstoð, fjárhæðirnar mjög lágar og tekju- og eignamörk eru afar ströng.

Árið 2019 hækkuðu atvinnuleysisbætur umtalsvert og urðu 279.720 kr. á mánuði eða 88 prósent af lágmarkslaunum. Í dag eru bæturnar tæplega 314.000 kr. á mánuði og nema 85 prósent af lágmarkslaunum. Ef þróun fjárhæða atvinnuleysistrygginga er borin saman við launaþróun sést að bæturnar hafa hækkað um 12 prósent frá 2019 en launavísitala um 27 prósent.

Atvinnuleitendur eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði í upphafi atvinnuleitar. Miðað er við 70 prósent af heildarlaunum síðustu sex mánuðina í vinnu en að hámarki 495.000 kr. á mánuði. Það þýðir að launafólk með yfir 700.000 krónur á mánuði í heildarlaun skerðist umfram 70 prósent. Eðlilegt væri að miða þakið við að minnsta kosti meðallaun sem eru mun hærri eða 823.000 kr. á mánuði.

Ríkisstjórnin hækkaði ekki atvinnuleysistryggingar um 3 prósent líkt og almannatryggingar í júní 2022 og samkvæmt frumvarpinu á einungis að hækka þær um 4,9 prósent frá og með janúar 2023 á meðan að almannatryggingar hækka um 6 prósent á sama tíma. Bætur almannatrygginga hækka rúmlega 4 prósent umfram atvinnuleysistryggingar frá júní 2022 til janúar 2023. Stefna ríkisstjórnarinnar virðist vera sú að best sé að svelta fólk til vinnu. BSRB hafnar þessari hugmyndafræði og krefst þess að atvinnuleysistryggingar hækki hlutfallslega til jafns við almannatryggingar og fylgi launaþróun.

Kynjasjónarmið – takmarkaðar aðgerðir hafa neikvæð áhrif á kynin

Ákvarðanir í tekju- og gjaldamálum ríkissjóðs geta haft mjög misjöfn áhrif á kynin. Konur eru að jafnaði með lægri tekjur en karlar, starfa í annars konar störfum og bera í auknum mæli ábyrgð á umönnun barna og ættingja. Þá eru mun fleiri konur einstæðir foreldrar en karlar. Skattar og gjöld sem leggjast jafnt á allan almenning, líkt og ríkisstjórnin boðar í frumvarpinu, koma verr við þá sem lægri hafa launin, sem oftar eru konur og sérstaklega einstæðar konur með börn.

Veiking grunnþjónustunnar, hvort sem litið er til heilbrigðismála eða grunnþjónustu, sem veitt er af sveitarfélögum, hefur neikvæð áhrif á stöðu kvenna af þeim ástæðum sem raktar eru hér að framan. Í frumvarpinu er dregið úr rekstrargetu heilbrigðiskerfisins og ekki er sjáanleg aukning á tekjustofnum sveitarfélaga. Það er því ekki hægt að álykta annað en að frumvarpið boði veikingu grunnþjónustunnar sem hefur margþætt neikvæð áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu. Það leiðir m.a. til aukinnar umönnunarbyrði, lægri launa og aukins álags í störfum en konur eru í miklum meirihluta opinberra starfsmanna. Þá eru konur um 61 prósent þeirra sem fengu greiðslur frá TR í september sl. eða um 16.300 fleiri en karlar. Sú pólitíska ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skerða lífeyrisgreiðslur, líkt og að framan greinir, hefur neikvæð áhrif á öll kyn en þó umtalsvert fleiri konur en karla.

Í þessari úttekt er eingöngu rætt um konur og karla og er það vegna skorts á upplýsingum um öll kyn.

Að lokum má nefna áþreifanlega vöntun við útfærslu frumvarpsins á tengingu við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar sem mikið var fjallað um í þeirri fjármálaáætlun sem frumvarp þetta byggir á.

Samantekt

  • Ríkisstjórnin sendir launafólki skýr skilaboð með fjárlagafrumvarpinu um að kjarabætur verði eingöngu sóttar við kjarasamningsborðið. BSRB telur mun skynsamlegra fyrir almannaheill og efnahagsstjórn landsins að ríkissjóður leggi sitt af mörkum til að styðja betur við fólk í lægri tekjuhópunum og með þunga framfærslubyrði ásamt því að styrkja almannaþjónustuna til að auka velsæld og bæta kjör og starfsumhverfi þeirra sem veita þjónustuna.
  • Frumvarpið lýsir hagkerfi þar sem einkaneysla hefur aldrei verið sterkari og kaupmáttaraukning mikil. Í þeirri lýsingu er ekki tekið tillit fjórða hvers heimilis í landinu, þeirra rúmlega 38 þúsund sem áttu erfitt með að ná endum saman árið 2021. Í þessum hópi eru m.a. 52 prósent heimila einstæðra foreldra á Íslandi.
  • Ríkisstjórnin velur þá leið til nýrrar tekjuöflunar að hækka almenn gjöld og leggja þannig jafnar byrðar á alla landsmenn, sem mun óhjákvæmilega leggjast hlutfallslega þyngst á þau sem lægstar hafa tekjurnar og þyngstu framfærslubyrðina. Almennar hækkanir gjalda eru því ekki rétta tækið til að draga úr neyslu þeirra sem mest hafa handa á milli. Nær væri að ríkisstjórnin bætti stöðu ríkisfjármála með tekjuöflun hjá þeim aðilum sem sannarlega hafa svigrúm til þess að greiða hærri skatta og tryggi með þeim hætti sjálfbærni í rekstri ríkissjóðs.
  • Nú er tíminn til að efla og fjölga tekjustofnum ríkisins, styrkja almannaþjónustuna og leiðrétta tilfærslukerfin. Mætti í þessu samhengi til dæmis nefna hátekjuskatt, eignaskatta, bankaskatt, hækkun fjármagnstekjuskatts og hærri hlutdeild almennings af tekjum fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það ýtir undir velsæld og jöfnuð og mun skila sér í þróttmeira hagkerfi til lengri tíma. En ríkisstjórninni hugnast ekki sú leið heldur einblínir á sölu ríkiseigna og lækkun útgjalda.
  • Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lagt upp með að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtöku gistináttagjalds og að gjaldtaka í ferðaþjónustu verði tekin til skoðunar og horft til þess að breikka skattstofninn. Ekkert er fjallað um þá skoðun í frumvarpinu. Í ljósi þröngrar stöðu margra sveitarfélaga telur BSRB að þessi skoðun þoli ekki bið.
  • Útgjaldakafli frumvarpsins endurómar áherslu á aðhald og niðurskurð. Þar birtist með skýrum hætti sú stefna að jafnvægi í ríkisfjármálum á að ná með skertri opinberri þjónustu en ekki aukinni tekjuöflun þar sem sannarlega er svigrúm til staðar.
  • Heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi undanfarin ár og erfitt er orðið að manna ýmsar fagstéttir innan kerfisins. Flótta gætir vegna gríðarlegs langvarandi álags sem bætist ofan á þann mönnunarvanda sem þegar er uppi í heilbrigðiskerfinu og hefur alvarleg áhrif á starfsemi heilbrigðisstofnana. Bættar starfsaðstæður og bætt kjör heilbrigðisstarfsfólks verður að vera forgangsverkefni til að tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir þessa stöðu þá lækka rekstrarframlög til heilbrigðiskerfisins á hvern íbúa samkvæmt frumvarpinu.
  • Í komandi kjarasamningum munu samtök launafólks horfa til samspils launa og annara þátta. Þar vega húsæðismál, stuðningur við barnafjölskyldur, almanna- og atvinnuleysistryggingar þyngst.
  • Fjölgun almennra íbúða er gríðarlega mikilvæg til að tryggja húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjuhópum. Biðlistar eftir íbúðum hjá Bjargi lengjast með hverjum mánuðinum sem líður, aðflutningur fólks til landsins er í sögulegu hámarki, verðbólga hefur bein áhrif inn í leiguverð og húsnæðisstuðningskerfi stjórnvalda hafa verið vanfjármögnuð síðustu árin. Tryggja þarf fjárheimildir til stofnframlaga fyrir 1.000 almennar íbúðir árlega og leiðrétta skerðingar húsnæðis- og vaxtabóta undanfarin ár svo byrði húsnæðiskostnaðar verði ekki umfram 25 prósent af ráðstöfunartekjum.
  • Taka þarf barnabótakerfið til gagngerar endurskoðunar. Kerfið í dag er ekki fullnægjandi og mikilvægt er að breyta barnabótakerfinu þannig að barnabætur byrji ekki að skerðast fyrr en að meðaltekjum er náð.
  • Breyta þarf fæðingarorlofskerfinu þannig að þau sem eru með allra lægstu launin haldi óskertum tekjum í fæðingarorlofi. Hækka þarf hámarksfjárhæð fæðingarorlofs. Í fæðingarorlofi eiga foreldrar rétt á 80 prósent af launum sínum, en þakið er 600.000 kr., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sú fjárhæð hefur verið óbreytt um árabil. Hækka þarf þakið þannig að það miðist við að minnsta kosti 80 prósent af meðallaunum en þau voru 823.000 kr. á mánuði árið 2021 hjá fullvinnandi.
  • Á undanförnum árum hafa bætur almannatrygginga hækkað til samræmis við verðlag en ekki launaþróun. Það þýðir að tekin hefur verið um það pólitísk ákvöðun að auka á ójöfnuð lífeyrisþega gagnvart öðrum hópum samfélagsins.
  • Langtímaatvinnuleysi er að aukast og því er mikilvægt að lengja aftur tryggingatímabilið í 36 mánuði og auka þjónustu við atvinnuleitendur. Atvinnuleysistryggingar voru ekki hækkaðar í júní í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu. Samkvæmt frumvarpinu munu þær líka hækka minna en almannatryggingar í ársbyrjun 2023. Nemur munurinn samanlagt fjórum prósentum. BSRB krefst þess að atvinnuleysistryggingar hækki hlutfallslega til jafns við almannatryggingar og fylgi launaþróun.
  • Almennar gjaldahækkanir líkt og boðaðar eru á tekjuhlið frumvarpsins koma verst niður á þeim sem lægst hafa launin og þar með í meira mæli konum. Þá hefur veiking grunnþjónustu og raunrýrnun lífeyris að jafnaði neikvæðari áhrif á konur en karla.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur
Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur

 

 

Fyrir hönd BSRB

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?