Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga 2022

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga 2022, 1. mál.

Reykjavík, 10. desember 2021

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022 og þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita álit sitt á því. Mjög skammur tími gafst þó til að veita umsögn um frumvarpið og áskilur bandalagið sér því rétt til frekari athugasemda eftir því sem vinnu við frumvarpið vindur fram.

Það er sérstakt fagnaðarefni að horfur í opinberum fjármálum séu nú mun bjartari en í upphafi ársins. Umfangsmiklar bólusetningar og árangursríkar sóttvarnir og efnahagsaðgerðir hafa mildað áhrifin en mikilvægt er að hafa í huga að óvissa ríkir enn um frekari efnahagsáhrif faraldursins.

Stöðnun og aðhald í stað vaxtar

Þrátt fyrir batnandi horfur mun ríkissjóður verða rekinn með um 5,5% halla og skuldasöfnun halda áfram til ársins 2026. Í þingsályktun um fjármálastefnu 2022-2026 sem dreift var samtímis fjárlagafrumvarpinu kemur fram að áætlað skuldahlutfall fyrir hið opinbera verði um 46% árið 2026. Skuldastaðan er því mun betri en gert var ráð fyrir. Skuldamarkmið fjármálastefnunnar er sett fram sem hámarksviðmið og samkvæmt þeim munu skuldir ríkisjóðs nema að hámarki um 40,5% af VLF árið 2026 og sveitarfélaga um 9%. Í greinagerð er talað um að þau verði um 46% eins og áður sagði. Það vekur sérstaka athygli að horfur fyrir ríkissjóð eru miklu bjartari nú en þær voru þegar fjármálaáætlun var lögð fram í vor en hjá sveitarfélögunum eru þær verri. Í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að skuldir hins opinbera hafi vaxið hlutfallslega minna hér en í flestum ríkjum vegna heimsfaraldursins og að hlutfall opinberra skulda af landsframleiðslu sé miklu lægra hér á landi en í vestrænum ríkjum að meðaltali. Ekki er fjallað um þennan samanburð í fjármálastefnunni.

Í frumvarpinu er að finna áform um sölu Íslandsbanka að fullu á næstu tveimur árum og sölu á hlut í Landsbankanum á kjörtímabilinu. Markmiðið með sölunni er að draga úr skuldabyrði ríkissjóðs. BSRB mótmælir þessum áformum og telur skuldastöðu ríkissjóðs ekki þess eðlis að það kalli á stórfellda sölu arðberandi eigna.

Leiðarljós ríkisstjórnarinnar í tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu 2022-2026 er að skuldasöfnun ríkissjóðs stöðvist á árinu 2026. Það sé mikilvægt til að standa vörð um viðnámsþrótt hins opinbera og byggja upp svigrúm til að mæta auknum útgjöldum vegna fyrirsjánlegra lýðfræðibreytinga. Eðli málsins samkvæmt fær umræða um skuldastöðu og markmið um skuldastöðvun og lækkun mikið pláss í greinagerðinni. Hins vegar vekur það furðu að ekki sé rætt með ítarlegri hætti um aukna áherslu fræðimanna á skuldabyrði í stað skuldastöðu til að ná markmiðum um stöðugleika og sjálfbærni. Rétt er vikið að þessu og bent á að vaxtajöfnuður verði innan við 2% af landsframleiðslu eða 1,9% árið 2026. Fjármálaráð fjallaði sérstaklega um þessar áherslur í umsögn sinni um fjármálaáætlun 2022-2026.
Athygli vekur að gert er ráð fyrir að fjármálareglur taki gildi aftur óbreyttar árið 2026. Þeim var vikið til hliðar árið 2020 vegna áhrifa heimsfaraldurins á afkomu og skuldastöðu hins opinbera. Það vekur furðu að ekki standi til að endurskoða reglurnar. Mikil umræða hefur átt sér stað meðal fræðimanna um fjármálareglur og hvort t.d. sé ástæða til að endurhugsa skuldareglur vegna fjárfestinga sem nauðsynlegar eru vegna loftslagsaðgerða og aðlögunar vegna loftslagsáhrifa. BSRB áréttar að kostnaður vegna hamfarahlýnunar er til lengdar miklu meiri en við nauðsynlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir hana og þann kostnað munum við öll bera að lokum, líka ríkissjóður.

Fjármálastefnan og fjárlagafrumvarpið boða ákveðna stöðnun. Í stað þess að vaxa út úr vandanum á að beita aðhaldsaðgerðum á útgjaldahlið til halda aftur af skuldasöfnun með örfáum undantekningum. BSRB hefur margoft bent á að rekstur ríkissjóðs er ósjálfbær af því að skattlækkanir undangengis kjörtímabils voru ófjármagnaðar. Samkvæmt fjármálaáætlun á að minnka umfang hins opinbera í hagkerfinu. BSRB mótmælir þeirri stefnu harðlega.

Öflug almannaþjónusta leggur grunninn að góðri heilsu, þekkingu og færni til að takast á við þær samfélagsáskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna áhrifa heimsfaraldursins, breyttrar aldurssamsetningar og loftslagsbreytinga. BSRB bendir jafnframt á að enn er óvissa um þróun faraldursins og afleiðingar hans. Eftir vanfjármögnun sem má rekja aftur um áratug er kominn tími til að blása til sóknar og grípa til aðgerða sem fela í sér raunverulega lífskjarasókn. Það er m.a. gert með því að styrkja almannaþjónustuna til að standa undir sterkri velferð og tryggja að ekki verði gengið enn frekar á andlega og líkamlega heilsu starfsfólksins sem veitir þjónustuna.

Lausnina við langvinnum skaða af Covid-kreppunni er að finna í norræna velferðarlíkaninu. Með eflingu jöfnunarhlutverks skattkerfisins, fullfjármagnaðri almannaþjónustu, sterkri afkomutryggingu og öflugri atvinnuuppbyggingu stuðlum við að velsæld og verðmætasköpun.

Aðgerðir á tekjuhlið eru nauðsynlegar

Í fjármálastefnunni er ekki vikið að því að rekstur ríkissjóðs sé ósjálfbær vegna veikleika á tekjuhlið sem tengjast ófjármögnuðum skattalækkunum. Hins vegar er fjallað um að gera þurfi breytingar á skattkerfi vegna orkuskipta í samgöngum en vegna minnkandi hlutdeildar bensín- og díselbifreiða hafa tekjustofnar ríkisins vegna útblásturs minnkað og munu dragast enn frekar saman á komandi árum. Einnig er fjallað lauslega um skattheimtu vegna arðsemi stafrænna lausna og þær áskoranir sem felast í hlutfallslegri öldrun þjóðarinnar sem muni leiða til samdráttar í tekjuskatti og því kunni að þurfa að beina skattheimtu í meira mæli að neyslu. Allar þessar hugmyndir um skattkerfisbreytingar eru lauslega reifaðar en BSRB leggur ríka áherslu á að ekki verði farið í kerfisbreytingar án samráðs við verkalýðshreyfinguna.

Eignaójöfnuður er að aukast en í fjármálastefnunni og fjárlagafrumvarpinu er ekki vikið að skattlagningu fjármagns og eigna eða frekari gjaldtöku vegna auðlindanotkunar. BSRB leggur áherslu á að fjármögnunarkerfi hins opinbera verði þannig úr garði gerð að það standi undir raunverulegri velsæld allra hópa. Í stjórnarsáttmála er fjallað um að koma eigi í veg fyrir óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga og reiknaðs endurgjald á fjármagnstekjur þeirra sem eingöngu hafa framfærslu sína af slíkum tekjum. Ekkert er minnst á þessi áform í fjármálastefnu, fjárlagafrumvarpinu og tekjufrumvörpunum sem því fylgja.

Eins og áður sagði eru horfur í fjármálum sveitarfélaga dekkri en hjá ríkissjóði. BSRB hvetur til þess að tekjustofnar sveitarfélaga verði efldir til að þau geti staðið undir allri þeirri mikilvægu þjónustu sem þau veita. Til stóð að sveitarfélög fengju hlutdeild í gistináttaskatti en hann var afnuminn tímabundið sem á nú að framlengja til ársloka 2023. Ekki virðist standa til að bæta sveitarfélögum upp þær tekjur sem þau munu fara á mis við út vegna þessa.

Heilbrigðismál

Almannaþjónustan, ekki síst heilbrigðisþjónustan, hefur verið undir gríðarlegu álagi í heimsfaraldrinum og í mörgum tilvikum löngu áður en hann skall á. Í skýrslu ASÍ, Heilbrigðismál í aðdraganda kosninga, sem kom út í september 2021 er fjallað um vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins frá tímum efnahagshagshrunsins, vaxandi heilsuójöfnuð og skort á hjúkrunarrýmum. Aukið álag á Landspítala hefur líka leitt betur í ljós þann mönnunarvanda sem til staðar er á sjúkrahúsinu og skort á langtímaúrræðum fyrir aldraða. Boðuð aukning fjárframlaga til heilbrigðisþjónustunnar er hins vegar óveruleg og ekki verður slakað á aðahaldskröfum til mikilvægra stofnana. Ákalli eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna, þar sem mönnunarvandinn er víða gríðarlega alvarlegur, er ekki svarað. Aukning á fjárheimildum til sjúkrahúsa eru að stærstum hluta viðbrögð við heimsfaraldrinum og framlög til byggingar á nýju húsnæðið en ekki fjármunir sem nýtast í almenna uppbyggingu kerfisins til að vinna bug á þeim brestum sem leiða til ónógrar þjónustu og heilsuójöfnuðar.

Of margir búa við þröng kjör

Um fjórðungur launafólks, helmingur atvinnulausra og 80 prósent öryrkja eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýlegum könnunum Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir eru mestir hjá öryrkjum, atvinnulausum, innflytjendum og einstæðum foreldrum. Auka verður framlög til almenna íbúðakerfisins, hækka greiðslur almanna- og atvinnuleysistrygginga til að draga úr tekjuójöfnuði, og draga verður stórlega úr tekjutengingum barnabótakerfisins þannig að bæturnar skerðist aðeins í allra hæstu tekjutíundunum.

Húsnæðismál

Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem er til leigu eða eigu, er ein stærsta krafa launafólks. Engin breyting er boðuð á framlögum til húsnæðisuppbyggingar í fjárlagafrumvarpinu sem veldur miklum vonbrigðum. Þá ítrekar BSRB áhyggjur bandalagsins af því að húsnæðisstuðningur við lágtekjuheimili sé ekki fullnægjandi. Í Félagsvísum Hagstofu Íslands, Sérhefti um fjárhaga heimila frá júní 2021, kemur fram að heimili einstæðra foreldra og einmenninga séu í meiri hættu að búa við fjárhagsþrengingar en önnur. Þau sem búa við fjárhagsþrengingar eru líklegri til að búa í leiguhúsnæði og eru heimili einstæðra foreldra líklegust til að vera í leiguhúsnæði. Um 30% þeirra bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2019. Íþyngjandi húsnæðiskostnaður er þó ekki einskorðaður við leiguhúsnæði því um 10% húseigenda bjuggu við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2019.

Húsnæðisöryggi, það að búa í heilnæmu húsnæði, á viðráðanlegu verði og til langs tíma, er grundvöllur velferðar. BSRB leggur því áherslu á aukin framlög til almenna íbúðakerfisins og aukinn húsnæðisstuðning við bæði leigjendur og eigendur í tekjulægstu hópunum.

Barnabætur

BSRB fagnar því að verið sé að hækka barnabætur og skerðingarmörk þeirra. Hins vegar þarf að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu. Nýleg útekt Eflingar á gögnum frá OECD um barnabætur staðfestir þetta. Í útektinni kemur fram að útgjöld til barnabóta eru lág hér á landi í samanburði við önnur OECD ríki. Stefna BSRB er að íslenska barnabótakerfið taki mið af þeim norrænu þar sem allir fá sömu bætur óháð efnahag enda er barnabótum ætlað að jafna ráðstöfunartekjur innan svipaðra tekjuhópa með ólíka framfærslubyrði, þ.e. þeirra sem hafa börn á framfæri annars vegar og hins vegar þeirra sem hafa ekki börn á framfæri.

Það vekur athygli að framlög til barnabóta á árinu 2022 eiga ekki að hækka miðað við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2021.

Almannatryggingar

Greiðslur almannatrygginga eiga að hækka um 4,6% fyrir ellilífeyrisþega og 5,6% fyrir örorkulífeyrisþega samkvæmt forsendum frumvarpsins. Meðfylgjandi tafla sýnir hlutfall örorku- og ellilífeyris af lágmarkslaunum. Krónutölur miða við óskertan lífeyri og óskertar greiðslur til lífeyrisþega sem eiga rétt á heimilisuppbót.

Hlutfall örorku- og ellilífeyris af lágmarkslaunum

Frá og með árinu 2017 tóku breytingar á ellilífeyri almannatrygginga gildi. Þá var ellilífeyrir 82% af lágmarkslaunum og ellilífeyrir með heimilisuppbót sambærilegur lágmarkslaunum. Fjárhæðir framfærsluviðmiðs örokulífeyrisþega og ellilífeyris hafa verið nánast þær sömu á tímabilinu. Örorkulífeyriskerfið er þó mun flóknara og skerðingar þess kerfis margþættar.

Hlutfall óskertra almannatrygginga af lágmarkslaunum hefur lækkað á tímabilinu og nú komið niður í 76% fyrir þá sem búa með öðrum og 95-96% fyrir þá sem eiga rétt á heimilisuppbót. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun Alþingi festa í sessi þá kjaragliðnun sem átti sér stað á sl. kjörtímabili.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega tvöfaldist og verði 200.000 kr. á mánuði frá árinu 2022. Þessi breyting nær aðeins til lítils hluta ellilífeyrisþega. Árið 2021 voru um 5.200 ellilífeyrisþega með atvinnutekjur og árið 2020 um 4.000 manns. Það ár var miðgildi atvinnutekna ellilífeyrisþega um 71.000 kr. hjá körlum og 52.500 kr. hjá konum. Auk þess hafa verið búnir til hvatar fyrir aukna atvinnuþátttöku eldra fólks með heimild til töku hálfs lífeyris. Það vantar rökstuðning fyrir því af hverju þessi aðgerð er valin umfram aðrar og greiningu á því hvernig nýir fjármunir inn í kerfið skili sér best.

Vandséð er hvaða rök geti búið að baki þeirri ákvörðun að hækka ekki samhliða frítekjumark örorkulífeyrisþega. Það hefur verið óbreytt frá því um 2010 eða tæplega 110.000 kr. á mánuði. Mun hærra hlutfall örorkulífeyrisþega en ellilífeyrisþega er með atvinnutekjur og miðgildi þeirra var árið 2020 162.600 kr. hjá körlum og 151.400 hjá konum. Hækkun frítekjumarks atvinnutekna örorkulífeyrisþega myndi því hafa veruleg áhrif á þennan hóp öryrkja. Þess í stað helst frítekjumarkið áfram óbreytt. Þetta er í andstöðu við markmið stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem er að fólk með skerta starfsgetu hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku.

Atvinnuleysi og atvinnuleysistryggingar

Atvinnuleysi hefur dregist hratt saman á árinu. Í janúar 2021 mældist almennt atvinnuleysi 11,6% en var komið niður í 4,9% í október. Rúmlega 10.000 manns eru enn á atvinnuleysisskrá. Atvinnuleysi er því svipað nú og það var í febrúar áður en áhrifa heimsfaraldursins fór að gæta í íslensku efnahagslífi. Það segir þó aðeins hálfa söguna. Hlutfall þeirra sem teljast langtímaatvinnulausir, þ.e. án atvinnu í 12 eða fleiri mánuði, hefur rúmlega tvöfaldast á tímabilinu. Í febrúar 2019 voru um 19% á atvinnuleysisskrá sem höfðu verið án atvinnu lengur en 12 mánuði en í október 2021 var hlutfallið orðið 42%.

Í fjárlagfrumvarpinu segir: “Þrátt fyrir góðan bata á vinnumarkaði er hætt við að langtímaatvinnuleysi verði hærra en áður, en róa þarf að því öllum árum að koma í veg fyrir að það festist í sessi. Þar skiptir mestu að umgjörð vinnumarkaðarins sé með þeim hætti að kjarasamningar endurspegli efnahagsleg skilyrði og skili farsælli niðurstöðu“ (bls. 87). BSRB furðar sig á þessari staðhæfingu og bendir á að aukið langtímaatvinnuleysi er vegna heimsfaraldurs sem hefur haft afgerandi áhrif á efnahagslífið sl. 22 mánuði en ekki vegna kjarasamningsbundinna réttinda og kjara launafólks. Staðhæfingar eins og þessi eru síst til þess fallnar að skapa sátt og traust í aðdraganda kjarasamninga.

BSRB ítrekar því fyrri kröfu um að réttindatímabil atvinnuleysistrygginga verði lengt úr 30 mánuðum 48 mánuði tímabundið og svo í 36 mánuði þegar áhrifa faraldursins hættir að gæta. Í þessu sambandi er einnig rétt að minna á réttur til atvinnuleysisbóta var að jafnaði 36 mánuðir en það tímabil var stytt niður í 30 mánuði frá og með árinu 2015 án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Lenging tímabilsins á sér fyrirmynd í þeim aðgerðum sem gripið var til vegna efnahagshrunsins en þá var atvinnuleysistímabilið lengt tímabundið í 48 mánuði. Í ljósi aukins langtímaatvinnuleysis er einnig mikilvægt að stjórnvöld endurmeti tímalengd vinnumarkaðsúrræða eins og t.d. Hefjum störf.

BSRB hefur um lengri tíma krafist hækkunar atvinnuleysisbóta og tekur undir kröfu ASÍ um að grunnbætur verði 95% af lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Gert var samkomulag um hækkun bótana frá og með árinu 2019 enda höfðu fjárhæðir þeirra dregist aftur úr lágmarkslaunum. Þó var ekki vilji af hálfu ríkisstjórnarinnar að hækka bæturnar svo að þær jafngiltu 95% af lágmarkslaunum. Þessi staða bitnar nú á þeim þúsundum sem eru án atvinnu. Í meðfylgjandi töflu er sýndur samanburður á lágmarkslaunum og grunnbótum atvinnuleysisbóta m.v. 100% rétt á árunum 2017 til 2022. Samkvæmt forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur muni nema 321.572 kr. á mánuði árið 2022 en þær þyrftu að verða 349.600 kr. á mánuði svo að þær nemi 95% af lágmarkslaunum.

Atvinnuleysisbætur

BSRB telur einnig mikilvægt að hlutfall grunnatvinnuleysisbóta vegna barna verði áfram 6%. Þetta hlutfall var hækkað tímabundið árið 2020 úr 4% í 6%. Að óbreyttu mun hlutfallið verða 4% frá og með árinu 2022. Í ljósi langtímaatvinnuleysis er mjög mikilvægt að styðja við fjárhag fólks án atvinnu sem er með börn á framfæri og framlengja ákvæðið út árið 2022.

BSRB tekur einnig undir kröfu ASÍ um að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt úr 3 mánuðum í 6 mánuði en að óbreyttu fellur tímabundin lenging í 6 mánuði niður þann 31. janúar 2022.

Loftslagsmál

BSRB fagnar því að setja eigi sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Einnig er stefnt að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst allra þjóða, eigi síðar en 2040. BSRB styður þessi markmið en telur réttlát umskipti forsendu þess að þessi markmið náist.

BSRB, ASÍ og BHM gáfu út skýrslu um verkalýðshreyfinguna og loftslagsmálin í mars 2021. Þar lýsa heildarsamtökin yfir stuðningi við loftslagsmarkmið stjórnvalda en árétta að þeim yrði að ná á forsendum réttlátra umskipta. Réttlát umskipti fela í sér að við hámörkum áhrif loftslagsaðgerða til að ná kolefnishlutleysi en tryggjum um leið sanngjarna dreifingu kostnaðar og ávinnings. Áhersla er á sköpun grænna og góðra starfa sem eru launuð með sanngjörnum hætti, veita vinnumarkaðstengd réttindi og tryggja starfsfólki áhrif á starfsaðstæður sínar. Grænar fjárfestingar þarf því að meta út frá áhrifum á fjölda og gæði starfa ekki síður en fyrirtæki. Gera þarf fólki kleift að efla þekkingu sína og færni fyrir ný eða breytt störf með sí- og endurmenntun og tryggja afkomu milli starfa. Í réttlátum umskiptum felst að verkalýðshreyfingin taki þátt í stefnumótun og útfærslu loftslagsaðgerða sem hafa munu áhrif á hag og aðstæður launafólks og almennings. BSRB ítrekar því kröfu sína um samstarf stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins á vettvangi loftslagsmála.

Í frumvarpinu er fjallað um aukin framlög til loftslagsmála á næsta ári og munu þau alls nema 13 mö.kr. árið 2022. Sem hlutfall af landsframleiðslu nema framlögin aðeins um 0,3%. Það gefur auga leið að markmiðið um 55% samdrátt árið 2030 miðað við 2005 þarf umfangsmeiri fjármögnun en kveðið er á um í fjárlagafrumvarpinu. Auk þess bendir BSRB á að drjúgur hluti af fjárframlögunum fer til að draga úr losun frá landi en sú losun fellur ekki á beina ábyrgð Íslands samkvæmt Parísarsáttmálanum og þar með 55% markmið stjórnvalda. Engu að síður eru þær aðgerðir gríðarlega mikilvægar. BSRB hefur áhyggjur af því að framsæknum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum verði ekki náð miðað við þau fjárframlög sem ætluð eru til málaflokksins. Bandalagið áréttar að kostnaður vegna hamfarahlýnunar er til lengdar miklu meiri en við nauðsynlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir hana.

Samantekt
  • BSRB fagnar því að horfur í opinberum fjármálum séu nú mun bjartari en í upphafi ársins.
  • BSRB hefur áhyggjur af því að fjárlagfrumvarpið boði stöðnun í stað kraftmikillar sóknar til að vaxa út úr vandanum. Mikil áhersla er lögð á að stöðva skuldasöfnun en ekki er fjallað um að hlutfallsleg skuldaaukning hins opinbera sér minni en meðal flestra vestrænna ríkja og hlutfall opinberra skulda sé langt undir meðaltali vestrænna hagkerfa.
  • Fjárlagafrumvarpið boðar sölu á Íslandsbanka og hluta af Landsbanka. BSRB hafnar því að skuldastaðaríkissjóðs kalli á sölu arðberandi eigna.
  • Lausnina við langvinnum skaða af Covid-kreppunni er að finna í norræna velferðarlíkaninu. Með eflingu jöfnunarhlutverks skattkerfisins, fullfjármagnaðri almannaþjónustu, sterkri afkomutryggingu og öflugri atvinnuuppbyggingu stuðlum við að velsæld og verðmætasköpun.
  • Mikilvægt er að fara í aðgerðir til að styrkja tekjuhlið fjárlaga. Undirliggjandi rekstur ríkissjóðs er ósjálfbær vegna ófjármagnaðra skattlækkana undangengis kjörtímabils.
  • Þrátt fyrir vaxandi eignaójöfnuð er ekki gert ráð fyrir skattlagningu fjármagns og eigna eða frekari gjaldtöku vegna auðlindanotkunar, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né fjármálastefnunni.
  • Horfur hjá sveitarfélögum eru dekkri en hjá ríki og efla þarf tekjustofna þeirra til að þau geti staðið undir mikilvægri þjónustu við íbúa sína.
  • Ákalli eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna, þar sem mönnunarvandinn er víða gríðarlega alvarlegur, er ekki svarað. Aukning á fjárheimildum til sjúkrahúsa eru að stærstum hluta viðbrögð við heimsfaraldrinum og framlög til byggingar á nýju húsnæði Landspítala.
  • Engin breyting er boðuð á framlögum til almenna íbúðakerfisins þrátt fyrir að leigjendur séu sá hópur sem sé líklegastur til að vera með íþyngjandi húsnæðiskostnað, sérstaklega einstæðir foreldrar.
  • BSRB fagnar hækkun barnabóta og tekjuskerðingarmarka en kallar eftir heildarendurskoðun barnabótakerfisins sem taki mið af þeim norrænu þar sem allir fá sömu bætur óháð efnahag enda er barnabótum ætlað að jafna ráðstöfunartekjur innan svipaðra tekjuhópa með ólíka framfærslubyrði.
  • Hækkun elli- og örorkulífeyris almannatrygginga samkvæmt frumvarpinu dregur ekki úr þeirri kjaragliðnun sem átti sér stað á undangengnu kjörtímabili. Tvöföldun frítekjumarks fyrir atvinnutekjur ellilífeyrisþega gagnast fremur litlum hópi en frítekjumark fyrir atvinnutekjur örorkulífeyrisþega hefur staðið í stað í á annan áratug. Hækkun þess myndi gagnast hlutfallslega mun stærri hópi og væri í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans.
  • Dregið hefur hratt úr atvinnuleysi á árinu og er það nú svipað og fyrir heimsfaraldur en langtímaatvinnuleysi hefur tvöfaldast. Lengja þarf bótatímabilið, atvinnuleysisbætur þurfa að hækka, framlengja þarf tímabundinni hækkun á bótum vegna barna á framfæri atvinnuleitenda og framlengja þarf vinnumarkaðsúrræði á borð við Hefjum störf.
  • BSRB styður loftslagsmarkmið stjórnvalda en nauðsynleg forsenda þess að þau náist er náið samstarf við verkalýðshreyfinguna um réttlát umskipti. Stórauka verður fjárheimildir til málaflokksins til að metnaðarfullt markmið stjórnvalda um samdrátt í losun náist á næstu 9 árum.


Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?