Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um réttindi sjúklinga (refsiábyrgð heilbrigðis-stofnana og rannsókn alvarlegra atvika), 225. mál

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp heilbrigðisráðherra þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 og lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Breytingarnar koma til vegna ákalls heilbrigðisstarfsfólks um skýrari reglur um samstarf heilbrigðisyfirvalda og lögregluyfirvalda þegar alvarleg atvik verða. Efni frumvarpsins felur m.a. í sér breytingu á gildandi þannig að unnt verði að koma fram refsiábyrgð á hendur einstaka stofnunum. Þá er einnig lagt til að ítarlegar rannsóknir verði gerðar á alvarlegum atvikum og að upplýsingagjöf til sjúklinga eða eftir atvikum aðstandaenda verði aukin.

BSRB styður við þá breytingu að heimilt verði að beita heilbrigðisstofnun refsingu vegna alvarlegra atvika sem kunna að vera við veitingu heilbrigðisþjónustu og leiða til dauðsfalls eða stórfellds líkamstjóns. Vegna áskilnaðar gildandi laga um saknæma háttsemi hefur starfsfólk verið sótt til saka frammi fyrir dómstólum vegna slíkra atvika, en BSRB tekur undir að með umræddri breytingu sé dregið úr þrýstingi til þess. Eins og kemur fram í umsögn Sjúkraliðafélags Íslands má almennt rekja mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu til raðar atvika og margra samverkandi þátta frekar en til athafna eins tiltekins aðila. Það er því fagnaðarefni að lögum skuli breytt til að vernda starfsfólk fyrir því að ganga í gegnum áralanga baráttu fyrir dómstólum til þess að sanna sakleysi sitt vegna slíkra mistaka. Breytingin kemur þó ekki í veg fyrir að starfsfólk kunni að þurfa þess ef talið er að það hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.

BSRB telur að afnám refsiábyrgðar einstaka starfsfólks ætti að ná til allra atvika nema þeirra þar sem um ræðir stórkostlegt gáleysi eða ásetning. Að mati bandalagsins ætti því að ganga enn lengra og taka það sérstaklega fram að það komi ekki til greina að sækja starfsfólk til saka nema um stórkostlegt gáleysi eða ásetning sé að ræða. Slíkt fyrirkomulag væri til þess fallið að auka öryggi sjúklinga og fjölga tilkynningum um atvik þar sem mistök hafa orðið við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?