Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum (hækkun starfslokaaldurs)

Reykjavík, 3. apríl 2018

 

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (hér eftir nefnt stml.) varðandi hækkun starfslokaaldurs úr 70 ára í 73 ára. Bandalagið tekur undir með flutningsmönnum frumvarpsins um að mikilvægt sé að embættismönnum og almennum starfsmönnum ríkisins verði gert kleift að starfa lengur en til 70 ára aldurs ef þeir svo kjósa.

BSRB átti fulltrúa í nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sem birti skýrslu sína í febrúar 2016. Í 4. kafla skýrslunnar er fjallað um sveigjanleg starfslok og starfslokaaldur og þar er fjallað um opinbera starfsmenn. Nefndin lagði til að endurskoðað verði ákvæði stml. „með það í huga að opinberum starfsmönnum verði heimilað að vinna allt að 75 ára aldurs. Haft verði samráð við viðkomandi heildarsamtök opinberra starfsmanna.“

Einnig er fjallað um 70 ára starfslokaaldur í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Þrátt fyrir að bandalagið styðji markmið þessa frumvarps er lögð áhersla á að endurskoðun starfslokaaldurs fari fram í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna og unnið sé að því að breyta kjarasamningum við sveitarfélögin samhliða breytingum á lögum varðandi starfsmenn ríkisins.

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?