Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (hækkun starfslokaaldurs), 141. mál

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (hér eftir stml.) sem felur í sér hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna úr 70 árum í 73 ár. Um endurflutt frumvarp er að ræða og hefur bandalagið áður sent nefndasviði Alþingis umsögn um málið. Þar lýsti bandalagið yfir stuðningi við efni frumvarpsins og hefur sú afstaða ekki breyst.

Á undanförnum árum hafa verið lögð fram frumvörp og þingsályktunartillögur af sama meiði og hér um ræðir. Fyrir utan umsagnir um lagafrumvörp sem eru efnislega samhljóða því sem hér um ræðir hefur BSRB t.a.m. sent frá sér umsögn um tillögu til þingsályktunar þar sem lagt var til að fjármála- og efnahagsráðherra yrði falið, í samráði við félags- og barnamálaráðherra, að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um að afnema úr lögum ákvæði sem kveða á um 70 ára starfslokaaldur starfsmanna ríkisins. Þar var bandalagið fylgjandi breytingunni en lagði áherslu á að um heimild yrði að ræða og benti á að um starfslokaaldur starfsfólks sveitarfélaga er fjallað í kjarasamningum. Þar hefur nú verið samið um framlengingu ráðningar til allt að 72 ára hvað varðar starfsfólk sveitarfélaga sem starfa undir kjarasamningi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þannig má í raun segja að sveitarfélögin séu komin lengra en ríkið í þeim efnum.

Fyrir stuttu skilaði bandalagið umsögn um frumvarp heilbrigðisráðherra sem felur í sér hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks úr 70 ára aldri og í 75 ára aldur. Í umsögnum sinni lýsti bandalagið yfir stuðningi sínum við slíka breytingu en lagði áherslu á að litið verði sérstaklega til lífeyrismála hjá þeim hópi sem kýs að starfa eftir 70 ára aldur. Núgildandi lagaumhverfi lífeyrissjóða gerir þeim ekki kleift að halda áfram að greiða í lífeyrissjóð sinn. Þannig ná ávinnslutöflurnar ekki lengra en til 70 ára aldurs og ef iðgjöld berast sjóðunum vegna sjóðsfélaga sem er eldri en 70 ára eru þau einfaldlega endursend til launagreiðanda. Þá er einnig rétt að benda á að lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissréttinda og starfsemi lífeyrissjóða gera eingöngu ráð fyrir því að launafólk og atvinnurekendur þeirra greiði iðgjöld í lífeyrissjóði frá 16 til 70 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 1. gr. þeirra laga. Bandalagið hefur því talið að ef það sé vilji löggjafans að starfsfólki verði gert kleift að vinna lengur en til 70 ára aldurs þurfi að breyta lögum og eftir atvikum samþykktum lífeyrissjóða til þess að koma til móts við þann hóp.

Það er grundvallaratriði að hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna verði framkvæmd með þeim hætti að um heimild sé að ræða, og að þau sem kjósi að ljúka þátttöku á vinnumarkaði fyrr geti gert það. Í því sambandi má benda á að félagsfólk aðildarfélaga BSRB starfa mörg í störfum sem eru talin slítandi og þurfa því að ljúka þátttöku á vinnumarkaði fyrr en ella.

 

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?