Umsögn BSRB um frumvarp til laga um kjararáð

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um kjararáð (launafyrirkomulag), 413. mál

Reykjavík, 10. janúar 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um kjararáð. Frumvarpið felur í sér breytt fyrirkomulag vegna launaákvarðana þeirra sem áður féllu undir úrskurðarvald kjararáðs samkvæmt lögum nr. 130/2016, en lögin voru felld úr gildi með lögum nr. 60/2018. Efni frumvarpsins virðist að mestu vera gert með hliðsjón af tillögum starfshóps um málefni kjararáðs, sem skilaði skýrslu þann 14. febrúar 2018. Starfshópurinn lagði til að launafjárhæðir yrðu fastsettar með lögum og að laun yrðu endurskoðuð árlega með hliðsjón af almennri launaþróun ríkisstarfsmanna. Þannig taldi starfshópurinn að slík framkvæmd myndi stuðla að launafyrirkomulagi sem væri gagnsætt, fyrirsjáanlegt og skýrt.

BSRB leggur ríka áherslu á að nýju fyrirkomulagi verði komið á sem stuðli að sátt um þessi málefni og komi jafnframt í veg fyrir jafn ógagnsæ vinnubrögð og voru raunin á starfstíma kjararáðs. Af þeim sökum tekur BSRB undir með starfshópnum að farsælast sé að halda launum þeirra er féllu undir úrskurðarvald ráðsins óbreyttum um tiltekinn tíma og telur bandalagið eðlilegt að svo verði til ársins 2020. Að þeim tíma liðnum gætu árlegar hækkanir með hliðsjón af almennri launaþróun ríkisstarfsmanna komið til 1. júlí ár hvert. BSRB gerir því athugasemdir við að með frumvarpinu geti ráðherra, til viðbótar við árlegar hækkanir, ákveðið að hækka laun 1. janúar ár hvert til samræmis við breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

BSRB gerir ekki athugasemdir við útfærslu á því hvernig umrædd laun verða framvegis ákveðin, þ.e. með fastri krónutölufjárhæð í lögum, en gerir kröfu um að hækkanir þeirra komi ekki til fyrr en í fyrsta lagi árið 2020. Samkvæmt framansögðu leggst bandalagið gegn efni frumvarpsins að því leyti að það virðist gera ráð fyrir því að umrædd laun muni hækka þann 1. júlí n.k. Í þessu sambandi bendir BSRB á að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað töluvert umfram almenna launaþróun á undanförnum árum sem hefur valdið miklum titringi og óánægju á meðal almennings í landinu.


Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?