Umsögn BSRB um frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu, 238. mál

BSRB vill koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi frumvarp mennta- og barnamálaráðherra um stofnun nýrra Mennta- og skólaþjónustustofu samhliða niðurlagningu Menntamálastofnunar. Með frumvarpinu er lagt til að öll störf innan Menntamálastofnunar verði lögð niður og starfsfólki þar með sagt upp störfum. Hjá stofnuninni starfa félagsmenn innan raða BSRB og gerir bandalagið því athugasemdir við að hafa ekki fengið frumvarpið til umsagnar, en slík beiðni var send á 123 aðra aðila. BSRB gerir ráð fyrir að handvömm hafi ráðið þessu en vill hér með skila sinni umsögn til nefndarinnar.

Með lögum nr. 91 frá árinu 2015 var Menntamálastofnun sett á fót. Samhliða stofnun Menntamála-stofnunar voru störf þeirra sem störfuðu hjá Námsgagnastofnun, Námsmatsstofnun og í sumum tilfellum hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu lögð niður en því starfsfólki var boðið nýtt starf hjá Menntamálastofnun. Þannig var gætt að starfsöryggi starfsfólksins samhliða breytingunum og lögfest að bjóða skuli nýtt starf hjá hinni nýju stofnun. Samkvæmt því frumvarpi sem um ræðir hér, þar sem Menntamálastofnun er lögð niður og stofnuð ný Mennta- og skólaþjónustustofa er ekki gætt að þessum atriðum. Þannig segir í frumvarpinu að leggja skuli niður öll störf hjá Menntamálastofnun og auglýsa störf hjá hinni nýju stofnun. Við þetta gerir BSRB alvarlegar athugasemdir og telur að hér sé ekki gætt að meðalhófi.

Frumvarpið felur í sér að öll störf skuli lögð niður frá 1. mars 2024, sem verður þá skilið þannig að uppsagnarfrestur starfsfólks taki gildi frá og með þeim degi. BSRB gerir hins vegar athugasemdir við að ekki skuli leitast við að finna starfsfólki Menntamálastofnunar störf við hæfi hjá hinni nýju stofnun, og að það verði þannig meginreglan að slíkt skuli reynt með tilliti til meðalhófs. BSRB hafnar því að það sé í samræmi við jafnræðissjónarmið að segja upp starfsfólki Menntamálastofnunar og gera því að sækja um að sinna áfram sömu verkefnum hjá nýrri stofnun.

BSRB hvetur til þess að áformum ráðherra verði breytt þannig að tryggja megi réttarstöðu starfsfólks og að horft verði til ákvæðis í gildandi lögum um Menntamálastofnun um að starfsfólki verði tryggð störf hjá nýrri stofnun en að það kynni að þurfa að hlíta breytingum á starfi eða starfsstigi í samræmi við nýtt skipurit og starfslýsingu.

 

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?