Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144, 570. mál

Reykjavík, 7. mars 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands.

Breytingin gerir ráð fyrir því að málefnasvið sjóðsins verði útvíkkað. Við úthlutun 2019 og 2020 verði kallað eftir umsóknum til verkefna og rannsókna sem stuðla að fræðslu og forvörnum með það að markmiði að útrýma kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í íslensku samfélagi, fræðslu fyrir ungt fólk um ábyrgt kynlíf, klám og ofbeldi sem og ofbeldi í nánum samböndum. BSRB fagnar því að sjóðnum sé sérstaklega falið að styrkja verkefni á þessu sviði. #Metoo hreyfingin afhjúpaði kynferðislega og kynbundna áreitni á Íslandi, ekki síst á vinnumarkaði, þar sem fjölmargir hópar kvenna stigu fram og lýstu reynslu sinni. Ofbeldi og áreitni þrífst oft í skjóli valdaójafnvægi kynjanna og jaðarsetningu annarra kynjaðra hópa. Forvarnir og fræðsla eru mikilvægur þáttur í því að vinna að jafnari valdahlutföllum og uppræta áreitni og ofbeldi. Fleira þarf þó að koma til. BSRB leggur því til að styrkveitingar sjóðsins vegna kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldi (d. liður) takmarkist ekki eingöngu við fræðslu og forvarnir. Horfa mætti t.d. til þess hvernig kynjahlutföll á vinnustöðum spila saman við vinnustaðamenningu, hvort það skiptir máli að jafnréttisáætlanir séu til staðar innan fyrirtækja og stofnana eða hvort jafnréttissjónarmið séu samþætt við starfsmannastefnu vinnustaða, svo fátt eitt sé nefnt.

Í upphaflegri þingsályktunartillögu um Jafnréttissjóð, frá 144. þingi, eru verkefni sem sjóðurinn styrkir skilgreind með rýmri hætti. Sem dæmi hljóðar a. liður svo „verkefni sem eru til þess fallin að vinna gegn launamun kynjanna og efla almennt jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.“ BSRB leggur því til að tillagan verði orðuð með almennari hætti og að mögulegt verði að styrkja verkefni sem með einhverjum hætti tengjast kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

BSRB gerir ekki athugasemdir við breytta stjórnarskipan og að stjórnsýsla sjóðsins sé færð til Rannís og telur að það gæti jafnvel styrkt sjóðinn og umgjörð hans.


Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?