Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025 – þingskjal 834, mál 592

BSRB fagnar fram kominni tillögu og tekur undir upphafsorð hennar um að þátttaka fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytileika, efli íslenskt samfélag og menningu og sé ein af forsendum fyrir vexti í efnahagslífinu. Innflytjendum hefur fjölgað á Íslandi og fyrirséð er að þeim muni fjölga enn frekar. Því er mikil þörf á vandaðri stefnumótun til þess að taka utan um þennan hóp sem annars kann að verða jaðarsettur. Tillaga um grænbók og hvítbók geta verið mikilvægir liðir í slíkri stefnumótun. BSRB veltir því upp hvort ekki sé rétt að leita einnig samstarfs við háskólasamfélagið, því mikilvægt er að slík stefnumótun byggi á bestu þekkingu og rannsóknum.

 

Vinnumarkaður

BSRB fagnar því að ráðast skuli í reglulegar rannsóknir á launamuni vegna uppruna. Verulega hefur skort á að slíkar rannsóknir séu gerðar og því takmarkaðar upplýsingar til um launamun milli Íslendinga og innflytjenda, en þau gögn sem til eru benda til þess að hann sé til staðar. BSRB gagnrýnir þó að ekki skuli grípa til aðgerða til þess að tryggja að ekki fari fram mismunun í launum. Til dæmis mætti þróa jafnlaunastaðal eða starfsmatskerfi sveitarfélaga áfram til þess að tryggja launajafnrétti vegna uppruna. Stofnanir ríkisins með fleiri en 25 starfsmenn hafa allar innleitt jafnlaunastaðal og gæti ríkið gengið á undan með góðu fordæmi og tekið markviss skref til að útrýma launamun vegna uppruna.

Einnig er fjallað um atvinnuleysi meðal innflytjenda, en sá hópur er afar berskjaldaður fyrir sveiflum á vinnumarkaði og í hættu á að lenda í langtímaatvinnuleysi. Þarna er meðal annars lagt til að fólk af erlendum uppruna fái tvö endurgjaldslaus íslenskunámskeið á ári. Það er afar jákvætt, en fyrir fólk sem er í vinnu telur BSRB afar mikilvægt að fólk eigi aðgang að íslenskukennslu á vinnutíma, allavega að hluta. Beita mætti hvötum eða reglusetningu til þess að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að bjóða upp á íslenskunám á vinnutíma.

Varðandi vinnuvernd og réttindi á vinnumarkaði þá er ljóst að fólk af erlendum uppruna er berskjaldað fyrir hvers kyns brotum, jafnt alvarlegum sem minna alvarlegum. Frásagnir sem komu fram í fyrstu #metoo bylgjunni af hálfu erlendra kvenna voru átakanlegar og vinnustaðaeftirlit stéttarfélaga á almennum markaði hefur sýnt fram á margvíslegar brotalamir í vinnuumhverfi innflytjenda. Mikilvægt er að gera upplýsingar og fræðsluefni aðgengilegt á fleiri tungumálum, en sem dæmi má nefna að aðeins lítill hluti vefs Vinnueftirlitsins hefur verið þýddur yfir á ensku og hann er ekki til á fleiri tungumálum, svo sem pólsku. Því þarf verulega að gera bragarbót á í þessum málaflokki. Samstarf við stéttarfélög, ekki síst þau sem sinna vinnustaðaeftirliti, er lykilatriði þegar kemur að stefnumótun um vinnuvernd erlends starfsfólks, en mikil þekking hefur myndast innan verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum.

Þá fagnar BSRB því að rýmka eigi reglur um útgáfu dvalarleyfa og að fólk sem fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða fái óbundið atvinnuleyfi.

Að öðru leyti gerir BSRB ekki athugasemdir við tillöguna og styður framgang hennar.

 

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind

lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?