Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis

Reykjavík, 11. janúar 2019

 

BSRB hefur tekið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um kynjavakt Alþingis.

BSRB fagnar tillögunni og hvetur til þess að hún verði tekin til afgreiðslu á Alþingi. BSRB hefur ítarlega stefnu í jafnréttismálum og þar kemur m.a. fram að fjölga verði konum í valda- og áhrifastöðum. Með því að greina raunverulega stöðu kynjanna á þingi, sem og í áhrifastöðum bæði meðal þingmanna og starfsfólks þingsins er hægt að safna mikilvægum upplýsingum sem geta nýst í stefnumótun. Þá er einnig jákvætt að teknar verði saman upplýsingar um lög, áætlanir og stefnur um jafnrétti þar sem þær upplýsingar munu geta nýst víða. Þá minnkar einnig áhætta af því að stefnur séu ekki endurnýjaðar í tæka tíð, eins og nefnd eru dæmi um í greinargerð með tillögunni.

BSRB veltir því þó fyrir sér hvort hugtakið „kynnæmir vísar“ sé nægilega lýsandi fyrir það sem átt er við, enda virðast flestar niðurstöður leitarvéla á veraldarvefnum vísa til atriða tengdum kynhvöt. BSRB leggur því til að fundið verði nýtt hugtak og bendir á að hugtakið „kynjanæmir vísar“ sé betur til þess fallið að eiga við, en þar er vísað til munar á hugtökunum kynfræði og kynjafræði. Einnig mætti leita fanga hjá fræðifólki í kynjafræði. Að öðrum kosti má velta fyrir sér hvort það sé yfir höfuð nauðsynlegt að þýða hugtakið yfir á íslensku og hvort fari þá betur á því að umorða tillöguna þannig merkingin komist til skila án þess að nota sérstakt hugtak yfir „gender sensitivity.“


Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?