Umsögn um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020

Umsögn BSRB um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020, 841. mál

Reykjavík, 3. júní 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar þriðja frumvarp ríkisstjórnar Íslands til fjáraukalaga fyrir árið 2020 vegna heimsfaraldursins sem veldur Covid-19. Í frumvarpinu er lagt til að framlög til vinnumála og atvinnuleysis hækki um 63 milljarða króna vegna útgjalda til hlutabóta atvinnuleysistrygginga, launa í uppsagnafresti og launa í sóttkví.

Nauðsynlegt að hækka greiðslur atvinnuleysistrygginga

BSRB vill ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt er að hækka atvinnuleysisbætur úr 289.510 kr. á mánuði í 320.720 en það jafngildir hækkun kauptaxta samkvæmt lífskjarasamningi á árunum 2019 og 2020. Mikilvæg er að fjárhæðir atvinnuleysistrygginga fylgi launahækkunum til samræmis við kjarasamninga. Einnig verður að hækka tekjutengdar greiðslur atvinnuleysistrygginga og lengja réttinn til þeirra úr þremur mánuðum í sex. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru nú að hámarki 456.404 kr. á mánuði og aðeins er greitt sem nemur 70% af fyrri launum. Til samanburðar má benda á að hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa er 633.000 kr. á mánuði og laun í uppsagnarfresti nema að hámarki 633.000 kr. á mánuði.

Atvinnuleysi er fólki gríðarlega erfitt og fjárhagslegt óöryggi sem því veldur mikill streituvaldur. Með hækkun og lengingu réttinda til tekjutengdra atvinnuleysistrygginga og hækkun grunnbóta yrði framfærsla þess stóra hóps sem nú er án atvinnu að öllu leyti betur tryggð og fjárhagsáhyggjur og sú streita sem veldur atvinnuleysi minnkuð. Fólk yrði þá betur í stakk búið til að takast á við atvinnuleit, taka ákvarðanir um nám eða aðrar leiðir til að afla sér lífsviðurværis til framtíðar. Hækkunin myndi einnig leiða til aukinnar kaupgetu mörgþúsund einstaklinga vinna þannig gegn enn frekari samdrætti í efnahagslífinu.

Öflug opinber þjónusta og afkoma hins opinbera

Verði frumvarpið samþykkt óbreytt hækka útgjöld ríkisins vegna fjáraukalaganna þriggja um rúmlega 103 milljarða á árinu 2020 eða um rúm 10 prósent. Endanlegt mat á tekjutapi ríkissjóðs og sveitarfélaga vegna minni efnahagsumsvifa liggur enn ekki fyrir. Ljóst er að hið opinbera mun verða rekið með miklum halla þetta árið og mikilvægt er að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stuðli að auknum efnahagsumsvifum en dragi ekki úr þeim enn frekar. Nauðsynlegt er að fjárhagsleg afkoma sveitarfélaganna verði einnig tryggð. BSRB minnir því enn einu sinni á að ekki má mæta þessum tímabundna halla með því að skera niður framlög til opinberrar þjónustu. Þvert á móti ber að efla opinbera heilbrigðis-, félags- og umönnunarþjónustu til að bæta heilsu og velsæld sem til lengri tíma eykur framleiðni launafólks, leiðir til hærra atvinnustigs og eykur þar með tekjur ríkissjóðs.

Kynjaáhrifin af fjárfestingu í opinberri þjónustu eru einnig mjög jákvæð. Meginástæðurnar eru hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er en þrátt fyrir háa atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi er um þriðjungur þeirra í hlutastarfi vegna ábyrgðar á börnum og/eða ættingjum eða reksturs heimilis. Í samanburði við önnur Evrópulönd eru aðstandendur á Íslandi undir mestu álagi allra vegna umönnunar óvinnufærra ættingja, sjúkra eða aldraðra og það eru konur sem axla megin ábyrgðina á þeirri vinnu. Með eflingu opinberrar umönnunar og velferðarþjónustu geta fleiri unnið launavinnu og greitt skatta, eftirspurn eykst, sem og jöfnuður og kynjajafnrétti. Atvinnutækifærum fólks af erlendum uppruna mun einnig fjölga við slíkar aðgerðir, sérstaklega meðal kvenna.

Hallarekstri ríkissjóðs má ekki mæta með niðurskurði til opinberrar þjónustu, tilfærslukerfanna og fjárfestinga heldur með tekjustofnun ríkisins til lengri tíma.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?