Umsögn um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 og frumvarp um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Umsögn BSRB um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 26/2020, 724. mál og frumvarp til laga um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 726. mál.

Reykjavík, 27. apríl 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvörp um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og heimildir til fjárveitinga vegna þeirra.

BSRB tekur ekki afstöðu til 3. greinar í máli 724 og 1., 3., 4. og 9. greinar í máli nr. 726.

Álagsgreiðslur til starfsfólks í framlínu

Í frumvarpi til fjáraukalaga (máli 724) er lagt til að einum milljarði króna verða varið til að greiða því heilbrigðisstarfsfólki sem staðið hefur í framlínunni í baráttunni við COVID-19 faraldurinn sérstaka launaauka í formi eingreiðslu. BSRB fagnar slíkum álagsgreiðslum en telur að greiðslurnar þurfi að ná til mun stærri hóps enda eru mun fleira starfsfólk í framlínu sem er undir auknu álagi og í sérstakri smitáhættu vegna starfa sinna. Hjá ríkinu eru það t.d. starfsfólki í umönnunarstörfum og ræstingum og viðbragðsaðilar á borð við lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn. BSRB telur eðlilegt að fjárveiting til slíkra álagsgreiðslna verði aukin verulega og skilgreining á skilyrðum til greiðslnanna verði unnin í samráði við stéttarfélög opinberra starfsmanna til að tryggja sanngirni í útdeilingu greiðslnanna. Enn fremur að sveitarfélög og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu skuldbindi sig til slíkra greiðslna gagnvart sínu starfsfólki í framlínu og taki þá þátt í samráðinu.

Stuðningur við heimili

BSRB fagnar tillögum að félagslegum aðgerðum líkt og auknum fjárveitingum til geðheilbrigðismála og aðgerða gegn ofbeldi, stuðnings við foreldra sem ekki geta sótt vinnu vegna þess að þjónusta við langveik börn þeirra og börn með fötlun hefur legið niðri og fjárveitingu til að tryggja að börn fólks með lægstu tekjurnar geti tekið þátt í íþrótta- og tómstundastarfi. Mikið vantar þó upp á að verið sé að vernda viðkvæmustu hópana.

BSRB krefst þess að mun lengra verði gengið í stuðningi við heimili sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna nauðsynlegra aðgerða í sóttvarnamálum. Mikilvægt er að hafa í huga að það er oftast fólk í tekjulægstu hópunum sem hefur minni sveigjanleika varðandi vinnuaðstæður og er því hættara við að verða fyrir tekjufalli ef undirliggjandi sjúkdómar eða rof á skólahaldi gera þeim ekki kleift að mæta til vinnu. Það er algjörlega óásættanlegt að þessir hópar standi óbættir hjá garði vegna tekjufalls og nauðsynlegt er að bregðast vel og hratt við. Tímabundið tekjufall getur haft langvarandi fjárhagsleg áhrif á heimilin sem um ræðir. Einnig er nauðsynlegt að bótafjárhæðir almanna- og atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar. Helstu áherslur BSRB í þessum efnum eru eftirfarandi:

 • Tryggja verður afkomu foreldra sem geta ekki sótt vinnu vegna skerts skólastarfs eða þjónustu við börn sín og geta ekki sinnt starfi sínu í fjarvinnu. Úrræðið taki mið af fyrirkomulagi varðandi laun í sóttkví.
  • Í Noregi voru greiðslur til foreldra vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna tvöfaldaðar vegna faraldursins. Þar á hvort foreldri um sig rétt á 20 dögum fyrir 1-2 börn og 30 dögum ef börnin eru þrjú eða fleiri. Einstæðir foreldrar eiga rétt á 40 dögum fyrir 1-2 börn og 60 dögum ef börnin eru þrjú eða fleiri. Í Svíþjóð er verið að undirbúa svipað úrræði innan VAB (Vård av barn).
 • Tryggja verður afkomu einstaklinga sem eru frá vinnu vegna aukinnar áhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma, eða eiga börn með undirliggjandi sjúkdóma og eru heima samkvæmt tilmælum læknis. Úrræðið taki mið af fyrirkomulagi varðandi laun í sóttkví.
  • Greiðslur til einstaklinga sem eru í sjálfsskipaðri sóttkví vegna undirliggjandi sjúkdóma hafa verið tryggðar í Svíþjóð.
 • Tryggja verður afkomu launafólks sem á hvorki rétt til launa né réttindi í samtryggingarsjóðum með tímabundnum undanþágum á atvinnuleysistrygginga-löggjöfinni.
 • Atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og þær fylgi launahækkunum kjarasamninga.
  • Þann 1. janúar 2020 hækkuðu grunnatvinnuleysisbætur um 9.790 kr. BSRB leggur til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar um 17.000 kr. frá og með 1. janúar 2020 (í stað 9.790 kr.) og 24.000 kr. frá og með 1. apríl 2020. Eðlilegt er að fjárhæðir atvinnuleysisbóta fylgi launaþróun. Hækkun atvinnuleysisbóta er nauðsynleg til að treysta megi afkomu þeirra sem missa atvinnuna.
 • Elli- og örorkulífeyrir verði hækkaður.
  • Þann 1. janúar 2020 hækkuðu greiðslur ellilífeyrisþega sem búa með öðrum um 8.700 kr. á mánuði og um tæplega 10.900 kr. hjá þeim sem búa einir. Lágmarksframfærslutrygging örorkulífeyrisþega hækkaði með svipuðum hætti. BSRB leggur til að almannatryggingar verði hækkaðar um 17.000 kr. frá og með 1. janúar 2020 (í stað hækkunarinnar sl. áramót) og 24.000 kr. frá og með 1. apríl 2020. Fyrir liggja upplýsingar um að verst stöddu ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar séu í þeim hópi sem er hvað hættast við því að lenda í fátækt. Nauðsynlegt er að fjárhæðir almannatrygginga fylgi launahækkunum kjarasamninga til að draga úr ójöfnuði og til að tryggja megi afkomu fólks.

Fjárfesting til framtíðar

BSRB fagnar auknum framlögum í vinnumarkaðsaðgerðir og menntaúrræði á framhalds- og háskólastigi. Mikilvægt er að leggja áherslu á að styðja við frekari sí- og endurmenntun, hæfniþróun og vinnumarkaðsaðgerðir í greinum sem geta stuðlað að frekari verðmætasköpun í samfélaginu og skapa störf sem standa undir því velferðarstigi sem við viljum búa við. Þegar hefur verið stofnað til samráðshóps sem bandalagið fagnar sérstaklega. BSRB styður einnig auknar fjárveitingar í sjóði sem veita styrki til vísinda, nýsköpunar, samkeppni og þekkingargreina sem og aukinna fjárframlaga í menningarsjóði. BSRB fagnar því að jafnréttisáhrif af félagslegum aðgerðum hafi verið metin en leggur áherslu á að allar aðgerðir stjórnvalda geta haft áhrif á kynin með mismunandi hætti, líka þegar kemur að fjárfestingum og mótun vinnumarkaðsaðgerða og menntaúrræða.

Mikilvægi opinberrar þjónustu

Það veldur miklum áhyggjum að ekki sé verið að veita frekari fjármunum til að styrkja heilbrigðisþjónustu, löggæslu og aðra mikilvæga opinbera þjónustu. Nú sem aldrei fyrr sannast hversu mikilvæg þessi þjónusta er. Flestar af þeim opinberu stofnunum sem nú eru undir gríðarlegu álagi hafa búið við fjársvelti um árabil sem hefur leitt til langvarandi álags á starfsfólk. Fyrir liggur að viðbótarkostnaður Landspítala hleypur á milljörðum króna en fleiri stofnanir munu þurfa á viðbótarfjárveitingum að halda og mikilvægt er að þeim verði mætt að fullu og tímanlega. Það þarf nýja nálgun á opinbera þjónustu svo að þjónustan geti staðið undir auknum kröfum samhliða faraldrinum og til framtíðar.

BSRB vill í því sambandi vekja athygli á nýlegri rannsókn sem náði til sjö aðildarríkja OECD [1]. Niðurstöðurnar sýna að fjárfesting í opinberri þjónustu skapar fleiri störf en fjárfestingar fyrir sambærilegar fjárhæðir í framkvæmdum því nánast öll framlögin fara beint í launakostnað. Framkvæmdir skapa störf og afleidd störf en rannsóknin sýnir að fjárfestingar í umönnun og velferð, svo sem öldrunarþjónustu, heilbrigðiskerfinu og leikskólum, eru ekki síður árangursríkar og jafnvel vænlegri til árangurs. Aukin framlög til þess konar þjónustu leiða til hærra atvinnustigs og auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu fyrirtækja í hagkerfinu sem aftur eykur tekjur ríkissjóðs. Fjárfestingarnar hafa líka langtímaáhrif því betri heilsa og velsæld leiða til aukinnar framleiðni launafólks.

Kynjaáhrifin af fjárfestingu í opinberri þjónustu eru einnig mjög jákvæð. Meginástæðurnar eru hve kynskiptur vinnumarkaðurinn er en þrátt fyrir háa atvinnuþátttöku kvenna á Íslandi er um þriðjungur þeirra í hlutastarfi vegna ábyrgðar á börnum og/eða ættingjum eða reksturs heimilis. Í samanburði við önnur Evrópulönd eru aðstandendur á Íslandi undir mestu álagi allra vegna umönnunar óvinnufærra ættingja, öryrkja eða aldraðra og það eru konur sem axla megin ábyrgðina á þeirri vinnu. Með eflingu opinberrar umönnunar og velferðarþjónustu geta fleiri unnið launavinnu og greitt skatta, eftirspurn eykst, sem og jöfnuður og kynjajafnrétti. Atvinnutækifærum fólks af erlendum uppruna mun einnig fjölga við slíkar aðgerðir, sérstaklega meðal kvenna.

Tekjufall hins opinbera

BSRB styður heimild til fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að veita styrki til sveitarfélaga til að fjármagna framkvæmdir til að bæta aðgengi fatlaðs fólks að húsnæði sveitarfélaga og milda tekjufall Jöfnunarsjóðsins. Hins vegar telur BSRB mikilvægt að tryggja að tekjufall sveitarfélaga vegna heimsfaraldursins verði ekki til þess að skerða þurfi þjónustu sveitarfélaga til lengri tíma og fundin verði leið fyrir sveitarfélögin til að mæta tímabundnum samdrætti í efnahagslífinu án þess að það bitni á fjárveitingum til skóla- og frístundamála, velferðar- og félagsþjónustunnar. Það sama gildir um tekjufall ríkisins. Mikilvægt er að því verði ekki mætti með niðurskurði heldur með eflingu tekjustofna til lengri tíma.

BSRB mun aldrei samþykkja að efnahagsleg byrði yfirstandandi efnahagssamdráttar falli á opinbera þjónustu og auki enn frekar álag á það launafólk sem sinnir henni. 

Að lokum

BSRB gerir ekki frekari athugasemdir við frumvörpin en vekur athygli á tillögum að aðgerðum sem sendar voru stjórnvöldum þann 17. apríl sl. og nálgast má á vefslóðinni: https://www.bsrb.is/static/files/Ymis-skjol/tillogur-bsrb-ad-adgerdum-vegna-covid-19.pdf


Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

 

[1] Rannsóknina má nálgast hér.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?