Umsögn um frumvarp um breytingu á lögreglulögum

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (verkfallsréttur lögreglumanna), 68. mál

Reykjavík, 2. desember 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 þar sem lagt er til að verkfallsréttur Iögreglumanna verði endurreistur. BSRB styður framgang málsins, enda verkfallsréttur og samningsfrelsi launafólks grundvallarréttur sem verndaður er samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

BSRB telur að ekki þurfi að fara mörgum orðum um þau vandkvæði sem hafi fylgt því samkomulagi sem afsal verkfallsréttar í stað kauptryggingar á launum lögreglumanna hefur haft í för með sér. Frá því að verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn árið 1986 hafa ávallt staðið yfir langar deilur í hvert sinn sem kjarasamningar þeirra eru lausir. Vísað er til umsagnar Landssambands lögreglumanna við samskonar þingmál á 44. löggjafarþingi, mál nr. 372, til frekari upplýsinga um kjaradeilur lögreglumanna við ríkið.

BSRB bendir á að bann við verkföllum getur varðað brot á mannréttindum þar sem um neyðarrétt launafólks er að ræða til að ná framgangi krafna sinna. Ákvæði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins íslands nr. 33/1944 með hliðsjón af 11. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, hefur verið túlkað þannig í dómaframkvæmd að það verndi ekki eingöngu rétt manna til að stofna stéttarfélög heldur einnig frelsi stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna, þ.m.t. með verkföllum.

Ef verkfallsréttur er afnuminn er undantekningarlaust skilyrði þess að viðkomandi stétt séu tryggð jafn góð eða betri úrræði um kjaramyndun þeirra. Í tilfelli lögreglumanna hefur það sýnt sig að afnám verkfallsréttarins hefur ýtt frekar undir aðstöðumun aðila við kjarasamningsgerð. Þar af leiðandi hefur skapast dráttur á kjarasamningsgerð þegar samningar eru lausir allar götur síðan 1986. Það er ótækt ástand fyrir alla aðila. BSRB krefst þess því að lögreglumenn fái aftur verkfallsrétt sinn og styður framgang málsins.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?